Brunavarnir í Hvalfjarðargöngum

Miðvikudaginn 18. febrúar 1998, kl. 15:35:52 (4040)

1998-02-18 15:35:52# 122. lþ. 70.9 fundur 400. mál: #A brunavarnir í Hvalfjarðargöngum# fsp. (til munnl.) frá umhvrh., umhvrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 70. fundur, 122. lþ.

[15:35]

Umhverfisráðherra (Guðmundur Bjarnason):

Hæstv. forseti. Eins og hv. fyrirspyrjandi benti á var þessi málaflokkur, um brunavarnir, brunamál og málefni Brunamálastofnunar, fluttur til umhvrn. um síðustu áramót. Því hefur okkur ekki gefist langur tími til að fjalla um málefni er varða þennan málaflokk. En mál það sem hv. þm. hreyfir hefur verið í umræðu og athugun á undanförnum mánuðum. Meðal annars var fjallað um það í félmrn. á sl. ári.

Varðandi fyrri lið fyrirspurnar hv. fyrirspyrjanda, um viðhorf ráðherrans, er ég ótvírætt þeirrar skoðunar að lög um brunavarnir og brunamál, nr. 41/1992, sbr. lög nr. 83/1997, um breytingu á þeim lögum, nái til brunavarna í Hvalfjarðargöngum og samkvæmt því fari Brunamálastofnun ríkisins með eftirlit með brunavörnum í því mannvirki.

Hv. þm. minnir síðan á að skiptar skoðanir hafi verið um það hvort farið sé að þeim reglum sem Brunamálastofnun telur rétt að framfylgja. Síðari liður fyrirspurnarinnar er um það. Auðvitað er nauðsynlegt að þar sé farið að tillögum Brunamálastofnunar. Við höfum hins vegar átt viðræður við málsaðila á seinustu dögum. Ráðuneytið var upplýst um að hlutaðeigandi aðilar hafi átt í viðræðum um lausn málsins, þ.e. Brunamálastofnun Íslands, Vegagerðin og Spölur hf. Samkvæmt upplýsingum frá þessum aðilum hefur þokast verulega í rétta átt og allt útlit fyrir að það sem kann að hafa borið á milli verði leyst með samkomulagi.

Hv. þm. rifjaði upp að samkvæmt bréfi eða greinargerð frá því í september sl. hafi verið tekið tillit til sumra þátta en ekki allra.

Þetta eru upplýsingar þær sem ég hef. Ég geri mér vonir um að þetta mál leysist farsællega og ekki þurfi að koma til afskipta ráðuneytisins. Ef þörf krefur mun ég að sjálfsögðu beita mér fyrir því að farið verði eftir ábendingum Brunamálastofnunar um brunavarnir í Hvalfjarðargöngunum og vísa þá til svars míns við fyrri lið fyrirspurnar hv. þm.