Brunavarnir í Hvalfjarðargöngum

Miðvikudaginn 18. febrúar 1998, kl. 15:38:52 (4041)

1998-02-18 15:38:52# 122. lþ. 70.9 fundur 400. mál: #A brunavarnir í Hvalfjarðargöngum# fsp. (til munnl.) frá umhvrh., Fyrirspyrjandi JóhS
[prenta uppsett í dálka] 70. fundur, 122. lþ.

[15:38]

Fyrirspyrjandi (Jóhanna Sigurðardóttir):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. umhvrh. fyrir svörin. Ég tel hann hafa svarað að fullu og öllu því sem ég spurði um. Greinilegt er að áhöld hafa verið um þetta þar sem Brunamálastofnun telur ástæðu til að óska eftir úrskurði félmrn. um það hvort brunavarnir í Hvalfjarðargöngum heyrðu undir lög um brunavarnir og brunamál. Eins hefur sjálf stofnunin leitað lögfræðilegs álits í þessu efni. Ég vildi því fá alveg afdráttarlaust, eftir að umhvrh. hefur tekið við þessum málaflokki, hvort afstaða hans væri sú hin sama.

Auðvitað er mikið í húfi með að hafa fullkomnar bruna- og öryggisvarnir í Hvalfjarðargöngum. Ekki er hægt að láta sem vind um eyrun þjóta þegar upplýst er um alvarlegar athugasemdir Brunamálastofnunar varðandi öryggi brunavarna þar.

Ég fagna því sem hæstv. ráðherra segir, að hann muni beita sér fyrir því að farið verði eftir athugasemdum og ábendingum Brunamálastofnunar. Hann getur þess jafnframt að hann telji að sá ágreiningur sem þarna hefur verið, verði leystur með samkomulagi. Ég skildi ráðherra líka svo, ég bið hann að andmæla ef ég hef ekki skilið hann rétt, að ef málið leysist ekki með samkomulagi og Brunamálastofnun telur vanta á öryggi brunavarna, þá hefði Brunamálastofnun lokaorðið í því. Ráðherra lýsti því áðan yfir að hann mundi beita sér fyrir því að eftir athugasemdum og ábendingum Brunamálastofnunar yrði farið. Ég fagna því.