Könnun á hagkvæmni kalkþörungavinnslu

Miðvikudaginn 18. febrúar 1998, kl. 15:47:50 (4045)

1998-02-18 15:47:50# 122. lþ. 70.10 fundur 409. mál: #A könnun á hagkvæmni kalkþörungavinnslu# fsp. (til munnl.) frá sjútvrh., Fyrirspyrjandi KHG
[prenta uppsett í dálka] 70. fundur, 122. lþ.

[15:47]

Fyrirspyrjandi (Kristinn H. Gunnarsson):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. sjútvrh. fyrir svörin. Margt nýtt kom fram í þeim sem er áhugavert og lýsir því ferli sem er fram undan til að framfylgja ályktun Alþingis. Þó er ljóst að verkið er ekki hafið af þeim ástæðum að ekki er fjármagn fyrir hendi. Ég minni á að Alþingi fól ráðherra að gera þessa athugun og því hefði átt að koma frá ráðherranum ef þörf var á ósk um fjárveitingu til verksins við gerð síðustu fjárlaga. Ég minnist þess ekki að það hafi komið fram í þeim gögnum sem fyrir lágu að erindi væri frá ráðuneytinu eða stofnunum á vegum þess um fjárveitingu til þessa verkefnis.

Ég hvet því hæstv. fjmrh. til þess að beita sér fyrir því að afla fjár til þess að unnt verði að hefja framkvæmdir þegar á þessu sumri og undirbúa síðan tryggari fjármögnun rannsóknarinnar í heild við gerð fjárlaga fyrir næsta ár.