Löggæsla í austurhluta Reykjavíkur

Miðvikudaginn 18. febrúar 1998, kl. 16:33:04 (4068)

1998-02-18 16:33:04# 122. lþ. 70.14 fundur 439. mál: #A löggæsla í austurhluta Reykjavíkur# fsp. (til munnl.) frá dómsmrh., KÁ
[prenta uppsett í dálka] 70. fundur, 122. lþ.

[16:33]

Kristín Ástgeirsdóttir:

Hæstv. forseti. Ég þakka fyrirspyrjanda fyrir að vekja athygli á þessu máli í þingsölum. Ég held að það sé ljóst að ástandið er ekki nógu gott í austurhluta borgarinnar. Það á ekki eingöngu við um Árbæinn heldur má benda á hið gríðarlega stóra og vaxandi hverfi í Grafarvoginum. Þarna er sívaxandi byggð og óviðunandi að löggæsla skuli ekki vera meiri og betri en hún er.

Það gefur auga leið að lögreglustöð hefur ákveðin varnaðaráhrif. Menn eru fljótari á vettvang og það eykur öryggi borgaranna. Ég hvet hæstv. dómsmrh. til að flýta úrbótum í þessum efnum þannig að ástandið komist í betra horf. Þó þarf vissulega meira til að draga verulega úr skemmdarfýsn og glæpum sem því miður eru of margir.