Löggæsla í austurhluta Reykjavíkur

Miðvikudaginn 18. febrúar 1998, kl. 16:34:15 (4069)

1998-02-18 16:34:15# 122. lþ. 70.14 fundur 439. mál: #A löggæsla í austurhluta Reykjavíkur# fsp. (til munnl.) frá dómsmrh., Fyrirspyrjandi SvG
[prenta uppsett í dálka] 70. fundur, 122. lþ.

[16:34]

Fyrirspyrjandi (Svavar Gestsson):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. dómsmrh. fyrir svörin og ég þakka hv. þingmönnum Guðmundi Hallvarðssyni og Kristínu Ástgeirsdóttur fyrir undirtektirnar við það erindi sem hér er borið fram.

Ljóst er að löggæsla í austurhluta borgarinnar verður áfram ófullnægjandi, því miður, þrátt fyrir þær umbætur sem nú er talað um.

Löggæslan er orðinn mikilvægur þáttur í félagskerfi borga. Staða löggæslunnar og lögreglumanna er að mörgu leyti allt önnur en hún var fyrir 20, 30, ég tala nú ekki um 50 árum eða svo. Nú er löggæslan gríðarlega mikilvægur þáttur í að eðlilegt félagskerfi borga geti gengið svo viðunandi sé og verið öruggt fyrir íbúa. Það þarf auðvitað að vera þannig að börn, unglingar og fullorðið fólk geti farið út á kvöldin án þess að vera hrætt. Veruleikinn er því miður sá að þetta fólk fer oft og tíðum ekki út á götur á kvöldin af því að það er hrætt við ástandið. Í raun og veru er það engum sérstökum um að kenna. Hins vegar er margsannað að með virkri og góðri löggæslu er hægt að draga úr hættunni og vandanum. Ég óttast því að úrbæturnar séu ófullnægjandi en ég þakka engu að síður fyrir þær og svör hæstv. ráðherra.

Ef hæstv. ráðherra kemur hér aftur, vildi ég spyrja hann: Ef það á nú að fjölga löggæslumönnum örlítið á sumum svæðum, eins og t.d. í Grafarvogi nýlega, úr þremur í fimm ef ég man rétt, hvar er þá verið að fækka? Er ekki veruleikinn sá að um er að ræða niðurskurð á raunframlögum til löggæslu á þessu svæði og stöndum við ekki frammi fyrir því að þurfa að breyta þar um stefnu? Ég held að í óefni stefni ef við tökum ekki af alvöru á þessum málum og sinnum málefnum lögreglunnar eins og hverjum öðrum mikilvægum þætti í að rekstri þessa samfélags.