Rannsóknir og nýting á auðlindum í jörðu

Fimmtudaginn 19. febrúar 1998, kl. 10:33:13 (4072)

1998-02-19 10:33:13# 122. lþ. 72.4 fundur 359. mál: #A eignarhald og nýting á auðlindum í jörðu# frv., HG
[prenta uppsett í dálka] 72. fundur, 122. lþ.

[10:33]

Hjörleifur Guttormsson:

Virðulegur forseti. Það mál sem við ræðum nú er hið fyrsta á dagskrá af mörgum málum sem varða eignarhald og nýtingu auðlinda. Þetta er framhald umræðu sem hófst 5. febrúar sl. með framsöguræðu hæstv. iðnrh. og áttum við stutt orðaskipti í framhaldi af því í andsvörum. Fyrir utan stjfrv. sem hæstv. ráðherra mælti fyrir þá liggja fyrir þinginu og á þessum fundi raunar, tvö frv. flutt af hv. þingmönnum jafnaðarmanna, annars vegar um hliðstætt efni og hins vegar um virkjunarrétt vatnsfalla.

Hér er einnig á dagskrá frv. um stjórnarskipunarlög, á þskj. 152, og síðan er á dagskrá þáltill. frá þingflokki Alþb. um skipan opinberrar nefndar um auðlindagjald.

Áður eru komin til þingnefnda nokkur frv. er varða sömu mál eða skyld, þ.e. frv. ríkisstjórnarinnar um þjóðlendur sem hæstv. forsrh. mælti fyrir ekki alls fyrir löngu og er komið til allshn. Þá var mælt fyrir frv. Alþb. um breytingu á stjórnarskipunarlögum sem við þingmenn Alþb. flytjum, með hv. þm. Ragnar Arnalds sem 1. flm. Fyrir iðnn. liggja tvö frv. sem þingflokkur Alþb. hefur flutt, raunar á mörgum umliðnum þingum, um virkjunarrétt fallvatna og um jarðhitaréttindi. Þau voru send til hv. iðnn. á haustþingi.

Ég vil einnig geta, virðulegur forseti, um till. til þál. sem ég er flutningsmaður að, um þjóðgarða á miðhálendi Íslands. Það mál varðar meðferð lands og hvernig náttúruverndarlögum skuli beitt til verndunar á stórum svæðum miðhálendisins.

Eðlilegt er, virðulegi forseti, að umræða um þessi mál blandist nokkuð saman í þinginu. Í þeim kemur fram mismunandi afstaða stjórnmálaflokka til grundvallarmála sem lengi hafa verið rædd í þjóðfélaginu en eru enn óútkljáð.

Meginefni þess frv. sem við ræðum hér, frv. ríkisstjórnarinnar, er að lögfesta ákvæði um það að landareign fylgi eignarréttur á auðlindum í jörðu. Verði frv. þetta að lögum hefur Alþingi m.a. fallist á að lögfesta eftirfarandi sjónarmið og stefnu: Í fyrsta lagi að jarðhiti hversu djúpt í jörðu sem hann er sóttur teljist eign landeigandans, þ.e. fylgi einkaeignarrétti á eignarlöndum. Í öðru lagi að grunnvatn fylgi með sama hætti einkaeignarrétti á eignarlöndum. Í þriðja lagi að hvers kyns jarðefni svo sem gosefni að steinefnum meðtöldum, málmar og jarðolía teljist eign landeiganda. Síðan boðar hæstv. ráðherra að á komandi haustþingi verði flutt frv. sem tengist nýtingu vatnsfalla. Það tekur þá væntanlega til orku fallvatna og ákvæða um virkjunarrétt, hafi ég lesið mál hæstv. ráðherra rétt. Þessi gæði verða þannig látin fylgja landareign svo sem hér er gert ráð fyrir.

Hér er, virðulegur forseti, um stórpólitískt mál að ræða og í raun koma mikil tíðindi fram í því frv. hæstv. ríkisstjórnar sem við ræðum hér. Þessi ríkisstjórn Framsfl. og Sjálfstfl. vill með lögum færa svonefndum landeigendum náttúruauðlindir landsins. Þeir hafa þó engan þátt átt í að skapa þær eða auka við þær og fæstir hafa í raun nokkurt bolmagn til að nýta þessar náttúruauðlindir. Áður en kemur til nýtingar þessara auðlinda ber nýtingarleyfishafa, samkvæmt frv., að greiða landeiganda endurgjald fyrir auðlindina eða greiðslu samkvæmt mati sé hún tekin eignarnámi.

Frv. þetta er borið fram af stjórnmálaflokkum sem fyrir nokkrum áratugum lutu forustu manna eins og Ólafs Jóhannessonar og Bjarna Benediktssonar, virtra fræðimanna í lögum. Þeir stóðu fyrir og vörðu allt önnur sjónarmið í þessum málum, þau sjónarmið að eðlilegt gæti talist að slíkar auðlindir væru lýstar almannaeign, þ.e. sameign þjóðarinnar eða takmörk væru sett varðandi nýtingu þeirra með tilliti til bótaréttar. Þeir hefðu ekki talið að lögfesting slíkra viðhorfa þyrfti að stangast á við eignarréttarákvæði stjórnarskrárinnar.

Þessi viðhorf, virðulegur forseti, eru rækilega rakin í greinargerð með frv. okkar alþýðubandalagsmanna um jarðhitaréttindi og orku fallvatna. Ég tel, virðulegur forseti, rétt að víkja nánar að því hér á eftir. Þau frv. sem nú eru fyrir iðnn. þingsins gera ráð fyrir að þessar náttúruauðlindir verði með lögum lýstar þjóðareign. Orka fallvatna verði þjóðareign án undantekninga, þótt landeigendum sé heimill takmarkaður nýtingarréttur án sérstakra heimilda, og allur jarðhiti neðan 100 metra dýptarmarka verði með sama hætti lýstur þjóðareign. Þá gerir frv. okkar alþýðubandalagsmanna til stjórnarskipunarlaga ráð fyrir að sett verði ákvæði um sameign náttúruauðlinda í stjórnarskrá Íslands.

Í þessum efnum erum við öndverðrar skoðunar við núverandi stjórnarflokka og göngum mun lengra en Alþfl. að því er varðar jarðhita og orku fallvatna.

Stefna Alþfl. og þingflokks jafnaðarmanna kemur, eins og ég hef nefnt, fram í tveimur frv. sem verða síðar á dagskrá þessa fundar. Samkvæmt ákvæðum frv. um eignarhald á auðlindum í jörðu, sem þingmenn jafnaðarmanna flytja, er aðeins gert ráð fyrir að orka háhitasvæða sem sótt er í jörð með borum, tilheyri ríkinu. Jafnframt eru þar hliðranir, svo sem að ráðherra megi ákveða að fallið skuli frá slíkum eignarrétti. Lághiti er hins vegar samkvæmt sama frv. látinn fylgja einkaeignarrétti á landi þótt sækja þurfi hann í iður jarðar. Orka fallvatna er ekki lýst þjóðareign á einkalendum, samkvæmt sérstöku frv. hv. þingmanna jafnaðarmanna, en bætur til landeigenda skulu takmarkaðar við tiltekna þætti samkvæmt 11. gr. þess frv.

Þannig liggja, virðulegi forseti, fyrir þinginu þrjú meginsjónarmið sem snerta þessi mál. Í fyrsta lagi skýlaus einkaeignarstefna hæstv. ríkisstjórnar og stuðningsflokka hennar. Í öðru lagi víðtæk sameignarstefna Alþb., varðandi náttúruauðlindir, þar sem jafnframt er gert ráð fyrir að hóflegt auðlindagjald komi fyrir afnot. Í þriðja lagi er það takmörkuð sameignarstefna Alþfl., ef ég má orða það svo, þar sem gert er ráð fyrir auðlindaskatti að meðtöldu veiðileyfagjaldi. Í greinargerð með því frv. er vikið að því að það gæti með tímanum skilað háum upphæðum í ríkissjóð og jafnvel komið í stað fyrir núverandi tekjuskattskerfi.

[10:45]

Ég vek athygli, virðulegur forseti, á þeirri breyttu stöðu sem þessi mál eru í eftir tilkomu samningsins um hið Evrópska efnahagssvæði. Að þeim samningi gerðum deila Íslendingar í reynd réttindum með öllum íbúum Vestur-Evrópu að Sviss undanskildu. Útlendingar af þessu svæði geta keypt hér lendur sem á annað borð ganga kaupum og sölum án takmarkana. Með því að lögfesta víðtækan einkaeignarrétt á náttúruauðlindum er í reynd verið að afhenda nær 400 millj. manna og innan tíðar enn fleiri ef að líkum lætur rétt til að eignast þær verði þessar auðlindir ekki lýstar sameign þjóðarinnar og það tryggt með lögum og/eða stjórnarskrár\-ákvæðum.

Viðbrögð hæstv. ráðherra í andsvörum við fyrirspurnum mínum fyrr í þessari umræðu, þann 5. febrúar sl., voru einkar athyglisverð, virðulegur forseti. Ég spurði hæstv. ráðherra um það hvers vegna hann bæri hér fram allt aðra stefnu um yfirráð yfir náttúruauðlindum en lögspekingar og stjórnmálaforingjar á borð við Ólaf Jóhannesson og Bjarna Benediktsson og sem fræðimaður eins og prófessor Ólafur Lárusson hefur fært rök fyrir fyrr á tíð. Hvers vegna Framsfl. bæri fram ramma einkaeignarstefnu þegar náttúruauðlindir eru annars vegar andstætt því sem var um prófessor Ólaf Jóhannesson, sem fræðimann og í reynd sem þingmann og ráðherra. Raunar má hið sama segja um fyrrv. formann Framsfl., Steingrím Hermannsson, eins og hann lýsti viðhorfum sínum til þessara mála að gerðum samningnum um hið Evrópska efnahagssvæði.

Mér fannst hæstv. iðnrh. vefjast tunga um tönn er hann svaraði fyrirspurnum mínum eða ábendingum um þetta efni. Hæstv. ráðherra talaði um hálfrar aldar gamalt mat. Það er nokkuð frítt með farið. Ólafur Jóhannesson var forsrh. í ríkisstjórn 1978--1979. Í sáttmála þeirrar ríkisstjórnar var það sem stefnumið að lýsa djúphita í jörðu og orku fallvatna þjóðareign og mál voru undirbúin í tíð þeirrar ríkisstjórnar og þeirrar sem á eftir fór sem hæstv. ráðherra sat í sem utanrrh. og átti hlut að þeim málum sem lögð voru fyrir á þinginu 1982--1983 og hafa síðan oft verið flutt sem þingmannafrumvörp.

Hæstv. iðnrh. sagði að réttarframkvæmd hafi síðan orðið allt önnur. Ekki rökstuddi hæstv. ráðherra það frekar en kannski eigum við eftir að heyra nánari rökstuðning síðar. Hæstv. ráðherra vísaði til þess að tæknilegir möguleikar hafi orðið til að breyta skilgreiningum í þessum málum. Jafnframt að dómar hafi einnig staðfest að þarna sé um eignarréttindi að ræða og væri fróðlegt að heyra um það í hvaða dóm er hér verið að vitna. Í raun er hæstv. ráðherra m.a. að enduróma viðhorf sem lögfræðilegir ráðunautar hæstv. ríkisstjórnar halda að ráðherrum í ríkisstjórninni til þess að auðvelda þeim að rökstyðja þá stefnu sem felst í því frv. sem við ræðum hér. Þó blasa alls staðar við fyrirvararnir í greinargerð með þessu frv. þegar rætt er um einkaeignarréttinn og skírskotun til stjórnarskrárákvæða. Ég leyfi mér, virðulegur forseti, að vitna til greinargerðar þessa frv. þar sem segir:

,,Sérstaklega hefur verið dregið í efa að forsendur séu til þess að skilja eignarrétt að tilteknum auðlindum bótalaust frá eignarráðum sem fylgt hafa eignarlandi eða gera í því efni mun á jarðhita eftir hitastigi. Telja verður að slík tilhögun fái tæpast staðist `` --- ég vek athygli á þessu orðalagi ,,fái tæpast staðist`` --- ,,ákvæði stjórnarskrárinnar um vernd eignarréttar, einkum þegar litið er til þeirra viðhorfa sem mótast hafa til eignarréttinda hér á landi og fylgt hefur verið við mótun löggjafar og í framkvæmd t.d. við ákvörðun bóta við eignarnám á jarðhitaréttindum og við frjálsa samninga um slík réttindi.``

Það væri hægt að vitna til fleiri atriða í greinargerð frv. sem við ræðum. Ég vil benda á bls. 10 þar sem frekar er vikið að þessum efnum og þar koma áfram fyrir fyrirvarar við þá fullyrðingu eða við þá stefnu og skoðun að víðtæk sameign fái ekki staðist ákvæði stjórnarskrárinnar. Segir þar m.a., með leyfi forseta:

,,Með hliðsjón af þessu er því lagt til að staðfest verði sú regla sem í raun hefur verið fylgt við túlkun eignarréttar, að eignarlandi fylgi réttur til auðlinda sem þar finnast.``

Sannfæringarkrafturinn í röksemdafærslu hæstv. ráðherra í þessum efnum er ekki mikill. Þeir sem unnið hafa þessar álitsgerðir fyrir hæstv. ráðherra slá engu föstu um þessi efni að því er varðar heimildir til að setja í lög víðtæk ákvæði um sameign á náttúruauðlindum.

Ég held að rétt sé, virðulegi forseti, að ég vitni örstutt í Ólaf Jóhannesson eins og greint er frá hans sjónarmiði í frv. sem ég er 1. flm. að, um jarðhitaréttindi, því frv. sem er í hv. iðnn. Þar segir í greinargerð sem fylgdi frv. sem lagt var fyrir Alþingi 1956 um jarðhita. Var það ítarlegt frv. á þeim tíma og í 8. gr. þess frv. var svohljóðandi ákvæði, með leyfi forseta:

,,Ríkið á allan rétt til umráða og hagnýtingar jarðhita sem liggur dýpra eða sóttur er dýpra en 100 metra undir yfirborð jarðar, samanber þó 14. gr.``

Með frv. þessu fylgdi ritgerð eftir Ólaf Jóhannesson sem bar nafnið ,,Um eignar- og umráðarétt að jarðhita``. Ritgerð þessi er ítarlegasta lögfræðilega greinargerðin um þessi efni sem skrifuð hefur verið á íslensku. Í henni er fjallað um hversu háttað sé að íslenskum lögum eignar- og umráðarétti jarðhita, hver stefna muni í þeim efnum hallkvæmust hagsmunum bæði einstaklinga og þjóðarheildar og skipun löggjafar á þessu sviði hjá öðrum þjóðum. Niðurstöður Ólafs Jóhannessonar voru þær að þótt réttur landeigenda til umráða og hagnýtingar jarðhita á landi sínu sé að því er virðist litlum skorðum bundinn að núgildandi lögum, þá megi auðvitað setja honum ýmis takmörk með nýrri löggjöf ef ástæða þykir til. Enn fremur segir Ólafur að það sé sanngjörn regla og í samræmi við eðli máls að sérstök náttúruauðæfi sem enginn einstakur hefur átt þátt í að skapa séu sameign þjóðarinnar allrar.

Virðulegur forseti. Það er jafnframt rétt að vekja athygli á því hvað menn hafa gert í öðrum löndum þar sem einkaeignarréttur í almennum skilningi er þó í hávegum hafður og vísa ég í því efni til bls. 7 í greinargerð með frv. til jarðhitaréttinda.

Virðulegur forseti. Ég sé að grænt ljós blikkar í borðinu en ég hef ekki séð klukku ganga hér. Ég á ekki langt mál eftir af ræðu minni en mér hefur ekki verið kleift að fylgjast með neinum tíma.

(Forseti (GÁ): Forseti verður því miður að biðja hv. þm. afsökunar á því að kerfið er í ólagi í dag og því höfum við orðið að handstýra þessum upplýsingum og nú mun það vera svo að verið er að blikka af því að hv. þm. á aðeins eina mínútu eftir af sínum ræðutíma.)

Virðulegur forseti. Ég þakka fyrir upplýsingarnar en betra hefði verið að þær hefðu legið fyrir fyrr eða í upphafi. Ég skal draga saman viðhorf mín í fáeinum lokaorðum.

Hér er, virðulegur forseti, á ferðinni gífurlega stórt mál. Jarðhitinn svo dæmi sé tekið er ein stærsta auðlind þjóðarinnar, sambærileg við fiskimiðin og svipuðu máli gegnir um orku fallvatna. Grunnvatnið í landinu á eftir að verða æ verðmætari auðlind --- en um það er einnig fjallað í þessu frv. með sama hætti að því er varðar eignarrétt og yfirráð --- í heimi þar sem ferskvatn að ekki sé talað um hreint og heilnæmt ferskvatn er takmarkað og fólk á stórum svæðum jarðarinnar er að komast í þrot.

Hvaða rök standa til þess, herra forseti, að Alþingi Íslendinga afhendi slík gæði þeim sem fengið hafa rétt til yfirborðs landsins, til hefðbundinna nota í búskap, til beitar búfjár eða til að reisa þar þak yfir höfuðið? Það væri óheillaverk ef meiri hluti á hv. Alþingi léti hafa sig til þess að festa í sessi með lögum skilning sem er andstæður heilbrigðri skynsemi að mínu mati, að ekki sé talað um réttlætiskennd og þau viðhorf að allir menn séu fæddir jafnir.