Rannsóknir og nýting á auðlindum í jörðu

Fimmtudaginn 19. febrúar 1998, kl. 11:23:27 (4077)

1998-02-19 11:23:27# 122. lþ. 72.4 fundur 359. mál: #A eignarhald og nýting á auðlindum í jörðu# frv., SighB (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 72. fundur, 122. lþ.

[11:23]

Sighvatur Björgvinsson (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil biðja hæstv. iðnrh. að benda mér á hvar í frv. um eignarráð á auðlindum í jörðu og gjald fyrir nýtingu þeirra er miðað við 100 metra dýpt. Ég bið hann um að benda mér á það.

Í öðru lagi er í þessu frv. og því frv. sem samið var í minni ráðherratíð bætt heilum kafla inn í frv., það sem þessir tveir heiðursmenn höfðu fjallað um í sinni álitsgerð. Sá kafli er kafli VII, eignarnáms- og bótaákvæði í frv. til laga um eignarhald á auðlindum í jörðu á þskj. 750. Sá kafli var ekki til í upprunalega frv. sem umsögnin var gerð um. Þannig að þær breytingar sem gerðar voru á frv. frá því að Jón Sigurðsson lagði þau fyrst fram í ríkisstjórn og þangað til ég flutti þau inn á borð, ríkisstjórnar aftur en fékk þau ekki samþykkt vegna andstöðu Sjálfstfl., fullnægðu fyllilega þeim athugasemdum sem fram höfðu komið. Ég ítreka að þær breytingar voru gerðar í samráði við annan umsagnaraðilann og heilum kafla bætt inn um eignarnáms- og bótaákvæði til að taka af öll tvímæli. En ég spyr hæstv. iðnrh. aftur: Vill hæstv. ráðherra ekki gera svo vel og finna orðum sínum stað sem hann mælti úr ræðustól áðan og benda mér á hvar í frv. þau ákvæði eru sem hann fullyrti að þar væru?