Rannsóknir og nýting á auðlindum í jörðu

Fimmtudaginn 19. febrúar 1998, kl. 11:25:37 (4078)

1998-02-19 11:25:37# 122. lþ. 72.4 fundur 359. mál: #A eignarhald og nýting á auðlindum í jörðu# frv., GE
[prenta uppsett í dálka] 72. fundur, 122. lþ.

[11:25]

Gísli S. Einarsson:

Herra forseti. Út af þeim orðaskiptum sem áttu sér stað milli hv. þm. Sighvats Björgvinssonar og hæstv. iðnrh. væri kannski eðlilegt að fara fram á að sú greinargerð sem hæstv. iðnrh. vitnaði til væri birt og jafnvel dreift á borð þingmanna því það getur verið nauðsynlegt að hafa svona plagg í umræðunni til skoðunar. Ég fer fram á það, herra forseti.

Við erum að ræða ákaflega mikilvægt mál sem mun koma væntanlega til kasta iðnn. og ugglaust fleiri nefnda því þetta mál tengist umhverfismálum og ég ímyndað mér að það gæti jafnvel verið að allshn. Alþingis þyrfti að hluta til að fá þetta mál til umfjöllunar.

Við erum að ræða um eignarhald og nýtingu á auðlindum í jörðu. Það sem telst til gæða og auðlinda vill verða breytilegt frá einum tíma til annars. Það þarf ekki annað en vitna til þess að ekki er langt síðan fólk áttaði sig á því hver auðlindin er í hafinu. Það er ekki langt síðan fólk áttaði sig á því hver auðlindin er í ósnortinni náttúru. Það er ekki langt síðan fólk áttaði sig á því að ýmislegt annað en jarðarauðlindir svo sem kol eða olía eru auðlindir. Það eru svo hraðar breytingar að fólk er að átta sig á því að kalt vatn er gífurleg auðlind. Í þeim löndum þar sem skortur er á þeirri auðlind fer ekki milli mála að kalt vatn er mikil auðlind.

Orkan er mikið lykilatriði og eins og við öll munum var olían á stærstum hluta 20. aldarinnar lykillinn að áframhaldandi uppbyggingu og velmegun. Þetta sýnir hvernig matið breytist á milli ára, nærri því að segja milli mánaða, hvað þá áratuga.

Það eru mörg atriði í frv. um eignarhald og nýtingu á auðlindum í jörðu sem ber að skoða. Ég hefði talið að hv. þingmenn sem sitja í iðnn., ég tala nú ekki um formaður og varaformaður iðnn. hefðu þurft að vera viðstaddir umræðuna og fylgjast með hvað verið er að fjalla um. En væntanlega er búið að fara yfir þetta mál í þingflokki þeirra eða þingflokkum þannig að þeim er alveg ljóst hvað verið er að fara hér. Ég þarf ekki annað en vitna til 10. gr. í VI. kafla frv. þar sem verið er að fjalla um jarðhita. Þar er segir, með leyfi forseta:

,,Þrátt fyrir ákvæði í 6. og 7. gr. er landeiganda heimilt án leyfis að hagnýta jarðhita í eignarlandi sínu til heimilis- og búsþarfa, þar með talið til ylræktar, iðnaðar og iðju, allt að 5 MW miðað við vermi sem tekið er úr jörðu á hverri sekúndu alls innan eignarlandsins. Landeiganda ber þó að tilkynna Orkustofnun um fyrirhugaðar jarðboranir og aðrar meiri háttar framkvæmdir vegna þessa. Orkustofnun er heimilt að fengnu samþykki ráðherra að setja landeiganda þau skilyrði sem nauðsynleg eru talin vegna öryggis eða af tæknilegum ástæðum.``

[11:30]

Síðan á að fara með heimildir til nýtingar á jarðhita til raforkuvinnslu samkvæmt ákvæðum orkulaga. Það er eðlilegt að menn velti fyrir sér hvað sé verið að fara í þessu máli. Ég vil vitna í umsögn um lagagreinina, með leyfi forseta: ,,Lagt til að öll venjuleg nýting jarðhita á eignarlandi sé heimil án leyfis ráðherra.`` Hvað með umhverfismat í slíkum tilvikum? Erum við ekki farin að krækja inn á önnur lög sem við höfum sett? Þarf ekki að skoða samhengið þarna á milli? Landeigandi á að geta stundað atvinnurekstur sem er tengdur búskap eða eðlilegri nýtingu landsins. Þetta er auðvitað skiljanlegt. Mér finnst skiljanlegt að þetta sé gert á þennan veg en ég held að menn þurfi á hverjum tíma að leggja mat á hversu mikið umfang er verið að fara í. Lagt er til að mörkin verði 5 MW og síðan er útskýringin sú að vermið miðist við þrípunktsástand vatns, þ.e. þegar vatnið er 0,01°C heitt og undir 611,2 Pa, eða 6,112 mb þrýstingi. Þá er átt við að ísvatn og gufa séu í varmafræðilegu jafnvægi. Þetta er náttúrlega mikil og flókin skýring en þetta er sjálfsagt einfalt fyrir þá sem fjalla um þetta. En það ber að tilkynna Orkustofnun um framkvæmdir eða ef verulegar framkvæmdir eru fyrirhugaðar.

Ég hygg að það verði mikill vandi að setja reglugerð um þessi lög þegar þau verða komin í framkvæmd. Ég segi ,,þegar``, því ég hygg að þetta mál eigi eftir ansi langt ferli til þess að hljóta afgreiðslu. Ég velti fyrir mér, herra forseti, umsögn um frv. frá fjárlagaskrifstofu fjmrn. um kostnað. Þar er sagt, með leyfi forseta: ,,Með frumvarpi þessu er lagt til að öllum lögum um auðlindir í jörðu verði skipað í einn lagabálk.`` Er þetta alveg hárrétt? Einnig segir: ,,Með því yrði skýrt kveðið á um eignarrétt og nýtingarrétt á auðlindum á landi, í vötnum og í sjó.`` Er þetta rétt? Er ekki aðeins verið að fjalla um í frv. um eignarhald og nýtingu á auðlindum í jörðu? Er umsögnin rétt, herra forseti? Er verið að kveða skýrt á um eignarrétt á nýtingu á auðlindum á landi, í vötnum og í sjó með frv.? Ég dreg fullkomlega í efa, herra forseti, að þessi umsögn standist. Ég held að ástæða sé til að vísa þessari umsögn heim til föðurhúsanna og biðja um nýtt mat á því frv. sem fyrir liggur. Ég get ekki annað sagt, herra forseti, og ég mælist til þess að svo verði gert.

Komið er inn á að gert sé ráð fyrir skýrum reglum og leyfi til rannsókna og nýtingar auðlinda. Það er ugglaust rétt þar sem miðað er við þetta frv. En það er ekki talað um sjó. Það er ekki verið að tala um rannsóknir á sjó eins og er vitnað til í þessu frv. Ég held að menn verði að skoða hvað sett er fram og skoða þetta miklu betur.

Herra forseti. Ég dreg líka í efa að eins og sagt er hér, með leyfi forseta: ,,Verði frumvarp þetta að lögum má gera ráð fyrir að nokkur kostnaður við rannsóknir og leyfisveitingar falli á Orkustofnun.`` Ætli megi ekki reikna með, herra forseti, að verulegur kostnaður falli á Orkustofnun? Hvaða aðili á að fjalla um eða fara með þessar rannsóknir af hálfu ríkisins annar en Orkustofnun, a.m.k. þegar ríkið er að kanna stöðu sína um eignarhald og auðlindirnar í jörðinni?

Gert er ráð fyrir að kostnaður af samþykkt frv. geti verið 4--5 millj. kr. við að kanna auðlindir okkar í jörðu og eins og segir í frv. ,,í vötnum og í sjó``. Halda menn að það kosti ekki meira en 4--5 milljónir að kanna auðæfi okkar? Þetta stenst náttúrlega ekki. Ég spyr hæstv. iðnrh. hvort ekki sé um einhver mistök að ræða í þessari umsögn. Er í frv. verið að fjalla um ,,nýtingarrétt á auðlindum á landi, í vötnum og í sjó``? Ef svo er þá er heiti þessa lagafrv. rangt því að það heitir Um eignarhald og nýtingu á auðlindum í jörðu. Ég held að ástæða sé til þess að athuga þetta og þetta er aðeins, herra forseti, athugasemd um smáatriði, um örlítið atriði í frv. til laga um leið og ég ítreka beiðni mína um það plagg sem ég bað um í upphafi máls til hæstv. ráðherra.

Herra forseti. Ég velti því áfram fyrir mér: Hver er auðlindin sem Ísland hefur upp á að bjóða? Ég nefndi áðan að orkan í formi olíu hefði verið talin hvað mikilvægast á 20. öldinni. Ég hef líka nefnt að mat manna er að breytast gífurlega. Ég bendi á að Alþjóðabankinn er farinn að meta auð landa út frá þremur hugtökum, þ.e. frá mannauði, fjármagni og náttúruauðlindum. Það er mjög mismunandi á milli landa hvernig þessi auðæfi eru metin. Á Íslandi eru náttúruauðlindir metnar mikilvægastar, þær eru metnar sem 56% þjóðarauðsins en mannauðurinn aðeins 29%. Hafa menn velt því fyrir sér hvernig hlutfallið í þessum málum er t.d. í Sviss, Japan eða Lúxemborg? Þar er mikill munur á hve mannauðurinn er metinn hærra.

Það er líka rétt að velta því fyrir sér að á þeim tíma þegar landbúnaður var meginatvinnuvegur þjóðanna var Ísland fátækt land og var talið á mörkum hins byggilega heims. Út af hverju var það? Jú, það var út af því að hér eru léleg ræktunarskilyrði út af því að við liggjum svo norðlægt og út af því hvað landið er talið kalt. En við höfum þróað auð okkar og grunnurinn að auði okkar er hafið. Þegar eftirspurn jókst í nágrannalöndunum og þegar bændasamfélagið var ekki lengur ríkjandi gátum við farið að þróa okkur sem fiskveiðiþjóð. Þá fóru menn fyrst að gera sér grein fyrir því að aðalauður Íslendinga úr náttúrunni er fiskurinn úr hafinu. Svona breytast þessir hlutir á tiltölulega skömmum tíma. Við þurfum ekki annað en að rifja upp, herra forseti, að heimsstyrjaldirnar breyttu sýn manna á auðlindinni. Þá áttuðu menn sig á því að Ísland var forðabúr fyrir heiminn, a.m.k. sem matvælabúr. Við þurfum ekki annað en að rifja upp hvernig aðstaða Breta var gagnvart því að ná í matvæli frá Íslandi í heimsstyrjöldinni síðari.

Við Íslendingar sjálfir höfðum ekki hugmynd um fyrr á öldinni hve mikil auðæfin eru í heita vatninu, hve mikil auðæfi eru í fossunum. Ég er ekki viss um að menn hafi áttað sig á því hve mikil auðæfi gætu verið fólgin í Gullfossi og Geysi. Ég er ekki viss um það að menn hafi velt því fyrir sér. Einar Benediktsson, sá mikli maður, komst áfram með hugmyndina um að virkja Búrfell. Til hvers átti að virkja Búrfell? Til að framleiða áburð. Ugglaust værum við meira iðnaðarríki í dag ef þetta hefði tekist þannig til og ekki eins háð sjávarauðlindinni. (Gripið fram í.) Það var alveg prýðilegt. Hitt er annað mál, hv. þm., að menn þurfa að gera sér grein fyrir því þegar verið er að fjalla um mál eins og hér er til umræðu, um eignarhald og nýtingu auðlinda í jörðu, að við þurfum að meta allar þessar auðlindir á einhvern hátt. Ég er alveg viss um það og það hygg ég að hv. þm. séu almennt, að við gerðum okkur ekki grein fyrir því hver auðæfin eru, eins og ég nefndi, í náttúru landsins, jafnvel í eyðiflákunum. Það er mismunandi mat manna á því hver auðlegð er fólgin í þeim.

Herra forseti. Ég vil geta þess eins og hér hefur komið fram áður í ræðum manna að það eru frv. til hliðar við þetta frv. frá þingflokki jafnaðarmanna og frá þingflokki Kvennalistans ásamt Kristínu Ástgeirsdóttur þar sem fjallað er um eignarhald á auðlindum í jörðu og gjald fyrir nýtingu þeirra. Það kemur ekkert fram í því frv. hver gæti orðið kostnaðurinn af setningu laga þessara. En ég spyr hæstv. ráðherra: Er það rétt sem segir um kostnaðarhlutdeildina? Er rétt að miða við í frv. að auðlindum í jörðu verði skipað í einn lagabálk þar sem kveðið verði á um ,,eignarrétt og nýtingarrétt á auðlindum á landi, í vötnum og í sjó``? Ég get ekki séð né fundið þessu nokkurn stað og því spyr ég m.a. um þetta. En í þeim frv. sem við jafnaðarmenn leggjum fram eru tekin öll tvímæli af um eignarhald á auðlindum fallvatna, jarðhita, náma í jörðu og annarra slíkra auðlinda. Í þeim frv. er sú meginstefna mörkuð að auðlindir þessar, umfram þær sem þegar eru nýttar til einkanota, megi nýta til einkaþarfa eða eru ótvírætt í einkaeign, skuli teljast sameign þjóðarinnar. Í þeim frv. sem ég er að geta um eru ítarleg ákvæði um hvernig eigi að nýta þessar sameiginlegu auðlindir með almannahag fyrir augum. Ég bendi á, herra forseti, að meginefnið í þeim frv. sem þingflokkur jafnaðarmanna leggur fram, er almannahagur. Ekki fyrir einhverja einstaklinga sem geta dregið til sín eða á einhvern hátt gert sér mat úr því sem við teljum vera sameiginlega auðlind.

[11:45]

Í þessum frv. er gert ráð fyrir því að ávallt verði tekið gjald fyrir réttinn til nýtingar á sameiginlegum auðlindum þjóðarinnar, fyrir virkjunarréttinn, rétt til djúphita og fallvatna, fyrir réttinn til nýtingar á námum, jarðefnum og grunnvatni, svo sem til vatnsútflutnings, þar sem grunnvatnið telst vera sameign þjóðarinnar. Ef um er að ræða minni háttar nýtingarrétt verði aðalreglan sú að gjaldtaka verði ákveðin í lögum um aukatekjur ríkissjóðs. Sé hins vegar um mjög verðmæt nýtingarréttindi að ræða, svo sem vegna virkjunar fallvatna og djúphita, verði nýtingarrétturinn boðinn út. Það er í samræmi við ákvæði um frjálsa samkeppni, um byggingu og rekstur orkuvera sem taka munu gildi á hinu Evrópska efnahagssvæði í nánustu framtíð.

Herra forseti. Þetta er aðeins innlegg inn í þessa umfjöllun. Mér þætti vænt um það ef hæstv. iðnrh. vildi svara spurningu minni um kostnaðinn við að meta eignarrétt og nýtingarrétt á auðlindum á landi, í vötnum og á sjó eins og getið er um í umsögn með þessu frv.