Rannsóknir og nýting á auðlindum í jörðu

Fimmtudaginn 19. febrúar 1998, kl. 12:17:30 (4084)

1998-02-19 12:17:30# 122. lþ. 72.4 fundur 359. mál: #A eignarhald og nýting á auðlindum í jörðu# frv., SighB (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 72. fundur, 122. lþ.

[12:17]

Sighvatur Björgvinsson (andsvar):

Herra forseti. Það væri mætavel hægt og bæri að setja lög um það á Alþingi sem skæru úr um mörk almannaeignarréttar og einkaeignarréttar á auðlindum og það hefur hingað til verið skoðun Framsfl. að ekkert bannaði að þetta væri gert þó svo um einkaeignarlönd væri að ræða. Ég hef hins vegar ekki fyrr orðið þess var að það væri skoðun Framsfl. að einkaeignarrétturinn ætti að ná langt niður fyrir gröf og dauða, að einkaeignarrétturinn á auðlindum og jarðargæðum ætti að ná inn í miðju jarðar. Ég hef ekki orðið þess var fyrr. Það er ný afstaða Framsfl.

Eignarrétti fylgja líka skyldur því að sá sem á eign ber ábyrgð á henni. Er það þá skoðun Framsfl. að verði eldsumbrot eða jarðeldar á einkaeignarlandi skuli eigandi þess lands bæta þau spjöll sem af slíku gætu orðið því að það er einkaeign hans sem er að gjósa? Einkaeignin gýs og veldur öðrum tjóni og ber þá ekki einkaeigandinn ábyrgð á því gagnvart öðrum eða finnst Framsfl. sjálfsagt að þjóðin beri ábyrgð á því ef einkaeignin gýs en ef einkaeign er notuð með þeim hætti að gos sé temprað til orkuframleiðslu eigi einkaeigandinn að njóta þess? Þetta hefur hingað til verið boðskapur Sjálfstfl. en nú er þetta orðinn boðskapur Framsfl. Nú er einkaeign Framsfl. allt í einu farin að gjósa.