Rannsóknir og nýting á auðlindum í jörðu

Fimmtudaginn 19. febrúar 1998, kl. 12:19:54 (4085)

1998-02-19 12:19:54# 122. lþ. 72.4 fundur 359. mál: #A eignarhald og nýting á auðlindum í jörðu# frv., HG
[prenta uppsett í dálka] 72. fundur, 122. lþ.

[12:19]

Hjörleifur Guttormsson:

Virðulegur forseti. Ég gladdist þegar ég heyrði upphaf ræðu hæstv. iðnrh. áðan, ég held að ég hafi tekið rétt eftir að hann hafi verið að vísa til þess að eðlilegt væri að leita samkomulags í málum af þessu tagi. Ég var að vona að það tilboð um samkomulag, að leita samkomulags, væri ekki aðeins samkomulag milli ríkisstjórnarflokka heldur gagnvart þinginu í heild sinni. Ég vísa til þess að á árum áður þegar fyrir hv. iðnn. lágu frumvörp sem ég hef oft verið 1. flm. að og hafa verið nefnd í umræðunni, þá var því tekið af opnum huga hjá mönnum í hv. þingnefnd að leita samkomulags um þau efni, alveg sérstaklega að skoða málin vítt og óbundið. Af hálfu iðnrh. á síðasta áratug kom ítrekað fram að þeir væru reiðubúnir til þess að leita sem víðtækastrar samstöðu um lög um þessi efni. Ég held að ég geti nefnt þar til sögunnar flesta hæstv. iðnaðarráðherra sem sátu á tímabilinu eftir að ég vék úr stóli iðnrh. 1983. Ég man sérstaklega eftir Albert Guðmundssyni, fyrrv. hæstv. ráðherra, og Jóni Sigurðssyni, sem sat lengi á stóli iðnrh. Birt var frv. sem var í undirbúningi í tíð hans ráðuneytinu sem fskj. og hefur verið birt sem fskj. með frv. sem ég hef flutt um jarðhitaréttindi og við alþýðubandalagsmenn.

Þetta vildi ég nefna fyrst af öllu um leið og ég skora á hæstv. ráðherra að hnýta svo ekki upp á í þessu máli eins og mér fannst hæstv. ráðherra gera að verið væri að loka leiðum af hans hálfu, að málið yrði athugað út frá öðrum forsendum en hæstv. ráðherra sló föstum í seinni ræðu sinni, þ.e. við þessa umræðu á þessum degi, sem mér fannst vera mjög óskynsamlegt af hæstv. ráðherra að orða málin eins afdráttarlaust og hann gerði.

Ég geri mjög ákveðnar athugasemdir við niðurstöðu hæstv. ráðherra að þau frumvörp, sem hafa verið flutt af þingmönnum Alþb. æ ofan í æ um jarðhitaréttindi og orku fallvatna og þau frumvörp sem fyrir liggja af hálfu þingflokks jafnaðarmanna og koma til umræðu síðar á þessum fundi, brjóti skýrt gegn ákvæðum stjórnarskrár lýðveldisins Íslands, nánar tiltekið 72. gr. stjórnarskrárinnar. Þetta staðhæfði hæstv. ráðherra oftar en einu sinni. Þetta eru stór orð í ljósi stöðu þessara mála, í ljósi niðurstöðu og rökstuðnings virtra fræðimanna í lögfræði á mörgum liðnum árum og áratugum. Breytir þar engu þær tilvitnanir sem hæstv. iðnrh. hafði uppi í sambandi við úrskurði, álitsgerðir eða dóma um þetta efni að mínu mati. Hæstv. ráðherra er vægast sagt á hálum ís þegar hann tekur svo sterkt til orða sem hann gerði í umræðunni, virðulegur forseti, og ég harma það að hæstv. ráðherra skuli stilla málum svona upp.

Fyrst vil ég aðeins koma að því sem sagt var af hæstv. ráðherra um Ólaf Jóhannesson og viðhorf hans til þessara mála. Í greinargerð með frv. okkar alþýðubandalagsmanna um jarðhitaréttindi er einmitt vikið að álitsgerð prófessors Ólafs Jóhannessonar frá árinu 1956 og það er ekki sama túlkun sem hæstv. iðnrh. hefur hér uppi og fram kemur í greinargerð með frv. Látum það vera. Kannski er meiri ástæða til að leiða fram þá staðreynd að hæstv. ráðherra Ólafur Jóhannesson, fyrrv. utanrrh. í ríkisstjórn dr. Gunnars Thoroddsens 1980--1983, heimilaði ásamt öðrum í ríkisstjórn að fram væri lagt sem stjfrv. bæði frv. um jarðhitaréttindi sem og frv. um orku fallvatna. Ég man ekki eftir neinum sérstökum fyrirvörum af hálfu hæstv. þáv. ráðherra Ólafs Jóhannessonar um þetta efni. Ég má segja, og það er algerlega eftir minni sagt, að af hálfu ráðherra Alþfl. í ríkisstjórn hafi verið fyrirvarar um einstök atriði í efni nefndra frumvarpa þó að heimilaður væri flutningur þeirra og mér væri að sjálfsögðu ríkt í huga ef fram hefðu komið sterkar efnislegar athugasemdir af hálfu Ólafs Jóhannessonar við þessi frumvörp á þeim tíma en undirbúningur að þeim hófst í ríkisstjórn sem hann veitti forsæti á árunum 1978--1979.

Ég tel nauðsynlegt að af hálfu hv. þingnefndar, sem fær þessi mál til athugunar, væntanlega iðnn. þingsins, verði farið mjög rækilega ofan í stöðu þessara mála með tilliti til réttarþróunar, auðvitað með tilliti til ákvarðana á liðinni tíð og álitsgerða og dóma en einnig í ljósi réttarþróunar bæði hér á landi sem erlendis í þessum veigamiklu málum. Ég vísa til þess, virðulegur forseti, sem fram kemur í greinargerð með frv. okkar alþýðubandalagsmanna um jarðhitaréttindi þar sem er rækilega farið yfir stöðu þessara mála í mörgum öðrum löndum, vestrænum ríkjum sem svo eru kölluð eða OECD-ríkjum, á liðnum árum og er þar leidd fram staðan í Noregi og Danmörku, Bandaríkjunum, Nýja-Sjálandi og víðar. Niðurstaðan er sú að í þessum löndum hafa verið settar mjög skýrar takmarkanir í lögum að því er varðar réttindi til auðlinda í jarðgrunni, þar á meðal jarðhita. Nægir þar að vitna til Nýja-Sjálands þar sem aðstæður hvað jarðhita snertir eru um margt hliðstæðar því sem er hér á landi.

Ég leyfi mér, virðulegur forseti, að vísa líka til niðurstöðu í greinargerð frv. um jarðhitaréttindi á bls. 8 þar sem segir m.a.:

,,Hvorki vatnalög, orkulög né önnur lög eða réttarheimildir virðast hafa veitt landeiganda heimildir á öllum jarðhita sem finna má undir landareign hans. Ekki verður heldur séð að landeigendur hafi með öðrum hætti eignast slíkar heimildir á jarðhita sem finnst djúpt í jörðu niðri að varðað geti bótum samkvæmt stjórnarskrárákvæðum að lýsa jarðhita þennan í umráð ríkisins. Samkvæmt viðtekinni skilgreiningu á eignarrétti felst í honum einkaréttur eigandans til að ráða yfir eign innan þeirra marka sem þessum rétti eru sett í lögum og af óbeinum réttindum annarra sem til hefur verið stofnað yfir eigninni. Jafnvel þótt því mætti halda fram að með ákvæðum vatnalaga frá 1923, laganna um eignar- og notkunarrétt jarðhita frá 1940 og orkulaganna frá 1967 hafi landeigendum, af löggjafarvaldsins hálfu, verið falinn eignarréttur að öllum jarðhita undir einkaeignarlandi er ekkert því til fyrirstöðu að breyta þessum reglum nú. Eignarrétturinn er að þessu leyti breytilegur. Heimildir hans geta ýmist verið rýmri eða þrengri, allt eftir því hve almenn takmörk honum eru sett í lögum hverju sinni.``

Enn fremur segir: ,,Niðurstaðan er því sú að með ákvæðum frumvaps þessa sé einungis verið að setja eignarréttinum almenn takmörk. Ekki verði séð að stofnast hafi til eignarréttar með jarðhita djúpt í jörðu sem girði fyrir að almenni löggjafinn geti mælt fyrir um umráða- og hagnýtingarrétt til handa ríkinu á jarðhita sem ekki hefur verið virkjaður og er neðan 100 metra dýpis í landi sem er háð einkaeignarrétti.``

Enn er vitnað þar til hæstaréttardóma m.a. varðandi eignarrétt á botni Mývatns sem og hæstaréttardómsins þekkta og margumrædda um eignarrétt á Landmannaafrétti.

Ég legg áherslu á það, virðulegur forseti, sem hér kemur fram. Hér er um mjög viðamikið mál að ræða, mál sem er brýnt að Alþingi fari ofan í saumana á með opnum huga. Ég vil ekki leggja neitt niðrandi mat eða dóm á þær álitsgerðir eða þau sjónarmið sem koma frá öðrum um þetta efni, en jafnbrýnt er að farið verði yfir þetta opnum huga og að Alþingi taki ákvarðanir í ljósi fyllstu upplýsinga um réttarþróun og möguleika til að tryggja rétt þjóðarinnar yfir auðlindum sem aðrir hafa ekki átt þátt í skapa, bæta eða auka við.