Rannsóknir og nýting á auðlindum í jörðu

Fimmtudaginn 19. febrúar 1998, kl. 12:31:05 (4086)

1998-02-19 12:31:05# 122. lþ. 72.4 fundur 359. mál: #A eignarhald og nýting á auðlindum í jörðu# frv., iðnrh.
[prenta uppsett í dálka] 72. fundur, 122. lþ.

[12:31]

Iðnaðarráðherra (Finnur Ingólfsson):

Herra forseti. Þar sem komið er að lokum þessarar umræðu vil ég þakka fyrir þátttökuna í henni. Það er mikill munur á málflutningi þessara tveggja hv. þingmanna, hv. þm. Hjörleifs Guttormssonar og hv. þm. Sighvats Björgvinssonar sem aðallega hafa lagt orð í belg í umræðunni. Milli mín og hv. þm. Hjörleifs Guttormssonar held ég að hafi verið bæði lagalegur og pólitískur ágreiningur og ekkert við því að gera. Þar verður þingið að skera úr um þegar þar að kemur og sá pólitíski meiri hluti sem þá er til staðar. Ég þakka hv. þm. fyrir málefnalega umræðu í þessum efnum.

Aftur á móti fannst mér --- það er verst að hv. þm. Sighvatur Björgvinsson er farinn úr þingsalnum --- málflutningur hans í þessari umræðu bera mikinn keim af sleggjudómum. Einn þeirra er t.d. sú fullyrðing að í frv. ríkisstjórnarinnar væru engar skilgreiningar á því hvað þyrfti að vera til staðar, engar forsendur fyrir útgáfu nýtingarleyfa eða útgáfu rannsóknarleyfa. Ég hef bent á að þetta er skýrt í 5. gr. og 6. gr. frv. og síðan í VIII. kafla þess.

Í lokaræðu sinni gerði hv. þm. Sighvatur Björgvinsson það að umtalsefni að með þessu frv. væri verið að kasta eign landeigenda á allar auðlindir í jörðu inn að miðju jarðar. Hér er um útúrsnúninga að ræða, einfaldlega vegna þess að hv. þm. á að vita miklu betur. Margir lögfræðingar, eins og Ólafur heitinn Jóhannesson, sem oft hefur verið nefndur við þessa umræðu, Gaukur Jörundsson o.fl., hafa talið að hagnýtingar- og umráðarétturinn miðaðist við aðstæður og nýtingarmöguleika hverju sinni. Möguleikarnir byggjast á þeirri tækni sem menn hafa yfir að ráða til þess að geta nýtt þessar auðlindir. Það eru því auðvitað sleggjudómar þegar því er haldið fram að menn séu að slá eign sinni á auðlindir inn að miðju jarðar.

Hjá hv. þm. Hjörleifi Guttormssyni kom fram að ekki hefði verið leitað samkomulags í þessu máli áður en það var lagt fyrir Alþingi. Það er rétt. Samkomulags var ekki leitað við stjórnarandstöðuna um flutning þessa máls á þinginu. Hins vegar var það pólitískt samkomulag milli stjórnarflokkanna að leggja málið fyrir svo sem gert hefur verið, að því vann nefnd stjórnarflokkanna sem komst að þessari niðurstöðu.

Að aflokinni þessari umræðu fer málið hins vegar til þingnefndar, því verður vísað til hv. iðnn. Alþingis. Það er rétti vettvangurinn til þess að fram fari umræða um málið og ég vil leggja mitt af mörkum til að hægt verði að ná eins víðtæku samkomulagi um málið í þinginu og kostur er. Án þess að ég gefi mér neitt í þeim efnum finnst mér mjög djúpstæður pólitískur ágreiningur um málið sem m.a. byggist viðhorfum stjórnmálaflokkanna til eignarréttarins.

Þær fullyrðingar mínar, í annarri ræðu minni, að frv. Alþb. og Alþfl. væru brot á 72. gr. stjórnarskrárinnar, byggði ég m.a. á álitsgerðum, úrskurði og dómum. Ég vitnaði til alls þessa í annarri ræðu minni. Á þeim forsendum gef ég mér það að frv. eins og þau liggja fyrir brjóti eignarréttarákvæði stjórnarskrárinnar. Það verðum við að varast en auðvitað er það jafnsjálfsagt að Alþingi, iðnn. þingsins, fari mjög nákvæmlega yfir það mál og meti hvort svo sé eða ekki. Þeim frv. sem hér verða til umræðu á eftir, bæði frv. Alþb. og frv. Alþfl. og Kvennalistans, verður einnig vísað til iðnn. og verða til umfjöllunar þar á sama tíma. Ég tel því að iðnn. gefist gott tækifæri til að skoða málið mjög rækilega.