Eignarhald á auðlindum í jörðu

Fimmtudaginn 19. febrúar 1998, kl. 14:22:39 (4091)

1998-02-19 14:22:39# 122. lþ. 72.5 fundur 425. mál: #A eignarhald á auðlindum í jörðu# frv., Flm. SighB
[prenta uppsett í dálka] 72. fundur, 122. lþ.

[14:22]

Flm. (Sighvatur Björgvinsson):

Herra forseti. Ég vil byrja á að þakka þeim tveimur hv. þm. sem hér hafa talað fyrir þeirra orð. Þeir hafa báðir komist að þeirri niðurstöðu að hér væri að mögu leyti um vandaðan málflutning að ræða og það er rétt, þó að þeir séu ekki fyllilega sammála öllum efnisatriðum.

Ég vil aðeins víkja nokkrum orðum að því sem hv. þm. Ólafur Þ. Þórðarson sagði því að í máli hans er grundvallarmisskilningur um nokkur atriði. Fyrst það sem ekki skiptir neinu máli, þ.e. það sem ég var að vitna til í norskri og danskri löggjöf sem á náttúrlega ekkert skylt við það hvort við alþýðuflokksmenn viljum hafa hérna kóng eða ekki. Ég var aðeins að vitna til þess, (ÓÞÞ: Eruð þið andvígir því að hafa kóng yfir landinu?) virðulegi forseti, að ég var að tala um réttarvenju. Sú réttarvenja sem skapast hefur í þessum löndum sem áður tilheyrðu danska konungsríkinu er sú að það sem enginn getur sannað eignarheimildir sínar á fellur til ríkisins. Það er vegna þess að fyrrum voru ákvæði í lögum um það í danska konungsríkinu að það sem enginn eigi, það eigi kóngurinn. Kóngurinn á það ekki lengur. Það er ekki hans prívateign heldur ríkisins. Þessi ákvæði voru í gildi í hinu sameinaða danska konungsríki og síðan hefur þetta verið réttarvenja í Danmörku þar sem kóngurinn á nú ekki lengur allt það sem enginn á heldur ríkið. Í Noregi, virðulegi forseti, hafa svona ákvæði aldrei verið sett í lög heldur hefur þetta aðeins verið réttarvenja frá fornum tíma og menn stóðu í þeirri trú á Íslandi fram yfir miðja þessa öld að þessi réttarvenja væri líka virt hér. Það er fyrst þegar Hæstiréttur fellir úrskurð sinn að það kemur í ljós að Hæstiréttur álítur að þessi réttarvenja eigi ekki við á Íslandi þó hún hafi átt við á meðan Ísland var sambandsríki Danmerkur og þó svo hún eigi við í dag bæði í Danmörku og Noregi samkvæmt hefð frá þessum gamla tíma. Þess vegna kallar Hæstiréttur eftir sérstakri lagasetningu á Alþingi þar um. Ég bendi hv. þm. á að ganga úr skugga um það, m.a. með því að lesa greinargerð með þjóðlendufrv. forsrh., að allir þeir alþingismenn sem tóku þátt í umræðu um þessi mál fyrstu áratugi aldarinnar stóðu í þeirri trú að enga slíka lagasetningu þyrfti því þessi réttarvenja væri í gildi á Íslandi eins og í nágrannalöndunum.

Í öðru lagi hefur hann ruglað saman frv. okkar jafnaðarmanna og frv. iðnrh. vegna þess að það er einmitt frv. iðnrh. sem gerir ráð fyrir því að hægt sé að hafa uppi kröfur eins og þær sem hann minntist á í kolanámudæminu. En frv. jafnaðarmanna gengur út frá því að ekki sé hægt að hafa slíkar kröfur uppi. Ég bið hv. þm. að lesa ákvæðið í 28. gr. frv. og skýringarnar við hana, en þar segir, með leyfi forseta:

,,Hér er að finna meginreglu um mat á því tjóni sem landeigendur verða fyrir ef ráðherra veitir öðrum aðilum leyfi til rannsóknar og hagnýtingar á jarðefnum og jarðhita á eignarlandi viðkomandi landeiganda. Er meginreglan sú að þeir eiga rétt á bótum fyrir það tjón sem þeir verða fyrir en hins vegar ekki vegna tapaðs hagnaðar af því að nýta viðkomandi auðlind sjálfir ef þeir hefðu til þess getu og ekki heldur til hlutdeildar í framtíðarhagnaði þess sem auðlindina nýtir.``

Þetta er okkar frv. Ég talaði um það fyrr að gallinn á frv. iðnrh. sá að engin svona ákvæði væru í því frv. heldur einstaklingum beinlínis afhentur fullkominn og algjör eignarréttur yfir öllum auðlindum á þeirra jörð og með tilvísan til þess geta þeir einmitt krafist þess að fá greiddar bætur, ekki bara fyrir spjöll, heldur fyrir tapaðan hagnað af því að nýta sjálfir viðkomandi auðlind eða gert kröfu um hlutdeild í framtíðarhagnaði þess sem auðlindina nýtir. Þarna hefur hv. þm. gjörsamlega ruglað saman frv. Þetta er hættan við frv. iðnrh., þ.e. sú sem hann var að lýsa. En fyrir þetta er tekið í frv. okkar. Það er hins vegar alveg laukrétt sem hann segir að mjög líklegt er að málið verði ekki endanlega útkljáð fyrr en fyrir dómstólum, þ.e. spurningin um það hvort þau takmörkunarákvæði standist sem við erum með í þessu sambandi.

Kolafjallsdæmið er hins vegar ekki gott dæmi í þessu sambandi eða Stálfjallsdæmið því tekið er sérstaklega fram í frv. okkar jafnaðarmanna og raunar í frv. iðnrh. líka, að brúnkolanámur, þ.e. surtarbrandsnámur séu hluti af einkaeign viðkomandi landeigenda og því verði ekki breytt. Hann hefði átt að velja eitthvert annað dæmi. Misskilningur hans er einmitt sá að það sem hann var að vara við með réttu er hættan í frv. iðnrh. en ekki í frv. okkar.

Í þriðja lagi ræddi hv. þm. um ákvæði í 17. gr. í frv. okkar jafnaðarmanna um að landeigandi megi ekki undanskilja eignarlandi sínu jarðhitaréttindi o.s.frv. Ég vil benda hv. þm. á að nákvæmlega sama efni, meira að segja í sumum tilvikum orðrétt, er í 12. gr. í frv. hæstv. iðnrh., nákvæmlega það sama og hann gerði athugasemdir við. Athugasemdir hans við efnisatriði 17. gr. í frv. okkar jafnaðarmanna og kvennalistakvenna eru því athugasemdir við 12. gr. í frv. iðnrh. svo að hann hefur þá jafnmikinn og sterkan fyrirvara við þeim atriðum þar eins og hjá okkur.

Aðeins um það sem hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon sagði áðan. Ég þakka honum fyrir þau orð sem hann fór um frv. Hann greindi það rétt. Það sem við höfum gert er mjög einfalt. Við höfum gert það sem nauðsynlegt er til þess að skilgreina þær auðlindir í og á jörðu sem eru eða geta verið í sameign þjóðarinnar og hægt er eða rétt er að skoða að taka auðlindagjald af. Við höfum fullnægt skilgreiningarþörfinni. Hún liggur fyrir.

[14:30]

Í öðru lagi höfum við útfært nákvæmlega hvernig hægt er að taka samræmd auðlindagjöld fyrir þessar auðlindir með sanngjarnri gjaldheimtu. Það höfum við líka gert. Vissulega vorum við jafnaðarmenn lengi vel einir um að flytja mál veiðileyfagjalds og auðlindagjalds. Nú hafa fleiri gengist inn á þær meginhugmyndir þó ágreiningur sé um útfærslu. Auðvitað er gleðilegt og ánægjulegt að fleiri skuli hafa komið til liðs við þær hugmyndir. En við erum bara komnir skrefinu lengra. Við erum að útfæra þetta vegna þess að það er svo langt síðan við tókum þessa grundvallarafstöðu að við höfum verið að nýta tímann til þess einmitt að svara þeim spurningum sem menn hafa uppi um það: Af hverju ætlið þið að taka auðlindagjald? Við höfum skilgreint það. Hvernig ætlið þið að útfæra það? Er ekki alltaf verið að spyrja um það? Við erum búin að því. Menn geta síðan deilt um hvort þetta á að vera krónunni hærra eða lægra en við erum að vinna heimaverkefni okkar. Þau hafa verið unnin. Við höfum lokið við að sýna fram á hvernig hægt er að gera þetta, af hverju á að taka, hvað við eigum við með samræmdri auðlindagjaldspólitík, hvað við eigum við með því að taka auðlindagjald af auðlindum í og á jörðu og hvernig hægt er að framkvæma það.

Hátt gjald eða lágt vil ég ekkert um segja endilega hér og nú. Ég var bara að benda hv. þm. á það sem þeir hljóta að vita að í flestum nálægum löndum eiga sér stað miklar umræður um skattamál og þar á mikil endurskoðun sér stað á skattstofnum. Ég vitna t.d. til þess að Danir eru í óðaönn að taka upp mengunarskatta. Þeir taka þá ekki upp sem viðbót við almenna skattheimtu heldur í staðinn fyrir hefðbundna skattstofna sem virka truflandi á framleiðsluþættina eins og vinnuvilja fólks o.s.frv. Ég bendi einnig á að í Bandaríkjunum fer nú fram mikil umræða um endurskoðun skattkerfis þar sem m.a. er rætt mikið um svokallaðan ,,Fair-tax`` sem hagfræðingar skrifa margar og lærðar greinar um. Sú endurskoðun gengur út á að afnema skatta af tekjum sem eins og ég sagði áðan er skattstofn sem virkar letjandi á vinnuafl sem framleiðsluþátt í þjóðfélaginu en taka í staðinn upp aðra skatta. Í skattaumræðunni í Bandaríkjunum er nú sérstaklega nefnd hækkun á söluskatti upp í 23% en fella í staðinn niður tekjuskatt. Allt í kringum okkur er umræða um að endurskoða skattstofna með þeim tilgangi að finna réttlátari skattstofna en við notum í dag, skattstofna sem virka ekki letjandi á vinnuvilja fólks. Það sem menn staðnæmast helst við í þeirri umræðu eru einmitt auðlindagjöld, gjöld fyrir aðgang að auðlindum, mengunarskattar og umhverfisgjöld hvers konar, þ.e. gjöld til að reyna í senn að afla tekna, varðveita náttúruauðlindir án þess að spilla þeim með því að verðleggja aðgang að þeim þannig að menn gangi betur um verðmæti en þeir gera í dag og finna leiðir sem eru betri en þær sem við förum í dag til að afla tekna fyrir ríkissjóð. Þessi umræða er í gangi alls staðar í kringum okkur. Auðvitað mun hún koma til kasta okkar eins og annarra og eðlilegt er að menn ræði það eins og við erum að gera hvort ekki sé ástæða til að fara að huga að því að fara sömu leið í a.m.k. umræðu um skattamál og í löndunum í kringum okkur, þ.e. gefa því gaum hvort ekki sé kominn tími til að leita annarra skattstofna og þá ekki síst á sviði auðlindagjalda, auðlindagjaldtöku, umhverfis- og mengunarskatta til þess að leysa af hólmi skatta eins og tekjuskattinn að einhverju leyti eða jafnvel að öllu leyti einhvern tímann í framtíðinni, tekjuskattskerfið sem við vitum að er óréttlátt, marggötótt og virkar letjandi á vinnuvilja fólks.

Auðvitað getur mönnum vaxið þetta mjög í augum og þeir sagt: Þetta eru allt of stórar fjárhæðir. Við erum ekki að tala um að gera þetta í einni svipan. Ég bendi bara á og ítreka það sem ég sagði áðan. Um þetta snýst t.d. umræðan vestur í Bandaríkjunum. Einmitt um að afnema þar alla tekjuskatta með annars konar skattheimtu. Það er því ekkert guðlast að nefna það hér hvort ekki sé ástæða til og tímabært að menn hefji skoðun á þeim möguleika, ekki með það fyrir augum að fara út í svo stórkostlega aðgerð á morgun eða hinn daginn eða um næstu áramót, en a.m.k. að gera sér það ljóst að það er hægt að stefna í þá átt að nota nýja skattstofna sem virka ekki truflandi á framleiðsluþættina í þjóðfélaginu til þess að taka smátt og smátt við hlutverki þeirra skattstofna eins og tekjuskattsins sem hefur verið vandræðabarn á Alþingi og meðal þjóðarinnar í mörg ár. Það er ekkert óeðlilegt að það sé rætt, virðulegi forseti.