Eignarhald á auðlindum í jörðu

Fimmtudaginn 19. febrúar 1998, kl. 14:39:30 (4093)

1998-02-19 14:39:30# 122. lþ. 72.5 fundur 425. mál: #A eignarhald á auðlindum í jörðu# frv., Flm. SighB (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 72. fundur, 122. lþ.

[14:39]

Flm. (Sighvatur Björgvinsson) (andsvar):

Herra forseti. Það er rétt hjá hv. þm. en hann hefði átt að lesa hitt frv. líka því að athugasemdirnar sem hann gerði við frv. jafnaðarmanna eru líka við frv. iðnrh. því að það er sama ákvæði varðandi forkaupsrétt í frv. iðnrh. eins og okkar. Það vantaði bara að hv. þm. læsi það frv. líka.

Ég hef því ekki dregið dul á það, virðulegi forseti, að svo kann að fara að ákvæði um eignarrétt og mörk einkaeignar og almannaeignar endi fyrir dómstólum. Ég er hins vegar sömu skoðunar og Ólafur Jóhannesson að heimilt sé að setja lög um þau efni eins og þau lög sem hér er verið að setja. Við tveir erum sammála um að það sé heimilt en auðvitað getur komið til kasta dómstóla að skera úr um það.

Í þriðja lagi er aðferðin að Alþingi skeri úr um slíkt með lagasetningu ekki sú að ganga eins langt og þeir sem aðhyllast einkaeignarréttarsjónarmið framast vilja ganga með því að segja einfaldlega: Gott og vel, þá leysum við bara úr ágreiningnum með því að einkaaðilarnir skuli eiga þetta allt saman og síðan sé það ráðherra að taka eignarnámi ef almannahagur krefst. Gallinn við frv. ráðherra, ég ítreka það enn, er sá að þar er ekki gert ráð fyrir því eins og í frv. jafnaðarmanna að kröfuréttur einstaklingsins til bóta sé neitt takmarkaður og nái frv. ráðherra fram að ganga getur einkaeigandi krafist þess í slíkum tilvikum að honum sé greitt eins og hv. þm. sagði, á einu bretti út andvirði brúnkolanna í Stálfjalli. Það getur hann ekki gert samkvæmt frv. okkar jafnaðarmanna og á því er meginmunur. Athugasemdirnar sem hv. þm. gerði við frv. okkar voru því ekki athugasemdir við frv. okkar heldur athugasemdir við frv. eins og það er úr garði gert frá hæstv. ráðherra.