Eignarhald á auðlindum í jörðu

Fimmtudaginn 19. febrúar 1998, kl. 14:48:14 (4098)

1998-02-19 14:48:14# 122. lþ. 72.5 fundur 425. mál: #A eignarhald á auðlindum í jörðu# frv., ÁJ
[prenta uppsett í dálka] 72. fundur, 122. lþ.

[14:48]

Árni Johnsen:

Hæstv. forseti. Það frv. sem hér er til umræðu bryddar á mörgum forvitnilegum atriðum sem vert er að gefa gaum. Kannski mætti þó segja að æðimargt í þeim mótist af forsjárhyggju. Mig langaði að nefna eitt atriði við umræðuna. Þarna er um að ræða ruglingsleg atriði. Í 3. gr segir þrátt fyrir tilvitnun í 1. gr. laganna:

,,Önnur jarðefni sem kunna að finnast á yfirborði lands eða í jörðu, þar á meðal málmar, málmblendingar, kol önnur en surtarbrandur, jarðolía og jarðgas, eru eign ríkisins nema það viðurkenni að réttur yfir þeim fylgi landareign.``

Þetta er mjög ruglingslega sett fram. Ég býst ekki við að það sé meining flm., kratanna, að undanskilja jarðolíu og jarðgas í þessum lögum. Þó er það gert með þessu móti, þrátt fyrir tilvitnun í 1. gr. Þarna er einn forvitnilegasti þáttur frv., möguleg olíuvinnsla á hafsbotninum við Ísland, sem ég býst við að sé eitt mest spennandi mál næstu framtíðar.

Nokkuð lengi hafa athuganir legið niðri og áhuginn á því að ganga úr skugga um það hvort á jarðsvæðum Íslands sé að finna olíu. Með jákvæðum árangri rannsókna, bæði á Grænlandi og í Færeyjum eru uppi vísbendingar um að á því séu engu minni líkur að þessar auðlindir sé að finna innan lögsögu Íslands. Þar af leiðandi mætti enginn vafi leika á því hvar rétturinn er í umræðu og lagasetningu.

Hv. þm. Sighvatur Björgvinsson hefur sagt að kratar væru að vinna heimavinnuna við að undirbúa auðlindagjald á hina ýmsu þætti sem varða auðlindir Íslands. Ekki fylgja nú rökin í lagagerðinni og síst af öllu hefur verið unnið að því er lýtur að skatti á sjávarafla við Ísland. Menn hafa búið til orðin ,,auðlindaskattur`` og ,,auðlindagjald`` og kratar kokgleypt hugsjónir sínar í stórum stíl. Það hefur verið leitt að fylgjast með því hvernig margir þeirra ágætu manna hafa með falsvonum gert tilraunir til að gera sig mektuga á fölskum forsendum. Þó eru þeir menn að meiri að viðurkenna hrun í framkvæmd þeirra hugmynda sem þeir höfðu sett upp. Það verður líka að viðurkennast.

Hv. þm. Sighvatur Björgvinsson hrósaði sér af því að kratar væru ávallt fyrstir til að flytja tillögur um auðlindaskatt. Ekki hefur mikið komið út úr því. Líkurnar til þess að nokkuð komi út úr því eru almennt minni eftir því sem mál hafa þróast. Þeir vaxið að skilningi við hvert mál sem þeir hafa flutt í þeim efnum.