Virkjunarréttur vatnsfalla

Fimmtudaginn 19. febrúar 1998, kl. 15:26:08 (4108)

1998-02-19 15:26:08# 122. lþ. 72.6 fundur 426. mál: #A virkjunarréttur vatnsfalla# frv., Flm. SighB (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 72. fundur, 122. lþ.

[15:26]

Flm. (Sighvatur Björgvinsson):

Herra forseti. Ég þarf ekki að hafa langt mál um þetta frv. því það fjallar um sömu eða sambærileg efni og frv. það sem við vorum að ljúka við að ræða rétt í þessu. Meginmarkmið frv. er að tryggja að íslenska ríkið hafi umráða- og hagnýtingarrétt yfir orku allra vatnsfalla utan afmarkaðra landa sem háð eru einkaeignarrétti með þeim takmörkunum sem settar eru í frv. Ég vek sérstaklega athygli á að í 2. gr. eru ákvæði um það, sem eru nýmæli, að gera mun strangari kröfur en gerðar hafa verið til mats á umhverfisáhrifum m.a. þannig að þó búið sé að veita heimildir til framkvæmda, eins og þegar er búið að gera í mörgum tilvikum, þá hefjist framkvæmdir ekki t.d. við línubyggingar fyrr en mat á umhverfisáhrifum hefur farið fram. Því er ekki lagt til að dregnar verði til baka þær framkvæmdaheimildir sem hafa verið gefnar en lagt til að strangt bann verði lagt við því að framkvæmdir, t.d. við línubyggingar eða virkjanir geti hafist þótt leyfi hafi verið gefin út fyrr en mat á umhverfisáhrifum hefur farið fram. Þar er að sjálfsögðu m.a. vísað til umdeilds átakamáls í sambandi við línulagnir Landsvirkjunar nýlega þar sem forsvarsmenn Landsvirkjunar virðast staðráðnir í að halda áfram línulögnum, sem hafa orðið fyrir mikilli gagnrýni, í krafti þess að þeir hafi þegar fengið framkvæmdaheimildina þó svo að umhverfismat hafi aldrei átt sér stað.

Gert er ráð fyrir því í II. kafla að aðalreglan verði sú í samræmi við miklar breytingar sem eru fram undan á orkuumhverfi Íslendinga, að útboð á virkjunarkostum eigi sér stað í samræmi við ákvæði orkulaga og ákvæði laga um útboð. Fram undan eru miklar breytingar á hinu Evrópska efnahagssvæði þar sem stefnt er að frjálsri samkeppni til þess bærra aðila um að byggja og reka virkjanir. Við því getur íslenska ríkisstjórnin brugðist á tvo vegu. Annars vegar með því að ákveða að raforkumarkaður á Íslandi skuli vera opinn markaður og hvaða aðili sem viðurkenndur er sem virkjunaraðili og uppfyllir þau skilyrði sem til virkjunaraðila eru gerðar, geti virkjað þau vatnsföll á Íslandi sem hann hefur möguleika á án þess að íslenska ríkið komi þar á nokkurn hátt nærri.

Hin aðferðin sem hægt er að viðhafa er í stórum dráttum sú að iðnrh. sem yfirmaður orkumála geri spá um raforkuþörf til einhverrar framtíðar, 10--20 ár, og taki síðan ákvarðanir um að bjóða út á almennum markaði innan Evrópska efnahagssvæðisins framkvæmdir við að reisa og reka vatnsaflsvirkjanir í samræmi við þessar orkuspár.

[15:30]

Enn liggur ekki fyrir hvorn kostinn hæstv. iðnrh. velur eða hvenær að því kemur að Íslendingar þurfa að sætta sig við hið nýja umhverfi og lifa samkvæmt því, hvort t.d. reynt verður að ná einhverjum aðlögunartíma sem ekki getur þó orðið mjög langur. Það eru varla meira en 4--5 ár þangað til að það nýja umhverfi verður sem við erum að bregðast við og ákvæðin í 4. gr. frv. eru við það miðuð að þau geti staðið þó að umhverfið breytist, með öðrum orðum þannig að útboðsleiðin skuli valin en Alþingi þurfi eigi að síður að samþykkja áform ráðuneytis eða annarra aðila ef reisa á eða reka vatnsaflsvirkjun stærri en 2.000 kw að uppsettu afli. Það er mjög eðlilegt að um það þurfi að fjalla hér á hinu háa Alþingi því segja má að Alþingi sé vörsluaðili þeirra sameiginlegu verðmæta þjóðarinnar sem felast í orku fallvatna og því er eðlilegt að Alþingi taki ákvarðanir um það að hve miklu leyti Alþingi vill heimila einum eða öðrum aðila að taka til nota á hverjum tíma mikið af afli eða orkuframleiðslugetu þessarar auðlindar.

Í 7. gr. eru síðan ákvæði um leyfisgjald. Þar segir að fyrir virkjunarleyfi skuli ávallt greiða leyfisgjald, sbr. þó ákvæði 1. mgr. 3. gr. þar sem talað er um að landeigendur hafi heimild til að reisa og reka raforkuver með allt að 200 kw afli í þeim vatnsföllum sem um land þeirra renna og þurfa að sjálfsögðu ekki að greiða leyfisgjald fyrir slíka framkvæmd.

Þá er ákvæði um það hvernig að því skuli staðið að innheimta auðlindagjald fyrir nýtingu virkjunarréttar. Í 7. gr. segir að sé óskað eftir virkjunarleyfi eða að yfirvöld orkumála vilji hafa frumkvæði að veitingu leyfis til virkjunar tiltekinna vatnsfalla skuli efnt til útboðs á umræddum virkjunarkostum samkvæmt ákvæðum laga um framkvæmd útboðs. Í útboðslýsingu skuli tilgreina lágmarksákvæði um leyfisgjald sem miðist við orkuvinnslugetu fyrirhugaðs orkuvers og tillit sé tekið til vinnslukostnaðar og kostnaðar við flutning orku frá stöðvarvegg til dreifikerfis eða orkukaupanda með þeim hætti að þjóðin öðlist sanngjarna hlutdeild í arði af virkjun fallvatna í eigu þjóðarinnar. Tekjur af leyfisgjaldi skuli renna í ríkissjóð. Þessu er nánar lýst þannig, með leyfi forseta:

,,Greiðsla leyfisgjalds fyrir virkjunarleyfi skal vera sérstakur þáttur í gerð útboðslýsingar fyrir útboð virkjunarkosta, sbr. 1. mgr. 4. gr. og höfð hliðsjón af því við mat á tilboðum.``

Það er mjög eðlilegt að svona ákvæði séu sett í lög nú þegar við horfum fram á það ástand að innan fárra ára verður orðin frjáls samkeppni um að reisa og reka vatnsorkuver á Íslandi. Þá getum við ekki lengur sniðið þeim framkvæmdum þann þrönga stakk að aðeins fyrirtæki í eigu almennings eða í sameign þjóðarinnar megi virkja á Íslandi, eins og t.d. Landsvirkjun, Orkubú Vestfjarða, Rarik eða önnur slík fyrirtæki sem segja má að séu óbeint eða beint í eigu þjóðarinnar og almannasamtaka og því hafi almenningur beinan eða óbeinan hagnað af þeim rekstrararði sem verður af starfsemi þessara virkjana.

Nú horfum við fram á að nýir og alls óskyldir aðilar í einkaeigu fá jafnan rétt til þess að reka og reisa virkjanir á Íslandi og opinberir aðilar. Við þær aðstæður getum við að sjálfsögðu ekki horft upp á það að afhenda leyfi til að virkja íslensk fallvötn sem eru takmörkuð auðlind, slíkum aðilum, innlendum eða útlendum, fyrir ekki neitt, eins og við höfum gert til þessa þegar í hlut hafa átt fyrirtæki eins og Landsvirkjun sem er sameign þjóðarinnar. Því finnst okkur eðlilegt að þetta sé tekið inn nú, að krafa sé gerð um að greitt verði auðlindagjald fyrir nýtingu virkjunarréttar og höfum í 7. gr. frv. gert nákvæma tillögu um það hvernig réttast sé að það gjald verði innheimt.

Vegna þess sem kom fram hjá hv. þm. Steingrími J. Sigfússyni áðan skal það tekið fram að ákvæði þetta er að sjálfsögðu ekki afturvirkt. Gert er ráð fyrir því að framvegis þegar virkjanaleyfi verði útgefin þá verði auðlindagjald tekið fyrir slík leyfi en ekki er gert ráð fyrir því að rukkað verði aftur í tímann fyrir leyfi til virkjana sem þeir hafa fengið sem þegar hafa lokið sínum framkvæmdum, enda eru það aðilar sem í öllum tilvikum eru í fjöldaeigu, annaðhvort í eigu þjóðarinnar eins og Rarik eða í sameign ríkis og sveitarfélaga eins og Landsvirkjun.

Herra forseti. Ég sé ekki ástæðu til þess að fara frekar út í efnisatriði þessa frv. því að mörg þeirra eru mjög áþekk, jafnvel eins og efnisatriði þess frv. sem ég mælti fyrir hér fyrr í dag. Ég legg því til að frv. verði vísað til 2. umr. og hv. iðnn. að lokinni þessari umræðu.