Skipan opinberrar nefndar um auðlindagjald

Fimmtudaginn 19. febrúar 1998, kl. 15:49:06 (4110)

1998-02-19 15:49:06# 122. lþ. 72.8 fundur 465. mál: #A skipan opinberrar nefndar um auðlindagjald# þál., JónK (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 72. fundur, 122. lþ.

[15:49]

Jón Kristjánsson (andsvar):

Herra forseti. Flutningur þessarar tillögu sætir nokkrum tíðindum. Hér hafa verið í gangi viðræður um sameiningarmál vinstri flokkanna og þetta hefur verið eitt aðalmálið á þeim vettvangi. Ég tek fram að hér er um skynsamlega tillögugerð að ræða. Hér er lagt til að þverpólitísk nefnd verði kosin til að móta stefnu í þessum málum og þykir mér sú hugsun ekki fráleit.

Ég spyr: Er þetta samkomulag í sameiningarviðræðunum milli þeirra sem vilja fella niður tekjuskattinn og leggja veiðigjald á sjávarútveginn í staðinn? Það er nauðsynlegt að fá upplýst hvort þetta sé almennur vilji í þeim flokkum sem hafa verið að sameinast í þessum mikilvægu málum. (Gripið fram í: Allir vilja vera með.) Ég tek fram að sú hugsun að kafa ofan í þessi mikilvægu mál og hugmyndin um gjaldtöku en ekki skattlagningu er ekki framandi. Hitt er nauðsynlegt að fá upplýst hvort rík samstaða er í stjórnarandstöðunni um þetta mál.