Skipan opinberrar nefndar um auðlindagjald

Fimmtudaginn 19. febrúar 1998, kl. 15:53:51 (4113)

1998-02-19 15:53:51# 122. lþ. 72.8 fundur 465. mál: #A skipan opinberrar nefndar um auðlindagjald# þál., Flm. MF (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 72. fundur, 122. lþ.

[15:53]

Flm. (Margrét Frímannsdóttir) (andsvar):

Virðulegi forseti. Hafi þingflokkur Framsfl. ætlað að koma illu til leiðar hefði hann átt að velja til þess einhvern orðhvatari mann en þann hv. þm. sem hér talaði. Ég fagna því að honum líst vel á þessa tillögu. Auðvitað viljum við þverpólitíska samstöðu og að sjálfsögðu viljum við reyna að fá stjórnarflokkana með, sem hafa verið algerlega haltir í öllum sínum málflutningi varðandi þetta stórmál þjóðarinnar. Auðvitað viljum við reyna að fá þá sem þátttakendur í þessa vinnu og mynda um þetta þverpólitíska samstöðu. Að sjálfsögðu viljum við það og ég fagna því að Alþb. og Alþfl. hafa þegar ákveðið með hvaða veganesti við komum að þessari vinnu og vonandi gengur það eins vel hjá þeim hv. þingflokkum sem mynda stjórn um þessar mundir og næsta árið. Vonandi gengur eins vel hjá þeim þegar að þessari vinnu kemur ef þessi tillaga hlýtur framgang í þinginu, sem ég vona.