Skipan opinberrar nefndar um auðlindagjald

Fimmtudaginn 19. febrúar 1998, kl. 16:05:23 (4118)

1998-02-19 16:05:23# 122. lþ. 72.8 fundur 465. mál: #A skipan opinberrar nefndar um auðlindagjald# þál., KPál
[prenta uppsett í dálka] 72. fundur, 122. lþ.

[16:05]

Kristján Pálsson:

Herra forseti. Sú tillaga sem hér hefur verið borin fram er í sjálfu sér nýtt innlegg í fremur þreytta umræðu um auðlindaskatt á undanförnum þingum. Ég tek þó undir það sem hér hefur verið sagt, að þessi till. er mun jarðbundnari en heyrst hefur í þeirri umræðu um auðlindagjald sem hingað til hefur verið. Í till. hefur verið rætt um atriði sem ýmsir sjálfstæðismenn hafa margítrekað að þeir gætu sætt sig við. Þar eru hugmyndir um hvernig greiða eigi fyrir þjónustu við sjávarútveginn. Slíkt mætti gera með gjaldtöku sem færi í ákveðinn rekstrarkostnað Hafrannsóknastofnunar og stofnanir sem hafa eftirlit með sjávarútveginum.

Ég hef lýst því yfir hér á þingi að í mínum huga þurfi auðlindagjald ekkert að vera skattur heldur geti það verið einfalt gjald fyrir veitta þjónustu. Ég veit að ýmsir aðrir fulltrúar Sjálfstfl. hafa lýst yfir samþykki við slíkar hugmyndir. Ég hygg að margir geti tekið undir það að hóflegt gjald fyrir notkun á þessari auðlind sé sanngjarnt þegar um er að ræða kostnað sem þarf til að starfsemin geti gengið.

Ég held samt að flutningsmenn þessarar tillögu séu að hugsa um meira en eingöngu að leggja á gjald til að standa straum af þessum kostnaði. Eftir því sem hv. þm. Margrét Frímannsdóttir sagði er hugmyndin einnig sú að jafna orkuverð með slíku gjaldi. Mér hefur jafnvel heyrst að meiningin sé að reyna að mæta tekjuskattsálagningu þannig að hægt sé að lækka hana. (MF: Kom það fram í máli mínu?) Ekki í máli þínu. Það hefur heyrst annars staðar frá. (Gripið fram í.) Ég er að tala um það sem heyrst hefur í sameiningarvinnu þeirri sem verið hefur í gangi hjá þessum flokkum. Ég er að tala um þá till. sem hér er til umræðu og þá umræðu sem verið hefur í kringum hana. Ég tel alveg fyllilega eðlilegt að ræða um þetta út frá öllum þeim sjónarmiðum sem komið hafa fram í tengslum við auðlindagjald.

Ég vil bara minna á að auðlindagjald, sem skattur á sjávarútveginn, hlýtur að koma niður á þeim sem nýta auðlindina. Í því sambandi vil ég rifja upp það sem ég og margir aðrir höfum sagt opinberlega, að á Suðurnesjum hafa menn keypt til sín gríðarlega mikinn kvóta til að komast á sjó og reka fiskvinnslu á því svæði. Þau kaup hafa verið svæðinu nauðsynleg. Án þeirra hefði fjöldi fólks á þessu svæði einfaldlega misst vinnuna. Bátum yrði lagt og fiskvinnslan yrði minni um sig. Gjald á sjávarútveginn mundi eingöngu verða til þess að leiga á aflaheimildum yrði hærri en ella. Ég mundi því gera ráð fyrir því að erfiðara yrði fyrir fiskvinnslufólk og sjómenn á þessu svæði að fá vinnu ef það gjald sem nú er lagt á yrði hækkað verulega í kjölfar slíkrar samþykktar einhverrar nefndar. Ég minni á að í dag er greitt auðlindagjald í formi gjalds til Þróunarsjóðs og stofnana á vegum sjútvrn. og eins er greitt gjald til að fá að stunda sjó á ákveðnum svæðum landsins.

Ef hugmyndir sem uppi hafa verið, kæmu fram í starfi þríhöfða nefndarinnar svokölluðu, um að banna framsal eða auka veiðiskyldu skipa svo mikið að leigukvóti mundi leggjast af, mundi auðlindagjald í sjálfu sér ekki skipta þessa leigu máli. Sú fiskvinnsla sem borin hefur verið uppi af leigunni mundi leggjast af. Ég vil eingöngu leggja áherslu á er að þetta mál er orðið mjög flókið.

Það kemur óhjákvæmilega niður á því fólki sem lifir af sjávarútvegi ef skattar á þá starfsemi verða auknir. Það eru engir aðrir en atvinnulífið sjálft sem kemur til með að greiða þessi gjöld. Þess vegna finnst mér að nefndin, ef hún verður skipuð og hvernig sem hún verður skipuð, verði að skoða afleiðingarnar fyrir landsbyggðina, stöðu sveitarfélaga og afleiðingar af óhóflegri skattlagningu á þessi svæði. Hún yrði að skoða hvaða afleiðingar það gæti haft fyrir búsetu og starfsemi fyrirtækja á svæðinu.