Skipan opinberrar nefndar um auðlindagjald

Fimmtudaginn 19. febrúar 1998, kl. 16:12:45 (4120)

1998-02-19 16:12:45# 122. lþ. 72.8 fundur 465. mál: #A skipan opinberrar nefndar um auðlindagjald# þál., KPál (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 72. fundur, 122. lþ.

[16:12]

Kristján Pálsson (andsvar):

Herra forseti. Ég held að ekki sé hægt að segja annað en að þessi till. hv. þm. Alþb. sé afskaplega óskýr og erfitt að átta sig á því hvað eigi að skoða nákvæmlega. Í henni er sagt að skoða eigi hvernig eigi að tryggja afrakstur af auðlindum og sameign þjóðarinnar. Hvað þýðir þetta í rauninni? Hvað eruð þið að meina? Hvernig á að tryggja þennan afrakstur? Hvaða skattlagning er ætluð til að tryggja þennan afrakstur? Ég skil það ekki.

Síðan er lögð sérstök áhersla á að gjaldtaka sé ekki skattur. Það er náttúrlega augljóst að gjaldtaka hlýtur að vera skattur, fé sem fyrirtækin þurfa að inna af hendi til opinbers aðila, hvort sem það er kallað auðlindagjald eða auðlindaskattur. Ég sé engan mun á því.

Hjá sjómönnum hlýtur það t.d. að þýða að gjaldið verður tekið af óskiptu og lækkar skiptahlut þeirra. Á hv. þm. ekki við það? Útgerðin er örugglega hugsuð sem gjaldandi í þessu tilfelli. Gjöldin verða tekin af rekstrartekjum þeirra fyrirtækja. Annars væri varla hægt að innheimta þetta gjald. Mér leikur forvitni á að vita hvað það er sem á að tryggja afrakstur svokallaðrar sameignar þjóðarinnar.