Skipan opinberrar nefndar um auðlindagjald

Fimmtudaginn 19. febrúar 1998, kl. 16:35:47 (4125)

1998-02-19 16:35:47# 122. lþ. 72.8 fundur 465. mál: #A skipan opinberrar nefndar um auðlindagjald# þál., KPál (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 72. fundur, 122. lþ.

[16:35]

Kristján Pálsson (andsvar):

Herra forseti. Það eru ekki mjög mörg ár síðan útgerðarfélög í landinu voru flest hver rekin með 20--40% halla. Þá var venjan sú að gengið var fellt til þess að hægt væri að auka tekjur fiskvinnslunnar svo að hún gæti bætt upp stöðu útgerðarinnar. Á þeim tíma datt ekki nokkrum manni í hug að leggja aukaskatta á sjávarútveginn. Það var frekar í þá tíð að skattar voru lækkaðir á sjávarútveginn og var t.d. aðstöðugjaldið lægst á útgerðarfyrirtæki, miklu lægra á útgerðarfyrirtæki en nokkurn tíma verslun og aðra slíka starfsemi eins og menn hér inni væntanlega muna þannig að umræðan í dag er eingöngu komin til vegna þess að sjávarútvegurinn stendur miklu betur heldur en hann hefur gert. Hann er sem sagt sjálfbjarga sem hann var ekki fram að kvótakerfinu eða þar til menn gátu farið að skipuleggja veiðarnar eðlilega. Það mundi ég segja að væri fyrst og fremst því að þakka að það er hægt að borga eitthvert gjald eins og gert er núna með greiðslu í Þróunarsjóð og fleiri gjöld á vegum sjávarútvegsins.

Það er alveg rétt sem hv. þm. Kristinn Gunnarsson sagði áðan að sjálfstæðismenn hafa að sjálfsögðu staðið að því að leggja á þetta gjald sem er í mínum huga mjög hóflegt og má helst ekki verða miklu meira án þess að það lendi mjög illþyrmilega á sjómönnum. Það eru engir aðrir sem koma til með að greiða þetta gjald en sjómenn því að þetta svokallaða auðlindagjald, sem er ekkert annað en skattur, mun lenda á skiptahlutnum og að endingu eru það þeir sem síst skyldi sem þurfa að borga aukagjaldið. Það er því ekki hægt að rugla þessa umræðu neitt með spurningum um skatt eða gjald. Það er sami liturinn á þessu, brúnn eða rauður, það breytir engu.