Skipan opinberrar nefndar um auðlindagjald

Fimmtudaginn 19. febrúar 1998, kl. 16:40:46 (4127)

1998-02-19 16:40:46# 122. lþ. 72.8 fundur 465. mál: #A skipan opinberrar nefndar um auðlindagjald# þál., KPál (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 72. fundur, 122. lþ.

[16:40]

Kristján Pálsson (andsvar):

Herra forseti. Ég sagði ekkert um það að afkoma sjávarútvegsins væri mjög góð. Ég sagði aftur á móti að hún hefði batnað mjög eftir að kvótakerfið var sett á og fyrirtæki í sjávarútvegi gátu farið að skipuleggja starfsemi sína með öðrum hætti en áður var þannig að kostnaður minnkaði og það er staðreynd.

Það er náttúrlega líka ástæðan fyrir því að það er þó hægt að ætlast til þess að sjávarútvegurinn geti borgað eitthvað af þeirri þjónustu sem að honum lýtur og hefur þar á meðal komið út sem skattahækkanir eins og hv. þm. benti á áðan í formi gjalda sem eru til þess að úrelda skipaflotann t.d., til endurnýjunar í fiskvinnslu og til að kaupa upp fiskvinnsluhús þar sem um er að ræða samruna fyrirtækja eða þróun innan fyrirtækja. Á þann hátt hefur sjávarútvegurinn sjálfur séð um að fjármagna skipulagsbreytingar. Það sem er nýjast og ferskast í sjávarútveginum er það að sjávarútvegsfyrirtækin hafa sjálf séð um þessa endurskipulagningu og kostnaðinn af henni. Og það er ekkert óeðlilegt við það að sjávarútvegurinn standi undir slíku. Ég er samt sem áður hræddur við að ef farið yrði út í meiri skattlagningu en þegar er orðin, þá gæti það komið harkalega niður á sjávarútveginum og þá náttúrlega ekki síst þeim sem starfa við hann, sjómönnunum sjálfum. Ég er ekki að halda því fram að hv. þm. Kristinn H. Gunnarsson vilji það, alls ekki. Ég er samt að leggja á það áherslu að það hlýtur að verða niðurstaðan að fyrirtækin sem koma til með að bera þennan skatt, þurfa með einhverju móti að greiða hann og það kemur væntanlega út sem lægri laun til þeirra starfsmanna sem hjá þessum fyrirtækjum starfa.