Skipan opinberrar nefndar um auðlindagjald

Fimmtudaginn 19. febrúar 1998, kl. 16:42:42 (4128)

1998-02-19 16:42:42# 122. lþ. 72.8 fundur 465. mál: #A skipan opinberrar nefndar um auðlindagjald# þál., KHG (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 72. fundur, 122. lþ.

[16:42]

Kristinn H. Gunnarsson (andsvar):

Herra forseti. Það er mikil þjóðsaga að hið umdeilda kvótakerfi hafi fætt af sér mikla hagræðingu í sjávarútvegi og skapað arð sem annars hefði ekki orðið til. Ég dreg það nokkuð í efa þó að ég ætli ekki að halda því fram að ekki hafi eitthvað gott af því leitt. Það held ég að hljóti að vera.

Ég minni á það að undanfarin ár hafa menn búið við verulega skömmtun á þessum sviðum. Þrátt fyrir nokkuð harða stjórn eru allir helstu fiskstofnar þjóðarinnar ekki betur á sig komnir en svo að það er ekki mikið sem leyft er að veiða úr þeim, sérstaklega ekki í þorskinum. Þrátt fyrir að menn hafi hamast við að byggja upp stofninn tekst mönnum ekki betur til en svo að núna um þessar mundir erum við ekki að veiða nema um það bil helminginn af þeim þorski sem við höfðum veitt að meðaltali áratuginn á undan.

Ávinningurinn af skipulagsbreytingum og hagræðingu kemur fram í afkomu einstakra fyrirtækja en kostnaðurinn við að sækja þennan ávinning lendir á efnahagsreikningum annarra. Hann lendir á efnahagsreikningum þeirra fyrirtækja sem eiga eignir í landi og verða verðlitlar við breytingarnar og hann lendir á efnahagsreikningum fjölskyldnanna sem eiga eignir sínar í húsunum í fiskiþorpunum um landið sem um mörg hver er þannig ástatt um þessar mundir að lítill sem enginn kvóti er í þeim. Hver hefur reiknað þennan kostnað vegna stjórnunar fiskveiðanna? Það hefur enginn reiknað hann út. Auðvitað á að meta þennan kostnað og taka málið í heild. Það á ekki bara að skoða efnahagsreikning þeirra fyrirtækja sem hafa grætt. Það á líka að skoða áhrif af stjórnuninni á efnahag annarra, bæði þeirra sem eru innan atvinnugreinarinnar og hinna sem eru utan hennar.