Skipan opinberrar nefndar um auðlindagjald

Fimmtudaginn 19. febrúar 1998, kl. 16:45:03 (4129)

1998-02-19 16:45:03# 122. lþ. 72.8 fundur 465. mál: #A skipan opinberrar nefndar um auðlindagjald# þál., GÁS
[prenta uppsett í dálka] 72. fundur, 122. lþ.

[16:45]

Guðmundur Árni Stefánsson:

Virðulegi forseti. Í dag höfum við verið að ræða um grundvallaratriði í íslenskri pólitík, hverjir eigi landsins gögn og gæði og hvernig með þau skuli fara. Hér er að sönnu umræða sem er ekki ný af nálinni og raunar hefur hún verið skurðarpunktur milli íhaldsaflanna hér á landi og hins vegar frjálslyndari afla sem hafa viljað hafa hag almennings að leiðarljósi en ekki hag einstaklinga.

Pólitísku álitaefnin í þessum efnum eru í raun þrjú og þau hafa öll kristallast í umræðum um þau frumvörp sem hér hafa verið rædd í dag og einnig það sem nú er á dagskrá.

Í fyrsta lagi: Hver á Ísland? Hver á þessar auðlindir og hvernig ber að greiða úr álitamálum er varða almannarétt og einkaeignarrétt? Stundum meintan einkaeignarrétt að sönnu. Þetta hefur verið eitt pólitískasta deiluefnið mestan hluta þessarar aldar. Þarna hefur vantað skýra lagasetningu. Eftir henni hefur verið kallað af hálfu dómstóla um langt árabil. Félagshyggjuflokkarnir tveir, Alþfl. og Alþb., hafa ítrekað reynt það á hinu háa Alþingi að koma með pólitísk og skýr svör í þeim efnum og í því sambandi bera vitni fjölmörg lagafrumvörp.

Í öðru lagi: Ber að heimta gjald af nýtingu auðlinda sem teljast í eigu ríkisins? Menn hafa haldið því fram með réttlætisrökum að það sé auðvitað sanngjarnt og eðlilegt að þeir sem hafa af því hag, hafa af því fjármuni, greiði til eigandans eðlilegt afgjald. Um þetta hefur verið deilt. Og um þetta hefur líka legið ákveðinn skurðarpunktur milli félagshyggjumanna annars vegar og íhaldsmanna hins vegar. Í síðari tíð hefur umfjöllunin kannski ekki síst endurspeglast í umræðum um veiðileyfagjald eða auðlindagjald á sjávarútveg en málið er auðvitað langtum mun víðfeðmara en svo.

Það eru út af fyrir sig ákveðin tímamót í íslenskri pólitík sem eru að verða þessa klukkutímana og hina síðustu daga þegar stjórnarflokkarnir, helmingaskiptaríkisstjórn Davíðs Oddssonar hefur nú tekið undir það meginstef að það beri að skoða þetta mjög gaumgæfilega. Margir hafa gengið lengra og telja það réttlætisrök að taka gjald af þessum auðlindum. Að vísu hafa menn staldrað við það og deilt um skilgreininguna á því hvort beri að kalla gjaldið gjald eða skatt. Það er að minni hyggju algjört aukaatriði málsins. En ég vil minna þá sjálfstæðismenn einkum og sér í lagi á það að í síðustu ríkisstjórn var hæstv. forsrh. aldeilis glöggur á því þegar rætt var um þjónustugjöldin að þá væri þar um að ræða gjöld sem fólk greiddi fyrir þjónustu í þessu tilfelli og þar af leiðandi má með sanni segja að það sama gildi þegar greitt er afgjalds fyrir afnot af einhverju í eigu annars. Um þetta þarf því ekki að ræða. Ef sjálfstæðismönnum finnst óþægilegt að ræða um skattlagningu þá halda þeir sig bara við afgjaldshugmyndina.

En auðvitað eru það stórtíðindi að nú loksins skuli stjórnarliðar segja það hér og taka undir till. til þál. þar sem segir m.a., með leyfi forseta:

,,Nefndin kanni möguleika á að nota auðlindagjald til að tryggja að afrakstur sameiginlegra auðlinda skili sér á réttmætan hátt til þeirra sem hagsmuna hafa að gæta.``

Ekki nóg með það. Sjálfstæðismenn og framsóknarmenn hafa einnig fagnað tilurð þessarar þáltill. þar sem margnefnd nefnd á ekki að kanna hvort heldur hvernig skuli staðið að gjaldtöku fyrir afnot af auðlindum í sameign þjóðarinnar. Það er sem sagt ekki lengur um það deilt í íslenskri pólitík hvort það eigi að taka gjald fyrir auðlindir í sameign íslensku þjóðarinnar heldur hvernig beri að standa að því. Auðvitað væri ástæða til að segja: Loksins, loksins varð ljós. Því að nú eru menn komnir í þriðja fasa málsins og hann er sá hversu hátt þetta gjald á að vera. Það er auðvitað athyglisvert að í þessum umræðum í dag og nú í orðum síðasta ræðumanns fóru menn inn í hinn gamalkunna farveg að ræða um það hvort og hvernig sjávarútvegur gæti staðið undir svo og svo miklu gjaldi fyrir afnot af fiskinum í sjónum og fyrir það leyfi að fá að veiða hann. Við erum sem sagt komin að síðasta fasa málsins og það er auðvitað fagnaðarefni.

Við alþýðuflokksmenn erum auðvitað fyrir löngu komnir á þetta stig og höfum hamrað á því nú um langt árabil að hér væri um réttlætismál að ræða. Nú eru menn að koma til liðs við þetta gamla baráttumál Alþfl. með þeim hætti sem fram hefur komið í þessari umræðu.

Ég dreg hins vegar enga dul á það, virðulegi forseti, að mér hefði fundist eðlilegra að menn gengju hreint til verks og tækju myndarlegri skref í þeim efnum hér á hinu háa Alþingi á yfirstandandi þingi. Ég hef nefnilega dálitlar áhyggjur af því að þeir stjórnarliðar séu kannski ekki þegar allt kemur til alls eins sannfærðir sumir hverjir og þeir vilja vera láta og að baki kunni hugsanlega að liggja það eitt að fresta málinu, að drepa því á dreif í þessari þverpólitísku nefnd sem hér er verið að leggja til. Auðvitað styrktust þær grunsemdir mínar verulega þegar hv. þm. Jón Kristjánsson hóf umræðuna á því að spyrja 1. flm. þessa máls um það hvaða áhrif þessi tillaga kynni að hafa á samstarf, samtöl, samvinnu og hugsanlegt sameiginlegt framboð A-flokkanna og Kvennalista eins og það væri kjarni þessa máls. En það vil ég að komi skýrt fram hér, virðulegi forseti, í því samhengi og öðru að það verður vitanlega ekki þannig með þetta mál né önnur lykilmál íslenskra stjórnmála að þau verði lokuð inni, hvorki í þessari nefnd né nokkurri annarri, eða aðskilin frá almennri pólitískri umræðu hvort sem það er á milli einstakra flokka í góðu eða í deilumálum milli einstakra flokka, sem er gamalt og þekkt, ellegar í almennri umræðu í samfélaginu þannig að mér dettur ekki í hug eitt aukatekið andartak að þessi tillaga, jafnágæt sem hún er, geri það að verkum að umræðunni verði drepið á dreif. Í tillögunni er að finna ákveðin grundvallarstef sem ég er mjög sáttur við. Ég hef ekki séð aðrar leiðir skynsamlegri, fljótvirkari til þess að komast að kjarna málsins, en vitaskuld munu þeir flokkar og þau samtök sem hafa barist fyrir almannahagsmunum og gegn sérhagsmunum halda sinni baráttu áfram hvað sem líður nefndarstarfi sem vonandi gengur hratt og vel fyrir sig.