Skipan opinberrar nefndar um auðlindagjald

Fimmtudaginn 19. febrúar 1998, kl. 16:53:44 (4130)

1998-02-19 16:53:44# 122. lþ. 72.8 fundur 465. mál: #A skipan opinberrar nefndar um auðlindagjald# þál., SJS
[prenta uppsett í dálka] 72. fundur, 122. lþ.

[16:53]

Steingrímur J. Sigfússon:

Herra forseti. Ég fagna þeirri umræðu sem hér hefur orðið um tillögu okkar þingmanna Alþb. og óháðra um skipan skipan opinberrar nefndar um auðlindagjald. Umræðan hefur að mestu leyti haldið sig við efni tillögunnar og efni málsins, og er það auðvitað vel, og hefur að langmestu leyti verið upplýsandi um sjónarmið og afstöðu þeirra sem þátt hafa tekið í henni.

Ég vil í öðru lagi leggja áherslu á það sem einnig kom fram í máli hv. þm. Kristins H. Gunnarssonar að auðvitað ber að skoða tillöguflutning og frumvarpsflutning okkar þingmanna Alþb. og óháðra í samhengi. Hér liggja í raun og veru fyrir ferns konar þingmál sem öll tengjast þessu máli á einn eða annan hátt: Það er sú tillaga sem hér er til umræðu sem er um hina almennu stefnumótun og nefndarskipan. Það er frv. um breytingu á stjórnarskipunarlögum sem hv. þm. Ragnar Arnalds er 1. flm. að. Það er frv. um ráðstafanir í sjávarútvegsmálum sem sá er hér talar er 1. flm. að. Og það er frv. um afnám gildistöku eða tímabundið gildi laganna um stjórn fiskveiða, sem hv. þm. Kristinn H. Gunnarsson er 1. flm. að.

Fyrir þá sem hafa áhuga á sagnfræði er fróðlegt að bera þessar tillögur saman og lesa þær sem eina heild. Þá komast menn væntanlega að þeirri niðurstöðu sem er óhrekjanleg og birtist í þessum tillögum og frumvörpum að þarna er um samræmda og heildstæða nálgun að ræða þar sem stjórnarskrárfrv. setur hinn almenna ramma og leggur til að fest verði í stjórnarskrá grundvallaratriði málsins þar sem tvenns konar frumvörp sem tengjast núgildandi fiskveiðilöggjöf leggja til breytingar á þeirri löggjöf og í fjórða lagi þessi tillaga hér um nefndarskipunina.

Með þessum hætti held ég að sé náð mjög vel utan um þetta mál og það er mín skoðun að það væri afar farsælt ef hægt væri að sveigja umræður um bæði þetta mál, gjaldtökumálin og auðlindamálin, og deilur um ýmsa ágalla á löggjöfinni um stjórn fiskveiða inn í einhvern slíkan skynsamlegan farveg þar sem menn í fyrsta lagi yrðu ásáttir um það að gera tilteknar lagfæringar nú þegar á löggjöfinni um stjórn fiskveiða og þar sem menn í öðru lagi yrðu sammála um að fara í víðtæka vinnu sem gæti orðið til grundvallar niðurstöðu hvað varðar þessi auðlindagjaldsmál sem þarf auðvitað að lenda með einhverjum hætti. Því varla er það framtíðarsýn nokkurs manna að standa í linnulausum deilum og þrasi um þetta svo áratugum skiptir með þjóðinni, eða hvað? Það hlýtur að vera markmiðið að leiða þetta mál farsællega til lykta og ég held að nálgun af því tagi sem hér er lögð til sé lykillinn að því að ná landi í þessu máli. Annars geta menn mín vegna, ef þeim sýnist svo, staðið í deilum um þetta langt inn í næstu öld ef menn hafa gaman af því sem íþrótt, en ég held að það sé ekki farsælt og ekki gott fyrir þjóðina og orku okkar sé betur varið í aðra hluti en þá að ræða og deila endalaust um mál af þessu tagi sem ég hef lengi talið að eigi að vera tiltölulega auðvelt að ná saman um ef hófsamleg og skynsamleg leið er valin. Í þriðja og síðasta lagi fæli þetta svo í sér að menn næðu sátt um það að taka upp í stjórnarskipunarlögin grundvallarregluna í þessu sambandi sem á auðvitað að vera þar, á að lögfesta þar. Því það er himinhrópandi og stórt gat í íslensku stjórnarskránni að þar skuli ekki á einhvern hátt vera tekið á þessum sameignarákvæðum og sameiginlegu réttindum þjóðarinnar gagnvart landinu sem hún býr í og auðlindum þess. Það vantar. Þetta vildi ég segja um þetta atriði, herra forseti.

Ég kemst ekki hjá því að segja örfá orð um hliðarspor sem umræðan tók í framhaldi af orðum sem hv. þm. Ágúst Einarsson lét falla og hent voru á lofti af hv. þm. Guðnýju Guðbjörnsdóttur og Kristjáni Pálssyni. Þegar menn fara að rugla efnislegu þingmáli af þessu tagi við einhver alls óskyld mál, eitthvert ferli í stjórnmálunum á milli flokka, þá eru menn á hreinum villigötum. Það er út í loftið að vera með ályktanir af því tagi sem hv. þm. Ágúst Einarsson var með hér í lokin, fullkomlega út í loftið. Og þess þá heldur voru gáfuleg viðbrögðin og orðaskipti hans og hv. þm. Guðnýjar Guðbjörnsdóttur og Kristjáns Pálssonar. Við verðum engu nær, minna en engu nær gagnvart því að taka efnislega á málum af þessu tagi ef við hrærum allt öðrum og óskyldum hlutum inn í þau eins og þar var verið að gera. Það er aldeilis fráleitt að mínu mati.

Mér fannst það miður að það var eiginlega ekki hægt að skilja hv. þm. Ágúst Einarsson öðruvísi en svo að honum hefði þótt það verra að tillaga Alþb. hefði fengið góðar undirtektir, þar á meðal frá talsmönnum stjórnarflokkanna. Ég botna ekkert í þessu. Það þýðir ekkert fyrir hv. þingmenn að vera eitthvað öfundsjúkir út í það þó málflutningur annarra þingmanna eða annarra þingflokka fái góðar undirtektir og þyki skynsamlegur. Menn verða bara að búa við það. Menn koma beinlínis upp um sjálfa sig með viðbrögðum af því tagi. Ég held að það sé fagnaðarefni fyrir alla og líka jafnaðarmenn ef niðurstaða eða a.m.k. vinnufarvegur í þessu máli sem allir geta átt aðild að er að nálgast. Það hlýtur að vera svo. Og að sjálfsögðu koma sjónarmið þingmanna jafnaðarmanna þangað inn líka eins og sjónarmið annarra, framsóknarmanna, sjálfstæðismanna, kvennalistakvenna og hvað það nú er.

Svo vil ég segja að lokum, herra forseti, að ég held að það sé rangt að stilla þessu máli þannig upp að grundvallarmálið hér snúist um gjaldtöku eða ekki gjaldtöku. Það er tóm vitleysa. Það er alveg út í móa að stilla málum þannig upp vegna þess í fyrsta lagi að nú þegar er til staðar heilmikil gjaldtaka þannig að ef það hefði einhvern tíma veri prinsippatriði þá er það mál löngu úr sögunni. Það er þegar til staðar heilmikil gjaldtaka og kostun t.d. á sjávarútveginn og í ýmsum öðrum tilvikum eins og hv. þm. Margrét Frímannsdóttir hefur t.d. nefnt og bent á Kísiliðjuna, námaleyfisgjöld, efnistökugjöld og önnur slík gjöld. Það er ekki prinsippmálið, alls ekki, og hefur aldrei verið.

Það hefur heldur ekki verið neinn ágreiningur um það þannig að það er ekki heldur rétt að nálgast málið út frá því vegna þess að mér er ekki kunnugt um að neinn maður hafi nokkurn tíma haldið því fram að ekki kæmi til greina að sjávarútvegurinn t.d. greiddi einhverja hluti sjálfur. Ég hef ekki heyrt þau sjónarmið. Ég minni t.d. á tillögu frá fyrra kjörtímabili um að sjávarútvegurinn borgaði hluta af rekstrarkostnaði Hafrannsóknastofnunar. Hverjir fluttu það? Sjálfstæðismenn og reyndar alþýðuflokksmenn. Ekki var ágreiningur um það mál, var það, flutt af hæstv. sjútvrh.? Nei, þetta hefur snúist um það hvers eðlis þessi gjöld væru, hvernig þau væru skilgreind og til hvaða þarfa þau rynnu. Vatnaskilin í þessu máli liggja einmitt um spurninguna gjaldtaka eða skattur. Þess vegna verður hv. þm. Kristján Pálsson að fara í læri í þeim efnum til umboðsmanns Alþingis, skattstjóra eða annarra slíkra aðila sem geta frætt hv. þm. um muninn á gjaldtöku, gjöldum og skatti til þess að skilja kjarna þessa máls. (Forseti hringir.) Spurningin er um það hvort sjávarútvegurinn eða aðrar atvinnugreinar í vaxandi mæli kosti að einhverju leyti sjálfar hluti sem þjóðarbúið hefur hingað til gert vegna þeirra eða hvort þær verða skattlagðar í gegnum svona gjöld eða skatta til óskyldra þarfa þjóðarbúsins. Það er prinsippatriðið. Það er vendipunkturinn í þessu máli. Það verða menn að skilja.