Skipan opinberrar nefndar um auðlindagjald

Fimmtudaginn 19. febrúar 1998, kl. 17:02:33 (4131)

1998-02-19 17:02:33# 122. lþ. 72.8 fundur 465. mál: #A skipan opinberrar nefndar um auðlindagjald# þál., KPál (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 72. fundur, 122. lþ.

[17:02]

Kristján Pálsson (andsvar):

Herra forseti. Ég átta mig ekki almennilega á því hvað hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon var að meina með því að við hv. þm. Guðný Guðbjörnsdóttir hefðum blandað saman óskyldum málum í andsvari við ræðu hv. þm. Ágústs Einarssonar. Ég veit ekki annað en að hv. þm. Guðný Guðbjörnsdóttir hafi einvörðungu verið að tala um þátt Kvennalistans í þeim sameiningarviðræðum sem hafa verið í gangi. Ég var aftur á móti að ræða um allt önnur mál. Ég held því að ekkert hafi verið líkt með málflutningi okkar hv. þm. Guðnýjar Guðbjörnsdóttur.

Vegna þess að hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon telur að umræðan hafi ekki verið nógu efnisleg og farið út í óskylda hluti þeim sem eiga að felast í þessari tillögu, þá verður bara að minna á það enn og aftur að tillagan er mjög óskýr. Í henni stendur, með leyfi forseta:

,,Nefndin kanni möguleika á að nota auðlindagjald til að tryggja að afrakstur sameiginlegra auðlinda skili sér á réttmætan hátt til þeirra sem hagsmuna hafa að gæta.``

Mér finnst þetta afskaplega óskýrt orðalag og átta mig ekki almennilega á því hvert það á að leiða, þ.e. að tryggja afrakstur af auðlindinni til þess að hún nýtist þjóðinni. Ég get ekki ímyndað mér annað en að margt geti komið til greina.

Þar að auki hafa tveir hv. þm., flutningsmenn að þessari tillögu, lagt önnur þrjú mál inn í púkkið og segja að það sé hluti af öllu saman. Það eru allt í einu komin miklu fleiri mál í spilið, m.a. það að framsal verði afnumið og svokallað kvótabrask eins og það hefur verið nefnt hér en ég vil kalla kvótaleigu eða kvótaviðskipti, verði bannað. Það er allt í einu orðið hluti af þessari tillögu eftir því sem ég skil hv. þm. í þessari umræðu. Auðvitað hljóta menn að þurfa að fara nokkuð víðar í umræðunni en bara að rýna í þennan texta nákvæmlega eins og hann er því hann býður upp á umræðu um alla flóruna sem rædd hefur verið í tengslum við auðlindagjald og auðlindaskatt og í því felst enginn munur, hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon, (Forseti hringir.) því það er engin spurning um það að þeir sem fá sendan reikninginn og þurfa að borga hann eru í þessu tilfelli útgerðarmenn sem síðan verða að taka það af því aflafé sem kemur vegna þess fisks sem kemur úr sjónum og auðvitað hljóta þá sjómennirnir að fá minni aflahlut. Það gefur auga leið.