Skipan opinberrar nefndar um auðlindagjald

Fimmtudaginn 19. febrúar 1998, kl. 17:08:09 (4133)

1998-02-19 17:08:09# 122. lþ. 72.8 fundur 465. mál: #A skipan opinberrar nefndar um auðlindagjald# þál., KPál (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 72. fundur, 122. lþ.

[17:08]

Kristján Pálsson (andsvar):

Herra forseti. Ég held að við hv. þm. séum að tala um nákvæmlega sama hlutinn í rauninni og ekki þurfi að þvarga meira um það hver sé munurinn á gjaldi og skatti. Eins og hv. þm. segir réttilega, þá er verið að leggja á ákveðinn kostnað sem ríkið ber af einhverri þjónustu á útgerðina. Það er kjarni málsins. Því meiri sem þessi kostnaður verður sem lagður er á útgerðina, því minna verður eftir. Ég geri ekki ráð fyrir því að við séum ósammála um þessa túlkun.

Ég held að út af fyrir sig sé hægt að taka undir það með hv. að þessi tillaga sé mjög einföld að því leytinu til að verið er að biðja um nefndarskipan. En í greinargerð með þessari tillögu er tekið á öllum hugsanlegum málum sem geta komið upp í slíkri nefnd og auðvitað hlýtur það að taka yfir alla þessa flóru. Það er m.a. talað um að það eigi að kanna leiðir til þess að hægt sé að jafna orkuverð til landsmanna. Það er eitt af því sem menn vilja láta skoða í þessari nefnd. Ég geri ráð fyrir að það sé vegna þess að þá verði lagt gjald á orkuveitur til þess að standa undir þessum kostnaði. Það er gert öðruvísi nú, þ.e. með því að greiða ákveðinn styrk í þann hluta rekstrarkerfis Landsvirkjunar sem sér um húshitun. Landsvirkjun greiðir því orkuveitunum um landið ákveðinn styrk til þess að geta lækkað orkuverðið. Auðvitað er þetta allt af sama meiði og ég tek heils hugar undir að það megi skoða öll þessi mál og það sé mjög eðlilegt að skoða öll þessi mál.