Skipan opinberrar nefndar um auðlindagjald

Fimmtudaginn 19. febrúar 1998, kl. 17:12:45 (4135)

1998-02-19 17:12:45# 122. lþ. 72.8 fundur 465. mál: #A skipan opinberrar nefndar um auðlindagjald# þál., VS
[prenta uppsett í dálka] 72. fundur, 122. lþ.

[17:12]

Valgerður Sverrisdóttir:

Hæstv. forseti. Mig langar til að koma inn í þessa umræðu og mér gengur gott eitt til með því. (GÁS: Það er gaman að heyra það.) Það er kannski vissara að taka það fram miðað við það að sumir hv. þm. eru svolítið viðkvæmir fyrir því að tillagan sem hér er til umfjöllunar hefur hlotið nokkuð góðar móttökur hjá stjórnarflokkunum og ekki síst Framsfl. Ástæðan er einfaldlega sú að okkur finnst þessi nálgun vera slík að full ástæða sé til þess að gefa henni gaum og fara yfir kosti þess og galla að horfa á málið út frá því sem lagt er til í tillögunni. Ýmsar tillögur sem hafa verið kynntar og ræddar á hv. Alþingi hafa verið öfgatillögur að mínu mati og ekki verið þess virði að taka undir þær og ekki verið pólitískur vilji fyrir því í mínum flokki. Hins vegar finnst okkur að þetta sé þess eðlis að full ástæða sé til þess að skoða það. Hugmyndin er ekki sú að svæfa málið eða loka það einhvers staðar inni eins og kom fram hjá hv. stjórnarandstæðingi áðan, fulltrúa jafnaðarmanna.

Mér finnst þó að tillögugreinin, eins og ég skil hana, sé kannski óþarflega umfangsmikil. Ég velti því fyrir mér hvort að nefndin eigi að hafa svo mikið hlutverk sem kveðið er á um í fyrri hluta greinarinnar. Síðari hlutinn fjallar meira um hugsanlega gjaldtöku og hvernig að henni skuli staðið og hugsanlega hvernig því gjaldi skuli varið en fyrri hlutinn fjallar að mínu mati að einhverju leyti um eignarréttinn. Mér finnst að þar sem nokkur stjórnarfrumvörp liggja fyrir þinginu núna til umfjöllunar og taka á þeim málum þá sé athugandi hvort hv. umhvn. sem væntanlega fær málið --- ég styð það að hún fái málið --- gæti kannski stytt greinina. Ef ég má, með leyfi forseta, lesa fyrri hlutann:

[17:15]

,,Alþingi ályktar að kjósa níu manna nefnd sem hafi það hlutverk að fjalla um auðlindir sem eru eða kunna að verða þjóðareign, m.a. öll verðmæti í sjó og á hafsbotni ...`` --- Er nokkur spurning um að þar sé um þjóðareign að ræða? Ég tel það vera lögbundið --- ,,svo og í almenningum, afréttum og öðrum óbyggðum löndum utan heimalanda,`` --- með þjóðlendufrv. verður skýrt kveðið á um að þó að þessi orð verði felld út þá verði þar um þjóðareign að ræða --- ,,námur í jörð, orku í rennandi vatni og jarðhita neðan við 100 metra dýpi.``

Nú er ég í sjálfu sér ósátt við þau mörk sem hv. þingmenn Alþb. hafa talað fyrir, að miða við 100 metra dýpið. Mér finnst ákveðin hætta á að það standist ekki ákvæði stjórnarskrárinnar um eignarrétt í 72. gr. Er hugmyndin sú að allt þetta skuli skráð, að nefndin fái það hlutverk að skrá allar þessar auðlindir? Það er ekkert smáverk ef út í það verður farið. Mér finnst þetta svolítið óljóst. Kannski er eðlilegt að svo sé og þá fær nefndin það hlutverk að fara frekar ofan í textann. Síðan kemur, með leyfi forseta:

,,Nefndin kanni einnig hvernig staðið skuli að gjaldtöku fyrir afnot af auðlindum í sameign þjóðarinnar, með hliðsjón af þeim gjöldum sem fyrir eru.``

Þarna er talað um gjöld. Ég tek undir það með hv. þm. Steingrími J. Sigfússyni, að ég lít öðrum augum á orðið gjald en orðið skattur. Í því sambandi langar mig til að vitna til samþykktar okkar framsóknarmanna frá síðasta flokksþingi. Þar segjum við, í kafla um sjávarútvegsmál, með leyfi forseta:

,,Stöðug óvissa um rekstrarumhverfi sjávarútvegsins hefur skaðað framtíðaruppbyggingu í greininni. Þessari óvissu verður að eyða með því að skapa stöðugleika og sátt um fiskveiðistjórnunina. Þingið telur að sjávarútvegurinn hafi ekki svigrúm til að greiða auðlindaskatt enda greiðir hann skatta til samfélagsins eins og önnur atvinnustarfsemi.``

Þarna erum við að tala um skatta. Mér fannst hv. þm. Kristinn H. Gunnarsson tala á þeim nótum hér áðan að ekki væri svigrúm fyrir atvinnugreinina að fara út í sérstakar skattgreiðslur meðan ástandið er ekki betra en raun ber vitni. Staðan hefur þó batnað verulega og ber að þakka það kvótakerfinu fyrst og fyrst.

Svo kemur í lok tillögugreinarinnar en næsti málsliður er líka svolítið óljós í mínum huga:

,,Nefndin kanni möguleika á að nota auðlindagjald til að tryggja að afrakstur sameiginlegra auðlinda skili sér á réttmætan hátt til þeirra sem hagsmuna hafa að gæta.``

Það er sjálfsagt þjóðin öll sem á hagsmuna að gæta þegar um sjávarútveginn er að ræða. Hugsanlega er þarna átt við að fleiri en útgerðarmenn og sjómenn eigi hagsmuna að gæta þegar rætt er um sjávarútveg. Allt of sjaldan er t.d. fjallað um fiskvinnslufólkið. Í þeirri umræðu sem nú fer fram, í sambandi við kjaradeilu sjómanna við útgerðarmenn, finnst mér allt of lítill gaumur gefinn að aðstæðum fiskvinnslufólks. Sá hópur kemur alltaf inn í þessa umræðu sem alger afgangsstærð.

Ég er ekki að rífa þennan texta niður. Ég fer bara yfir hann lið fyrir lið til þess að átta mig betur á honum ef svör bærust hér á eftir.

Síðan kemur ákvæði um að um hóflegt gjald skuli vera að ræða, hugsanlega til að standa undir rannsóknum til að stuðla að vernd og sjálfbærri nýtingu auðlindanna og réttlátri skiptingu afrakstursins, m.a. til að styrkja byggð í landinu. Ég býst ekki við að þetta sé sett inn af neinni tilviljun. Hv. flutningsmenn gera sér grein fyrir því að ef slíkt gjald yrði sett á þá væri þar, að verulegu leyti, um landsbyggðarskatt að ræða. Við framsóknarmenn höfum litið á það þannig og þess vegna sé ástæða til þess að slík gjöld, --- nú biðst ég afsökunar, ég var farin að tala um skatt, --- skiluðu sér aftur til landsbyggðarinnar.

Ég sé að tíma mínum er lokið. Ég hefði gjarnan viljað koma inn á þessa einföldu klisju sem kemur oft fram hjá hv. þm. Guðmundi Árna Stefánssyni. Hann segir að annars vegar sé verið að hugsa um hag almennings og hins vegar einstaklinganna. Stjórnarflokkarnir tveir virðast að hans mati aldrei hugsa um hag almennings. Engu að síður hafa þeir staðið fyrir aðgerðum í þjóðfélaginu sem orðið hafa til þess að auka mjög kaupmátt almennings.