Skipan opinberrar nefndar um auðlindagjald

Fimmtudaginn 19. febrúar 1998, kl. 17:38:17 (4141)

1998-02-19 17:38:17# 122. lþ. 72.8 fundur 465. mál: #A skipan opinberrar nefndar um auðlindagjald# þál., StB
[prenta uppsett í dálka] 72. fundur, 122. lþ.

[17:38]

Sturla Böðvarsson:

Herra forseti. Hér er til umræðu merkileg till. til þál. um skipan opinberrar nefndar um auðlindagjald eins og rækilega hefur komið fram í umræðunni. Ég vildi leggja aðeins orð að.

Fyrst vil ég fara aðeins yfir aðdraganda tillögunnar sem mér finnst mjög merkilegur. Það er ekki óeðlilegt að fram komi á Alþingi tillaga um að skipuð verði nefnd til að fjalla um auðlindagjald. Ég tel að það sé eðlilegt og í fyllsta máta í samræmi við þá umræðu sem hefur farið fram um þau efni að undanförnu. En það merkilega við tillöguna, sem er tillaga þingflokks Alþb., er að hún er niðurstaða af miðstjórnarfundi þess flokks og þó ekki viti ég nákvæmlega hvað þar fór fram en svo virðist af fréttum frá þeim fundi að þar hafi verið mikill ágreiningur. Sú tillaga sem hér er er því afrakstur þeirrar vinnu og úrlausn á miklum ágreiningi. Hver er niðurstaðan? Niðurstaðan er sú að Alþb. skilar auðu frá miðstjórnarfundi en leggur það í vald Alþingis hvaða stefnu Alþb. eigi að taka í auðlindamálum.

Út af fyrir sig er allt gott um þetta að segja ef það verður síðan niðurstaðan að Alþb. sé reiðubúið til þess að hlíta þeirri niðurstöðu sem þingkjörin nefnd mun komast að, nefnd sem verður væntanlega undir forustu stærsta stjórnmálaflokksins á Alþingi. Þetta er því tímamótaaðferð hjá stjórnmálaflokki að leita með þeim hætti að niðurstöðu í innanflokksdeilum. Þetta vildi ég segja um aðdraganda tillögunnar vegna þess að hún er að þessu leyti mjög merkileg.

Ef maður lítur hins vegar á efni tillögunnar sem er að skipa opinbera nefnd um auðlindagjald þá vildi ég spyrja vegna þess að hér er í greinargerð með tillögunni m.a. sagt, með leyfi forseta:

,,Nefndin kanni möguleika á að nota auðlindagjald til að tryggja að afrakstur sameiginlegra auðlinda skili sér á réttmætan hátt til þeirra sem hagsmuna hafa að gæta.``

Hér er ekki lagst í lítið verkefni og ég vildi að einhverjir af flutningsmönnum og ábyrgðarmönnum tillögunnar skýrðu nánar fyrir okkur við umræðuna vegna þess að ég lít svo á að þetta sé umræða sem allir aðilar verði að taka alvarlega og þess vegna er nauðsynlegt að fá skýringar á því hvað er átt við með þessum lið í tillögunni.

Hins vegar þegar litið er á spurninguna um auðlindagjald, þá hefur verið fróðlegt að fylgjast með umræðunni í dag um þau frumvörp sem hv. þingmenn Alþfl. hafa verið að mæla fyrir. Þeir hafa verið að mæla fyrir tillögum sem fela í sér að leita leiða til þess að ná inn fjármunum með því að leggja skatt á auðlindanýtingu. Út af fyrir sig tekur þessi tillaga ekki beint afstöðu til þess en engu að síður er alveg ljóst, þrátt fyrir allt samfylkingartal A-flokkanna, að bullandi ágreiningur er á milli flutningsmanna þessarar tillögu og þeirra sem hafa verið að mæla fyrir tillögum í dag á vegum Alþfl. (SvG: Það er nú annað en í Sjálfstfl.) Bullandi ágreiningur um aðferðir við að taka gjald af auðlindum.

Ef hins vegar er litið til þess hvaða leiðir eru til að ná inn tekjum af nýtingu auðlinda er auðvitað annars vegar sú leið að leggja á skatt eða eitthvað sem mætti nefna því nafni og svo hins vegar að gera ráð fyrir því að notendur auðlindarinnar greiddu, eins og er gert í dag, tilteknar upphæðir fyrir aðganginn. Ég get ekki alveg fallist á það sem hefur komið fram fyrr í dag að það eigi að taka upp gjald af auðlindum. Það er í mínum huga gert í dag hvað varðar sjávarútveginn, nýtingu auðlinda sjávar. Þeir sem hafa aðgang að fiskimiðunum greiða tilteknar upphæðir. Þó þær séu lágar eru þær greiddar og það kerfi er til staðar í dag.

Ég hef varað mjög eindregið við því að menn settu upp eitthvað sem kalla mætti auðlindagjald eða auðlindaskatt sem væri svo hátt að það megi afleggja með öllu tekjuskatta. Ég held að sjávarútvegurinn á Íslandi megi ekki við slíkum aðgerðum. Ég hef hins vegar verið talsmaður þess og hef skrifað um það og talað um það opinberlega að ég tel að það sé eðlilegt að þeir sem nýta auðlindir sjávar greiði kostnað við eftirlit, rannsóknir og fleira sem tengist nýtingu þeirrar auðlindar. Ef menn vilja kalla það auðlindagjald þá skiptir það út af fyrir sig ekki neinu máli. Það er greitt fyrir aðganginn og ég tel að það eigi að gera það og komi vel til greina að hækka þær greiðslur í hlutfalli við þann kostnað sem fylgir eftirliti og rannsóknum.

Þetta vildi ég að kæmi fram við umræðuna, herra forseti, en lýsi að öðru leyti stuðningi mínum við að tillagan verði skoðuð og það væri fagnaðarefni ef sem flestir alþingismenn gætu sameinast um að leita leiða í þá átt sem lagt er til. Ég tel hins vegar að það sé af og frá að við getum gert ráð fyrir því að sjávarútvegurinn á Íslandi verði skattlagður eins og ýmsir af hv. þm. Alþfl. hafa talað um í dag þegar þeir hafa mælt fyrir öðrum tillögum.