Skipan opinberrar nefndar um auðlindagjald

Fimmtudaginn 19. febrúar 1998, kl. 17:46:23 (4142)

1998-02-19 17:46:23# 122. lþ. 72.8 fundur 465. mál: #A skipan opinberrar nefndar um auðlindagjald# þál., SvG
[prenta uppsett í dálka] 72. fundur, 122. lþ.

[17:46]

Svavar Gestsson:

Herra forseti. Í fjarveru 1. flm. og fyrir hönd okkar flutningsmannanna vil ég þakka fyrir þá umræðu sem hér hefur farið fram. Hún hefur verið gagnleg og fróðleg og í raun og veru sýnir umræðan mjög vel að í grófum dráttum má segja að í þessari tillögu hafi tekist að skrifa niður eitthvað sem kannski nálgast það að geta heitið samnefnari allmargra aðila varðandi þessi mál, samnefnari fyrir þá umræðu sem hefur farið fram að undanförnu og hefur reyndar komið fram í yfirlýsingum forustumanna margra stjórnmálaflokka, m.a. stjórnarflokkanna, þ.e. að þeir geta vel hugsað sér að þróa málið á svipaðan hátt og hér er bent á. Satt að segja tel ég fulla ástæðu til að þakka fyrir þessa umræðu alveg sérstaklega í dag, bæði af hálfu þeirra sem talað hafa úr röðum stjórnarflokkanna en auðvitað líka þær ræður sem hafa verið fluttar af þingmönnum þingflokks jafnaðarmanna, en þeir hafa beitt sér mjög í þessum málum á undanförnum árum og missirum og mér fannst að þeir opnuðu í ræðum sínum fyrir umræðu um málið.

Ég tel að það sé rétt og tek undir það sem fram kom hjá hv. þm. Sturlu Böðvarssyni að þessi tillaga á sér þó nokkuð langan aðdraganda í Alþb. Hún hefur verið rædd á allmörgum fundum og hún er niðurstaða af vangaveltum um málin á flokkslegum vettvangi bæði á landsfundi og miðstjórnarfundum að undanförnu. Samt er ekki sanngjarnt að segja að við séum þar með að ákveða að skila auðu og að leggja málið í hendurnar á opinberri nefnd. Auðvitað er málið ekki þannig vaxið. Auðvitað er málið þannig að við munum í þessari opinberu nefnd, hvernig svo sem hún verður skipuð að öðru leyti, eins og öðrum nefndum og öðru sem við tökum þátt í, fylgja okkar grundvallarsjónarmiðum í stjórnmálum bæði að því er varðar hugsanlegt auðlindagjald og aðra þætti.

Ég vil aðeins líka vegna ábendingar hans eða spurningar um þetta hugsanlega gjald --- þá er ég einnig að svara hv. þm. Valgerði Sverrisdóttur --- víkja að greinargerð tillögunnar, þar sem segir svo neðst á bls. 2 og efst á bls. 3, með leyfi forseta:

,,Hér er m.a. lagt til að nefndin kanni möguleika á að nota auðlindagjald til að tryggja að afrakstur sameiginlegra auðlinda skili sér til þeirra sem hafa hagsmuna að gæta. Um gæti verið að ræða byggðarlög sem orðið hafa fyrir beinum skakkaföllum vegna ákvarðana sem teknar hafa verið um nýtingu sameiginlegrar auðlindar, hvort sem um er að ræða fisk í sjó, orku í rennandi vatni eða í jörðu eða jarðefnanámu. Einnig mætti líta til réttlætismála eins og að jafna orkuverð.``

Mér finnst að sú útskýring sem hér er ásamt greinargerðinni að öðru leyti og tillögunni sé svar að nokkru leyti við þeim fullyrðingum sem fram hafa komið um að við skilum þarna stefnulega auðu. Og að því er varðar útskýringu á tillögunni vil ég líka af okkar hálfu vísa til framsöguræðu formanns flokks okkar, Margrétar Frímannsdóttur, hv. 4. þm. Suðurl. Ég vil einnig vísa til þeirra ræðna sem hv. 5. þm. Vestf. og hv. 4. þm. Norðurl. e. hafa flutt hér varðandi skýringar á því efni sem í tillögunni er.

Ég vil einnig í þessum orðum mínum, herra forseti, vitna til þriggja setninga úr ræðu formanns Alþb. á miðstjórnarfundi flokksins sem haldinn var fyrir nokkrum dögum. Tillagan er niðurstaða miðstjórnarfundarins. Það er alveg rétt. Í setningarræðu sinni sagði formaðurinn þetta, með leyfi forseta:

,,Í tillögum okkar alþýðubandalagsmanna hefur aldrei verið talað um skattlagningu, hvað þá skattlagningu sem komi í stað þeirra skatta sem greiddir eru í dag.

Hér er því um að ræða tillögur sem eru allt annars eðlis en þær tillögur sem komið hafa fram hjá öðrum stjórnmálaflokkum.

Menn blanda þessum tillögum saman`` --- þ.e. hugmyndum okkar um könnun á auðlindagjaldi --- ,,við alls óskylda tillögu um veiðileyfagjald eða óhóflega skattlagningu á einn atvinnuveg umfram annan.``

Hér er algerlega skýrt að orði kveðið af hálfu hv. 1. flm. þessarar tillögu um að við erum ekki að gera tillögu um skattlagningu, hvað þá skattlagningu, eins og það er orðað hjá henni: ,,sem komi í stað þeirra skatta sem greiddir eru í dag.``

Ég vil síðan víkja að því, herra forseti, að hv. þm. Valgerður Sverrisdóttir nefndi spurninguna um það hvort skilgreiningin á jarðhitanum ætti að vera við 100 metra dýpi. Ég vil segja af því tilefni að mér finnst það vel geta verið álitamál hvort rétt sé að miða við þá tölu. Ég bendi á að stundum í umræðum að undanförnu hefur verið reynt að ná öðrum viðmiðunum og ég tel sjálfsagt að menn hljóti að ræða slíkt.

Ég tel einnig nauðsynlegt, herra forseti, í þessari ræðu minni að benda á að hér er lagt til að Alþingi kjósi níu manna nefnd. Það er mjög mikilvægt atriði. Þetta mál er lagt í hendur Alþingis. Það er Alþingi sem tekur ákvörðunina og auðvitað vill svo illa til með flokkaskipun á Alþingi að Sjálfstfl. hefði sjálfsagt nokkuð sterka stöðu í þeirri nefnd. Þó liggur ekkert fyrir um það að hann hefði formanninn í nefndinni vegna þess að Sjálfstfl. hefur sem betur fer ekki meiri hluta enn þá í þessari stofnun þannig að það er fyrirkomulagsatriði sem eftir er að ræða. En mér finnst mjög mikilvægt að hér er tillaga um að þetta mál verði sett í hendurnar á Alþingi en ekki í hendurnar á ríkisstjórn. Ég vek athygli á því að á upphafi þessarar tillögu og annarra þáltill. er grundvallarmunur. Það er fyrst og fremst vegna þess að við teljum að þetta sé pólitískt mál, verkefni flokkanna, verkefni þeirra fulltrúa sem hér sitja í þessari stofnun, mikið frekar en málefni framkvæmdarvaldsins. (Gripið fram í: ... ekki meiri hluti á þingi?) Að sjálfsögðu er meiri hluti á þingi en það næst líka oft samstaða á Alþingi eins og hv. þm. þekkir og hv. þm. veit það líka að meiri hlutarnir, ef ég má nota það orð í fleirtölu, geta verið margs konar. Að mati hv. þm. er t.d. væntanlega talsverður munur á núverandi meiri hluta og þeim síðasta, þ.e. fyrir síðustu kosningar, þó að skiptar skoðanir séu um það í salnum að öðru leyti.

Þess vegna tel ég mjög mikilvægt að Alþingi fjalli um þetta málefni og ég tel það reyndar höfuðatriði. Þess vegna finnst mér að segja megi að Alþb. hafi e.t.v. með þessari tillögu hitt á að skapa texta sem gæti orðið nokkuð víðtæk samstaða um og það er mikilvægt. Ég hef tekið eftir því að einn og einn maður hefur kannski dregið í efa að það væri mikið framfaraspor að samþykkja tillögu af þessu tagi. Ég dreg það ekki í efa eitt augnablik að það væri mikið framfaraspor og gæfuspor fyrir þjóðina að ná málinu inn á samstarfsvettvang eins og þá nefnd sem hér er gerð tillaga um.

Ég endurtek þakkir mínar fyrir þá ágætu umræðu sem hér hefur farið fram þar sem ég tel að ræðumenn hafi yfirleitt lagt sig fram um að fjalla um málið af sanngirni og hófsemi, svo notað sé orðalag úr tillögunni sjálfri.