Skipan opinberrar nefndar um auðlindagjald

Fimmtudaginn 19. febrúar 1998, kl. 17:56:48 (4144)

1998-02-19 17:56:48# 122. lþ. 72.8 fundur 465. mál: #A skipan opinberrar nefndar um auðlindagjald# þál., SvG (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 72. fundur, 122. lþ.

[17:56]

Svavar Gestsson (andsvar):

Herra forseti. Ég vil nú ekki kippa rekstrargrundvellinum undan öllum auglýsingastofum í landinu með því að upplýsa hv. þm. um hvað verður kosið í næstu kosningum í einstökum atriðum. Um það veit ég bara ekkert. En við teljum að nauðsynlegt sé að rannsaka þetta mál rækilega. Þess vegna er tillagan svona orðuð. Við viljum rannsaka alla þætti þess, m.a. efnahagsleg áhrif í heild og allt sem að þessu lýtur. Okkur dettur ekki í hug --- ég trúi því ekki að nokkrum manni hafi dottið það í hug í okkar flokki --- að setja könnunartillögu af þessu tagi sem þó felur í sér ákveðin pólitísk skilaboð, upp sem einhverja úrslitakosti. Við höfum sagt: ,,Þetta er tillaga um að kanna forsendur fyrir auðlindagjaldi.`` Við erum á móti skatti í þessu sambandi. Það liggur fyrir og hefur aftur og aftur verið sagt. Hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon rakti það mjög vel fyrr í dag hver væri munurinn að hans mati á skatti og gjaldi í þessu efni. Við erum því ekki að skrifa upp forsendur fyrir næstu kosningum, enda getum við það eiginlega ekki.