Stjórnarskipunarlög

Mánudaginn 23. febrúar 1998, kl. 15:08:05 (4147)

1998-02-23 15:08:05# 122. lþ. 73.8 fundur 152. mál: #A stjórnarskipunarlög# (nytjastofnar í hafi) frv., Flm. GGuðbj (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 73. fundur, 122. lþ.

[15:08]

Flm. (Guðný Guðbjörnsdóttir):

Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir frv. til stjórnarskipunarlaga um breytingu á stjórnarskrá lýðveldisins Íslands, nr. 33/1944, með síðari breytingum. Flm. auk mín eru Kristín Ástgeirsdóttir og Kristín Halldórsdóttir. Frumvarpsgreinin er aðeins ein fyrir utan gildistökugreinina og hljóðar svo, með leyfi forseta:

,,Á eftir 72. gr. kemur ný grein er verður 73. gr. og breytist röð annarra greina til samræmis við það. Greinin hljóðar svo:

Nytjastofnar á hafsvæði því sem fullveldisréttur Íslands nær til eru sameign íslensku þjóðarinnar. Kveðið skal á um sjálfbæra nýtingu þessara auðlinda til hagsbóta fyrir þjóðarheildina í lögum og stjórnvaldsfyrirmælum.``

2. gr. er svohljóðandi, með leyfi forseta:

,,Lög þessi öðlast þegar gildi.``

Þó er augljóst, því að hér er um stjórnarskrártillögu að ræða, að hún getur ekki orðið að lögum fyrr en í lok kjörtímabilsins.

Frumvarp þetta til stjórnarskipunarlaga var flutt á síðasta þingi en var eigi útrætt enda um stjórnarskrárbreytingu að ræða. Síðan þá hefur umræðan í þjóðfélaginu verið mikil um mikilvægi þess að nytjastofnar í hafinu í kringum Ísland haldist í þjóðareign eins og lög gera ráð fyrir. Þverpólitísk almannasamtök hafa verið mynduð sem hafa það að meginmarkmiði að fiskveiðiauðlindin verði sameign íslensku þjóðarinnar en ekki einstaklingseign þeirra sem hafa nýtingarréttinn hverju sinni. Ein mikilvæg leið til að tryggja það er að festa ákvæði um slíkt inn í stjórnarskrá eins og hér er lagt til.

Nytjastofnar á Íslandsmiðum eru langmikilvægasta náttúruauðlind íslensku þjóðarinnar. Í lögum um stjórn fiskveiða hefur frá árinu 1988 verið ákvæði um að þeir séu sameign íslensku þjóðarinnar. Með þessu frumvarpi til stjórnarskipunarlaga er verið að tryggja stjórnskipulega stöðu þess ákvæðis.

Þetta markmið var áréttað árið 1990 með því að setja í 3. málsl. 1. gr. laga um stjórn fiskveiða eftirfarandi ákvæði, með leyfi forseta:

,,Úthlutun veiðiheimilda samkvæmt lögum þessum myndar ekki eignarrétt eða óafturkallanlegt forræði einstakra aðila yfir veiðiheimildum.``

Þessi grein er því að mínu mati mjög traust í núverandi fiskveiðistjórnarlögum en henni væri hægt að breyta með einfaldri lagabreytingu. Það er ekki síst þess vegna sem ég tel mjög mikilvægt að setja í stjórnarskrá ákvæði um að þetta verði áfram eign þjóðarinnar því að núna heyrast ýmsar raddir um að æskilegt væri að breyta þessu ákvæði. Bæði eru það raddir í þá veru að þetta eigi að vera eignarréttarbundið samanber sjónarmið LÍÚ og fleiri en einnig er þau sjónarmið til að þetta eigi að vera eign ríkisins sem gengur kannski lengra í hina áttina. Ég mun koma nánar að þessum röksemdum á eftir.

Með ákvæði fyrri málsliðar 2. mgr. 1. gr. frv., þ.e. að auðlindin sé sameign þjóðarinnar, er verið að tryggja annars vegar forræði Íslendinga yfir auðlindinni og hins vegar að auðlindin sé sameign íslensku þjóðarinnar en ekki þeirra sem fara með nýtingarréttinn hverju sinni. Ástæða þykir til að tryggja stjórnskipulega stöðu þessa ákvæðis þó að það sé lögbundið bæði vegna þess hvernig núverandi fiskveiðistjórn er framkvæmd og hins að einföld lagabreyting dugar nú til að kollvarpa þessu ákvæði.

Síðara ákvæði greinarinnar kveður annars vegar á um að nýta beri auðlindina á sjálfbæran hátt, en með því er átt við að nýtingin mæti þörfum núverandi kynslóðar án þess að skerða möguleika kynslóða framtíðarinnar til sambærilegrar nýtingar. Í því sambandi skal minnt á hið mikla brottkast sem getur ógnað sjálfbærri nýtingu auðlindarinnar og á mikilvægi þess að rannsóknir á viðgangi auðlindarinnar séu öflugar. Hins vegar er yfirlýsing um að hagnýting auðlindanna eigi að vera til hagsbóta fyrir þjóðarheildina og ákveðin samkvæmt lögum og stjórnvaldsfyrirmælum. Ástæða þykir til að ítreka hagsmuni þjóðarheildarinnar í ljósi þess að heilu byggðarlögin geta misst lífsviðurværi sitt við kaup og sölu einstaklinga á aflahlutdeildum. Það getur einnig átt sér stað þegar aflahlutdeildum er úthlutað án endurgjalds til einstaklinga og fyrirtækja sem nýta ekki veiðirétt sinn en hagnast á því að selja hann eða leigja til þeirra sem stunda fiskveiðar, þeirra sem ekki fá veiðileyfi eða aflahlutdeild þrátt fyrir ákvæði 69. gr. stjórnarskrárinnar um að ekki megi leggja bönd á atvinnufrelsi manna nema almannaheill krefji. Spyrja má hvort það sé til almannaheilla að heilu byggðarlögin missi lífsviðurværi sitt.

[15:15]

Í greinargerðinni er farið dálítið tæknilega út í skilgreininguna á hugtakinu nytjastofnar og vísast þar í 1. mgr. 2. gr. laga nr. 38/1990, um stjórn fiskveiða. Sú grein er svohljóðandi:

,,Til nytjastofna samkvæmt lögum þessum teljast sjávardýr, svo og sjávargróður, sem nytjuð eru og kunna að verða nytjuð í íslenskri fiskveiðilandhelgi og sérlög gilda ekki um.``

Það hafsvæði sem fullveldisréttur nær nú til er skilgreint í lögum nr. 41 1. júní 1979, um landhelgi, efnahagslögsögu og landgrunn.

Er fullveldisréttur Íslands yfir landhelgi og efnahagslögsögu skilgreindur í 2. og 4. gr. laganna. Athygli skal vakin á því að ákvæði fyrri málsliðar 1. gr. frv. nær einnig til botnlægra fiskstofna á landgrunninu utan efnahagslögsögu sem fullvirðisréttur Íslands nær til skv. 6. gr. laga nr. 41/1979.

Virðulegi forseti. Frv. þetta er nær samhljóða frv. því sem hæstv. forsrh. flutti á síðasta kjörtímabili, 118. löggjafarþingi 1994--1995, sem stjórnarfrv. Alþfl. og Sjálfstfl. Samkvæmt stefnuyfirlýsingu núv. ríkisstjórnar er stefnt að því að festa í stjórnarskrá ákvæði um að auðlindir sjávar séu sameign íslensku þjóðarinnar. Af þessu má ætla að um efni þessa frv. sé víðtæk sátt í þinginu. Því vona ég að hæstv. sjútvrh., sem var hér í salnum rétt áðan, heyri orð mín, því ég vildi spyrja hann hvort ríkisstjórnin hyggst koma með frv. af þessu tagi á næsta þingi, þ.e. síðasta þingi fyrir kosningar, eða hvort hún hefur skipt um skoðun í þessum efnum. (Gripið fram í.) Er ráðherrann í húsinu?

(Forseti (GÁS): Hvaða ráðherra var það sem ... )

Það var sjútvrh.

(Forseti (GÁS): Hann er í húsinu já.)

Já, hann þarf gjarnan að vera við umræðuna á eftir. Þess vegna hefði hann þurft að heyra þessa spurningu mína og jafnvel fleiri sem koma hér á eftir. Er hann ekki við?

(Forseti (GÁS): Jú, það er verið að hafa upp á honum.)

Virðulegi forseti. Í framsögu minni fyrir þessu máli í febrúar 1997 vitnaði ég m.a. í prófessor Sigurð Líndal. Hann hélt því fram að 1. gr. laga um stjórn fiskveiða sé haldlaust ákvæði ef það eigi að tryggja raunverulegt eignarhald þjóðarinnar á fiskveiðistofnunum. Ástæðan að hans mati er sú, og ég vitna beint í hans orð, með leyfi forseta, ,,að þjóðin hafi engin þau eignarráð yfir nytjastofnunum sem eignaréttindum fylgja samkvæmt lagabókstaf og lagafræðum.``

Í framhaldi af þessu vil ég vitna í tveir greinar lögfræðinga, sem nú eru nýkomnar út, til þess að varpa ljósi á stjórnskipulega stöðu þessa ákvæðis og um leið velta fyrir mér hvort ganga beri enn lengra en hér er lagt til, þ.e. hvort ganga beri svo langt að lýsa eigi yfir eign ríkisins á þessum auðlindum en ekki bara þjóðarinnar.

Annar fræðimaðurinn sem ég ætla að vitna í er prófessor Þorgeir Örlygsson. Hann flutti erindi á ráðstefnu sem kallaðist Hver á kvótann? og hefur hann skrifað greinar um þau mál, m.a. í Morgunblaðið.

Hinn fræðimaðurinn er Skúli Magnússon og vitna ég í grein sem nýlega birtist í tímaritinu Úlfljóti. Í grein Skúla Magnússonar segir m.a., með leyfi forseta, á bls. 617--618:

,,Kvótakerfið var í upphafi einungis sett til bráðabirgða en síðan framlengt þrívegis með tímabundinni löggjöf. Þrátt fyrir að slík lagasetning geti tæpast talist æskileg með tilliti til réttaröryggis, er ljóst að við slíkt fyrirkomulag geta menn tæplega bundið miklar væntingar. Þegar kvótakerfið var fest í sessi árið 1990 með lögunum nr. 38/1990, um stjórn fiskveiða, var það gert með skýrum fyrirvara um að aflaheimildir væru ekki eign í skilningi eignarréttarákvæðis stjórnarskrár og löggjafinn hefði allt að einu frjálsar hendur um breytingar á fiskveiðistjórn án þess að baka sér bótaskyldu samkvæmt reglu 72. gr. stjórnarskrár.

Allt frá upphafi kvótakerfisins árið 1984 hafa aflaheimildir þannig verið háðar fyrirvörum, fyrst um tímabundið gildi og síðar um að þær mynduðu ekki stjórnarskrárvarinn eignarrétt. Þannig virðist ótvírætt að handhafar aflaheimilda hafa aldrei mátt ráða af lagasetningu um fiskveiðistjórn að samkvæmt henni hefðu þeir undir höndum, til ótakmarkaðs tíma, stjórnarskrárvarða hagsmuni. Sé á annað borð fallist á að löggjafinn geti með gildandi hætti gert fyrirvara um að réttindi, sem stofnað er til eða nánar eru afmarkaðir með löggjöf, njóti ekki verndar eignarréttarákvæðis stjórnarskrár, þykir einsýnt að svo hefur verið gert með gildandi hætti hvað varðar aflaheimildir. Samkvæmt framangreinu verður það niðurstaðan hér að aflaheimildir teljist ekki eign í skilningi 72. gr. stjórnarskrár.

Vegna 3. málsl. 1. gr. fiskveiðistjórnarlaga eru löggjafanum þannig engin takmörk sett í skerðingunum á aflaheimildum þrátt fyrir að þau séu fjárhagslega verðmæt réttindi, gangi kaupum og sölum og séu andlag eignarskatts. Slíkt íþyngjandi ákvæði ber augljóslega að skýra þrengjandi lögskýringu. Verður ákvæðið því ekki talið hagga við eðli aflaheimilda að öðru leyti svo sem í skiptum lögaðilja, við veðsetningu eða skattalega meðferð enda er tilgangur þess ekki sá. Eins og áður er minnst á haggar þessi niðurstaða ekki heldur við því að fiskveiðiréttur í sjó, án tillits til afmörkunar hans í aflaheimildir, njóti væntanlega eignarréttarverndar sem atvinnuréttur. Sú eignarréttarvernd er því þó ekki til fyrirstöðu að aflaheimildir séu afnumdar eða verulega skertar þrátt fyrir að með þessu séu löggjafanum settar almennar skorður um lagasetningu um fiskveiðar í sjó.``

Og síðar segir í niðurstöðukafla:

,,Aflaheimildir hafa öll mikilvægustu einkenni eignarréttinda. Þykir óhætt að fullyrða að aflaheimildir nytu verndar 72. gr. stjórnarskrár`` --- og athugið --- ,,ef ekki kæmi til áskilnaður löggjafans í aðra átt.``

Það er 1. gr. fiskveiðistjórnarlaganna sem að hans mati er algjör lykilgrein sem kemur í veg fyrir að hægt verði að líta á nytjastofnana sem einkaeign. Og áfram segir hann:

,,Ekki verður komist hjá því að telja að sá fyrirvari sem fram kemur í 3. málsl. 1. gr. fiskveiðistjórnarlaga hafi gildi á þá leið að löggjafinn geti breytt núgildandi fiskveiðistjórnun án þess að það leiði til bótaskyldu vegna missis eða skerðingar aflaheimilda. Samkvæmt þessu getur löggjafinn kollvarpað kvótakerfinu; kveðið á um nýtt fyrirkomulag um fiskveiðistjórn og þannig afnumið aflaheimildir án þess að handhöfum þeirra beri bætur samkvæmt 72. gr. stjórnarskrár.``

Skúli Magnússon kemst að þeirri niðurstöðu að 1. gr. fiskveiðistjórnarlaga sé mjög mikilvæg og það sé vegna hennar sem fiskiheimildirnar séu ekki einkaeign þeirra sem fara með nýtingarréttinn.

Prófessor Þorgeir Örlygsson kemst að sams konar niðurstöðu. Hann fer þó inn á svipaða röksemdafærslu og prófessor Sigurður Líndal gerir, þar sem hann segir m.a. í niðurstöðukafla sinnar greinar, með leyfi forseta:

,,Fiskstofnar á Íslandsmiðum og hafsvæðinu umhverfis landið eru verðmæti, sem ekki geta verið undirorpin einstaklingseignarrétti nokkurs manns. Þá verður heldur ekki talið að íslenska þjóðin eða þjóðarheildin geti verið eigandi í lögfræðilegri merkingu þess hugtaks, hvorki þessara réttinda né annarra, því þjóðin sem slík hefur engar þær heimildir sem almennt felast í eignarrétti.``

Þarna er hann sem sagt að koma inn á það að þó þetta sé ekki einkaeign geti þetta heldur ekki verið þjóðareign.

Í öðru lagi segir prófessor Þorgeir Örlygsson:

,,Sú yfirlýsing í 1. gr. fiskveiðistjórnarlaganna, að nytjastofnar á Íslandsmiðum séu sameign íslensku þjóðarinnar, er villandi að því leytinu til að hún gefur til kynna að með ákvæðinu sé verið að tryggja þjóðinni eignarrétt af einhverju tagi. Hins vegar felst í þessu orðalagi ákveðin markmiðsyfirlýsing, þ.e. að nýta beri fiskstofnana við landið til hagsbóta fyrir þjóðarheildina, auk þess sem segja má að í yfirlýsingunni felist nokkur árétting þeirrar fornu reglu að allir megi veiða í hafalmenningum innan þeirra marka sem lög segja til um hverju sinni.``

Ég held áfram að vitna í prófessor Þorgeir Örlygsson, en hann segir einnig í niðurstöðupunkti:

,,Í þeim fyrirvara 1. gr. fiskveiðistjórnarlaganna að úthlutun veiðiheimilda myndi ekki eignarrétt eða óafturkallanlegt forræði einstakra aðila yfir veiðiheimildum, ásamt framangreindri markmiðslýsingu, felast þau skilaboð löggjafans til handhafa veiðiheimildanna að þeir geti ekki litið á veiðiheimildirnar sem stjórnarskrárvarða eign sína. Dómstólar hafa nú þegar vikið að því í úrlausnum sínum að rétthafarnir hafi að lögum ekki tryggingu fyrir því að þeir geti síðar notað veiðiheimildirnar sér til tekjuöflunar þótt réttindin séu þeim verðmæt nú um sinn.``

Í fjórða lagi nefnir hann að löggjafinn geti afnumið núverandi stjórnkerfi, gefið veiðar frjálsar, breytt því eða tekið upp annað kerfi.

Í fimmta lagi --- og þann punkt vil ég ítreka alveg sérstaklega --- vekur prófessor Þorgeir Örlygsson athygli á og varpar því fram til umhugsunar, og ég vil gera það hér þó það sé ekki lagt til í þessu frv. til stjórnarskipunarlaga --- ,,hvort löggjafinn geti lýst yfir eignarhaldi ríkisins á nytjastofnum á Íslandsmiðum. Í því sambandi skal minnt á að við setningu vatnalaganna árið 1923 var hart tekist á um það hversu víðtækur hagnýtingarréttur vatna hér á landi ætti að vera. Var þá í aðalatriðum tekist á um það hvort ríkið ætti að eiga vatnsréttindin eða hvort sá réttur ætti að fylgja landareignum, þ.e. vera í einstaklingseigu.``

Á það skal minnt að nú er nákvæmlega tekist á um þetta í mörgum stórum málum í þinginu.

Áfram segir prófessor Þorgeir: ,,Segja má að niðurstaðan hafi orðið sú að einstaklingseignarrétturinn hafi sigrað. Með því fyrirkomulagi, sem vatnalögin frá 1923 bjóða, var komið á ákveðinni réttarstöðu. Því má velta fyrir sér hvort löggjafinn hafi ekki heimild til þess nú að kveða á um aðra skipan mála varðandi vatnsréttindi, t.d. lýst yfir eignarrétti ríkisins, en þá að sjálfsögðu með þeim fyrirvara að fullnægt sé áskilnaði stjórnarskrárinnar til slíkrar framkvæmdar.``

Síðan er vitnað frekar í ummæli sem féllu á 121. löggjafarþingi og prófessor Þorgeir segir enn fremur:

,,Hvort það er raunhæft að ætla að löggjafinn lýsi yfir eignarhaldi ríkisins á nytjastofnum á Íslandsmiðum, og hvað í slíkum eignarrétti mundi felast, skal ósagt látið, en þessu varpað fram til umhugsunar í tengslum við vatnsréttindi og auðlindir í jörðu. Í því sambandi vil ég minna á tiltekið orðalag sem fram kemur í dómi Hæstaréttar í Landmannaafréttardóminum síðari, þ.e. Hrd. 1981. 1584, en þar segir:

,,Í máli þessu leitar stjórnvald, fjármálaráðherra f.h. ríkisins, dómsviðurkenningar á beinum eignarrétti ríkisins á Landmannaafrétti. Alþingi hefur ekki sett lög um þetta efni, þó að það hefði verið eðlileg leið til að fá ákvörðun handhafa ríkisvalds um málefnið.````

[15:30]

Virðulegi forseti. Ég mun leggja til á eftir að þetta frv. fari til sérnefndar þeirrar sem var kosin áðan og þó að það sé ekki í frumvarpstextanum sjálfum mun ég mælast til þess og fylgja því eftir sjálf í þeirri nefnd að athugað verði mjög gaumgæfilega hvort ástæða sé til þess að lýsa því yfir að nytjastofnarnir í hafinu verði eign ríkisins ef það er svona veikt að mati lögfræðinga að kveða á um að þeir séu sameign þjóðarinnar.

Hér er fyrst og fremst lagt til að auðlindin verði áfram sameign þjóðarinnar vegna þess að ég tel mun styrkara að hafa það í stjórnarskrá en aðeins sem lagaákvæði af þeim ástæðum sem ég skýrði út áðan.

Virðulegi forseti. Fram undan eru mikil átök í íslenskum stjórnmálum um það hvort auðlindir þjóðarinnar eigi að vera í einkaeign eða í eign íslenska ríkisins. Ákvæðið um sameign íslensku þjóðarinnar er óskýrt lagalega að mati lögfræðinga, færustu sérfræðinga á því sviði, og því er mikið umhugsunarefni hvort taka eigi af allan vafa og kveða skýrar á og nefna íslenska ríkið í þessu sambandi.

Á áðurnefndri ráðstefnu, Hver á kvótann? var það sjónarmið sett fram af Ragnari Árnasyni prófessor og fleirum að æskilegra væri að aflaheimildir væru skýr einkaeign og féllu undir 72. gr. stjórnarskrárinnar, þ.e. að ríkið væri gert bótaskylt ef kerfinu væri breytt. Um þetta eru að sjálfsögðu margir sammála, m.a. LÍÚ sem hefur haft þessa stefnu. Um þetta sjónarmið segir Skúli Magnússon, með leyfi forseta, í áðurnefndri grein úr Úlfljóti:

,,... fyrirvari 3. málsl. 1. gr. fiskveiðistjórnarlaganna, hlýtur að vinna gegn þeim tilgangi laganna að skapa útgerðarmönnum ,,nauðsynlegar forsendur til að byggja á ákvarðanir um fjárfestingar og önnur þau atriði er langtímaáhrif hafa.`` Þvert á móti þurfa sjávarútvegsfyrirtæki ekki einungis að glíma við þá óvissu sem ávallt ríkir um viðgang fiskstofnanna heldur einnig hvort og hvernig þau munu halda aflaheimildum sínum til frambúðar.``

Þessi sjónarmið sýna að það er mjög eðlilegt í þeirri umræðu sem nú á sér stað og í þeim átökum sem eiga sér stað hér á þinginu um það hvort auðlindir þjóðarinnar eigi að vera í eigu ríkisins eða í einkaeign, að velta því upp hvort ástæða sé til að styrkja sameignarákvæði fiskveiðistjórnarlaganna betur, annaðhvort með því að taka það óbreytt upp í stjórnarskrá eins og hér er lagt til og þar með verði ekki hægt að breyta því nema rjúfa þing og hafa kosningar eða þá með því að kveða skýrar á um að nytjastofnarnir séu eign ríkisins. Þar sem nytjastofnarnir í hafinu eru langmikilvægasta náttúruauðlind þjóðarinnar tel ég afar brýnt að ákvæðið verði skoðað vel, sett í stjórnarskrá eins og það hljómar hér og að nefndin íhugi það vel, fari í gegnum þá umræðu núna, því að það er ljóst að þetta mál verður ekki að lögum á þessu þingi, hvort það beri að styrkja ákveðið enn frekar með því að kveða á um eign ríkisins.

Virðulegi forseti. Aðeins að lokum vil ég geta þess að ég hef verið að lesa ýmis gögn, m.a. Alþingistíðindi frá því að kvótakerfið komst á árið 1983. Einnig hef ég lesið nýlega mastersritgerð Óðins Gunnars Óðinssonar, Fagur, fagur fiskur í sjó, sem nýlega var til umræðu, m.a. í Morgunblaðinu, en þar segir Óðinn m.a. í ritgerð sinni, með leyfi forseta, og er þá að ræða um tímann áður en lögin voru sett 1983:

,,Ekki var mikið deilt um eignarhald á fiskimiðunum frekar en margt annað sem síðar átti eftir að verða uppspretta harðvítugra deilna milli manna eftir tilkomu fiskveiðistjórnarlaganna árið 1983. ,,Auðvitað á íslenska þjóðin öll fiskimið`` (Alþingistíðindi 1983--84 B 1987:2070), segir sjávarútvegsráðherra. Síðan bætir hann við.

,,Ég tek undir það`` --- þarna var Halldór Ásgrímsson sjútvrh. --- ,,og um það hefur aldrei verið pólitískur ágreiningur. ... Hins vegar er óþarfi að mínu mati að setja slíkt ákvæði inn í þessi lög. Það er nú svo að ekki verður allt ákveðið í lögum sem betur fer. (Alþingistíðindi 1983--84 B 1987:2070).````

Enda var ekkert slíkt ákvæði sett inn í lögin 1983. (Gripið fram í: Það var fellt.) Það er held ég alveg eins gott, þó að það hafi verið fellt 1983, að þetta kom inn 1988 og síðan enn styrkt 1990, miðað við þá niðurstöðu sem nú liggur fyrir að mati lögfræðinga.

,,Svar þetta kemur í framhaldi af tillögu Alþýðubandalagsins, 16. desember, um að leggja til að ,,[f]iskveiðilandhelgi Íslands og auðlindirnar innan hennar [séu] þjóðareign, sameign allra Íslendinga`` (Alþingistíðindi 1983--84 B 1987:1928) Svar ráðherra grundvallast að einhverju leyti á því að hann sér ekki fyrir þá breytingu, frekar en margir aðrir, sem átti eftir að verða á meðhöndlun auðlindarinnar sem eignar. Hann getur ekki séð hana vegna þess að hann eins og flestir aðrir er mótaður af og flæktur í viðhorf til hennar sem eiga sér langa sögu í íslenskri vitund, viðhorfi sem byggist á jöfnum rétti til aðgangs að henni. ,,Hvaða þörf er á að setja þetta?``, er kallað fram úr þingsal. ,,Hefur þetta verið eitthvað öðruvísi?`` (Alþingistíðindi 1983--84 B 1987:2003).``

Hér lýk ég tilvitnun minni, hæstv. forseti. Ég er rétt að ljúka máli mínu. Þetta viðhorf sýnir mér að það er eins gott að styrkja þetta ákvæði. Þetta viðhorf hefur verið með þjóðinni frá alda öðli og nú ber að styrkja þetta ákvæði með því að setja það inn í stjórnarskrá og því er þetta frv. flutt.

Er hæstv. ráðherra ekki í salnum?

(Forseti (GÁS): Hæstv. ráðherra er í húsinu og ég gerði honum viðvart fyrir margt löngu. Ég geng út frá því að hann hafi lagt við hlustir.)

Ef ekki, þá mun ég nota tækifærið við sjávarútvegsumræðuna á eftir og spyrja þessarar spurningar aftur.