Stjórn fiskveiða

Mánudaginn 23. febrúar 1998, kl. 15:39:57 (4148)

1998-02-23 15:39:57# 122. lþ. 73.9 fundur 189. mál: #A stjórn fiskveiða# (handfæraveiðar, veiðiskylda, krókaveiðar o.fl.) frv., 236. mál: #A stjórn fiskveiða# (brottfall laga) frv., 252. mál: #A rannsóknir í þágu atvinnuveganna# (Hafrannsóknastofnun o.fl.) frv., 263. mál: #A ráðstafanir í sjávarútvegsmálum# (breyting ýmissa laga) frv., 269. mál: #A áhrif veiðarfæra á vistkerfi hafsbotnsins# þál., 308. mál: #A rannsókn á áhrifum dragnótaveiða# þál., 487. mál: #A stjórn fiskveiða# (frysti- og vinnsluskip) frv., Flm. KHG (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 73. fundur, 122. lþ.

[15:39]

Flm. (Kristinn H. Gunnarsson):

Herra forseti. Ég mæli fyrir fjórum frv. sem öll lúta að sjávarútvegi. Það er frv. um breytingu á lögum um stjórn fiskveiða á þskj. 191., frv. um afnám sömu laga á þskj. 269, frv. um breytingu á lögum um rannsóknir í þágu atvinnuveganna á þskj. 297 og í fjórða lagi frv. um breytingu á lögum um stjórn fiskveiða á þskj. 830.

Í þessum fjórum lagafrv. eru lagðar til breytingar á þrennum lögum, lögum um stjórn fiskveiða, lögum um veiðar í fiskveiðilandhelgi Íslands og lögum um rannsóknir í þágu atvinnuveganna.

Fyrr á þessu þingi flutti ég frv. um breytingar á lögum um tekjuskatt og eignarskatt sem kvað á um bann við afskriftum aflahlutdeildar en efnisatriði þess frv. hafa þegar náð fram að ganga að nokkru leyti.

Þá er rétt að geta þáltill. um skipan opinberrar nefndar um auðlindagjald sem allir þingmenn þingflokksins flytja og frv. til stjórnarskipunarlaga flutt af sjö þingmönnum flokksins sem kveður á um þjóðareign á auðlindum í sjó og á hafsbotni.

Loks vil ég minna á tvö önnur þingmál sem eru á dagskrá í dag, annars vegar þáltill. Hjörleifs Guttormssonar um rannsóknir á áhrifum veiðarfæra á vistkerfi hafsbotnsins og hins vegar frv. um ráðstafanir í sjávarútvegsmálum flutt af þremur þingmönnum flokksins undir forustu hv. þm. Steingríms J. Sigfússonar.

Í því frv. eru lagðar til breytingar á þrennum lögum, lögum um stjórn fiskveiða, lögum um umgengni um nytjastofna sjávar og lögum um tekjuskatt og eignarskatt.

Samtals hafa verið flutt níu þingmál sem snúa að margvíslegum viðfangsefnum í sjávarútvegi, eignarhaldi, skattlagningu, umgengni um nytjastofna, stjórn veiðanna og rannsóknir. Málatilbúnaður þessi endurspeglar mikla umræðu í þjóðfélaginu þar sem ólíkir hagsmunir rekast á og undirstrikar að fjarri því fer að sátt ríki í þjóðfélaginu um sjávarútvegsmálin.

Innan Alþb. er unnið að endurskoðun sjávarútvegsstefnu flokksins og er ljóst að verulegar áherslubreytingar eru í vændum svo sem lesa má í landsfundarsamþykkt flokksins frá því í nóvember sl.

Í þeim fjórum frv. sem ég mæli nú fyrir eru annars vegar lagðar til verulegar breytingar á núgildandi löggjöf um stjórn veiðanna og hins vegar grundvallarbreytingar um skipan þeirra til framtíðar. Í síðarnefnda flokknum eru tvær megintillögur. Fyrri tillagan lýtur að rannsóknum í þágu atvinnuveganna. Þar er lagt til að yfirstjórn Hafrannsóknastofnunar verði færð undir umhvrn. og þar með hafrannsóknir, friðun og ákvörðun um heildaraflamark úr einstökum fiskstofnum. Þá mun umhvrn. gera tillögur um almennt skipulag veiðanna, setja almennar reglur um notkun veiðarfæranna og veita ráðgjöf um friðunaraðgerðir og notkun veiðarfæra. Sjútvrn. mun eftir sem áður annast stjórn veiðanna innan framangreindra marka og hafa yfirumsjón með eftirliti með veiðum og mat á sjávarafurðum.

Með þessu er lögð ríkari áhersla en verið hefur á umhverfisþátt rannsókna og stjórn á álagi við hagnýtingu auðlindanna. Þetta er ítrekað með því að færa mikilvægar ákvarðanir og tillögugerð úr höndum beinna hagsmunaaðila til umhvrn. Ekki er eðlilegt að hagsmunaaðilar geti ráðið miklu um ákvörðun sem þá varðar fjárhagslega þegar í húfi eru náttúruauðlindir sem þjóðin byggir afkomu sína á í svo ríkum mæli sem raun ber vitni. Það er fullkomlega fráleitt að stórútgerðarmenn sitji í stjórn Hafrannsóknastofnunar og ráði þar miklu um tillögur stofnunarinnar um veiði úr einstökum stofnum.

Eitt er víst að ekki hafa þeir sóst eftir því að sitja í stjórn stofnunarinnar til þess að hafa engin áhrif. Ástand einstakra fiskstofna um þessar mundir, svo sem karfa og grálúðu, er skýrt dæmi um hagsmunagæsluna. Þá vekur það undrun að Hafrannsóknastofnun skuli lítið gera úr brottkasti afla og verja aflakvótakerfið baki brotni. Í sjávarútvegi eru fleiri hagsmunir en hagsmunir stórútgerðarmanna og LÍÚ og fræði- og vísindastofnun verður að geta skilið sig frá einstökum hagsmunahópum. Æ sér gjöf til gjalda, og það skyldi enginn láta sér detta í hug að Kristján Ragnarsson og félagar skattleggi sjálfa sig um liðlega 1 milljarð kr. til þess að gefa Hafrannsóknastofnun nýtt og fullkomið skip án þess að ætla sér að fá eitthvað í staðinn.

[15:45]

Allir sjá að ákvörðun í Hafrannsóknarstofnun getur haft áhrif á gengi hlutabréfa í stórum útgerðarfélögum eins og Granda. Framkvæmdastjóri þess fyrirtækis ætti því ekki að sitja í stjórn Hafrannsóknastofnunar eins og nú er. Það er algert grundvallaratriði að skilja stofnunina frá hagsmunaaðilum eins og lagt er til í frv. mínu og hv. þm. Hjörleifs Guttormssonar.

Í því frv. eru almennar rannsóknir og tilraunir er snerta gróðurvernd og skipulag landnýtingar færðar undir forræði umhvrn. frá landbrn. Samhliða er gert ráð fyrir að yfirstjórn Rannsóknastofnunar landbúnaðarins verði færð frá atvinnuvegaráðuneytinu til umhvrn. Áhersla er lögð á að með rannsóknum verði aflað hlutlægra upplýsinga sem hægt sé að leggja til grundvallar við skipulag landnotkunar og nýtingar einstakra þátta. Eftir sem áður væri nýting lands í þágu landbúnaðar á verksviði landbrn. og í framtíðinni væntanlega á grundvelli vandaðs skipulags.

Síðari tillagan um grundvallarbreytingu er frv. um afnám laga um stjórn fiskveiða sem ég flyt ásamt hv. þm. Margréti Frímannsdóttur og Svavari Gestssyni.

Nauðsynlegt þykir að fella niður öll réttindi til veiða samkvæmt gildandi lögum og endurúthluta á grundvelli nýrra laga. Ástæður þess eru einkum að grundvöllur upphaflegrar úthlutunar veiðiheimilda hefur raskast mjög. Dreifing þeirra eftir byggðarlögum og útgerðarflokkum hefur raskast svo við það verður ekki unað lengur. Með samþykkt frv. tekur Alþingi af öll tvímæli um forræði sitt til lagasetningar um nýtingu fiskstofna og gildi núgildandi laga um þjóðareign á fiskstofnunum verður óumdeilt. Gildandi lög hafa, að mati flutningsmanna, ekki leitt til einkaeignarréttar á fiskstofnum eða nýtingu þeirra og því er hægt að fella niður réttindin bótalaust. Stöðugar deilur eru uppi um núgildandi kerfi og ekki sjáanlegt á því verði lát.

Augljóst er að kerfið ver sérlega vel hagsmuni stórútgerða, einkum frysti- og vinnsluskipa. En bátaútgerð og ísfiskskip eiga í vök að verjast. Undanfarin ár hefur hallað mjög á flesta sjávarútvegsstaði landsins og fylgir sú hnignun minnkandi hlut landvinnslunnar í botnfiskafla og vaxandi hlut sjóvinnslunnar. Minnkandi hlutur landvinnslunnar er í beinu sambandi við undanhald dagróðra- og ísfiskveiða.

Athyglisvert er að á þessu árabili hefur verið beitt fádæma niðurskurði í veiðum á þorski og veltir það upp spurningunni um samband milli niðurskurðarins og styrkari stöðu stórútgerðarinnar.

Margir hafa velt því fyrir sér hvort ákvörðun um niðurskurð á þorskveiðum hafi gert frystiskipum kleift, með hjálp lagaákvæða þeim í vil, að kaupa til sín aflaheimildir bátaflotans. Enn fremur er rétt að benda á að verð á aflaheimildum í þorski, bæði varanlegum og leiguverð, hefur stigið stórum á niðurskurðartímabilinu. Ef veiði á þorski yrði aukin verulega eins og aflabrögð benda til að rétt væri, mundi verð aflaheimildanna falla umtalsvert. Það kæmi fyrst og fremst við pyngju þeirra sem keypt hafa háu verði og þeirra sem hafa lánað til kaupanna, þ.e. bankakerfisins. Ekki þarf að fara mörgum orðum um að hagsmunir rekast illilega á í óbreyttu kerfi og skelfilegt er ef sérhagsmunir fárra valda því að stöðugum niðurskurði er beitt í þorskveiðum. Þá eru almannahagsmunirnir látnir víkja fyrir sérhagsmunum.

Í greinargerð með frv., sem landsfundur Alþb. hefur lýst stuðningi við, er gerð grein fyrir meginlínum í stjórn fiskveiða sem leysa á núverandi löggjöf af hólmi. Ný löggjöf þarf að gera nýjum mönnum kleift að hefja útgerð og nýta legu sjávarbyggða við nálæg fiskimið með öflugum strandveiðum. Þá þarf löggjöfin að nýta kosti stórútgerðar og loks að endurspegla áherslu á að mengun hvers konar verði sem minnst við sjósóknina. Umgengni um lífríki hafsins miðist við að spilla því ekki og að veiðar á fiskstofnunum takmarkist við að ganga ekki á stofnstærð umfram endurnýjunargetu, og raska ekki jafnvæginu í lífríkinu.

Til að ná þessum markmiðum þarf að skilja á milli strandveiða og stórútgerðar. Í strandveiðunum verði opið kerfi sem byggist að mestu leyti á sóknarstýringu og gerir ráð fyrir áætluðu heildaraflamagni en togarar og önnur stórvirk skip verði áfram í aflamarkskerfi með framseljanlegum aflaheimildum að einhverju leyti. Hlutur strandveiða gæti verið um 40% og hlutur aflamarkskerfisins um 60% af botnfiskveiðunum. Veiðum yrði stjórnað þannig að strandveiðar væru á miðum innan 20--30 mílna og aðrar veiðar að mestu þar fyrir utan. Til strandveiða mundu teljast allar veiðar með önglum. Settar yrðu reglur um hámarksútivist hvers skips og um sóknargetu báta sem mættu stunda strandveiðar. Veiðiréttindi afmarkist við hvorn útgerðarflokkinn um sig og geti ekki flust á milli þeirra. Um veiðar uppsjávarfiska giltu að nokkru leyti aðrar reglur og lytu einkum aflamarksstjórnun. Flutningsmenn gera ráð fyrir að atvinnugreinin greiði kostnað við eftirlit og hagræðingu og hluta af kostnaði við rannsóknir, en að öðru leyti gildi almenn skattalög.

Með frv. er leitast við að líta á almenna hagsmuni í stað þess að einblína á hagsmuni hluta útgerðarinnar. Nauðsynlegt er að taka inn í löggjöfina hagsmuni þeirra sem stunda róðra á bátum og hagsmuni fólks í landi. Stjórna þarf sjávarútvegi með heildarhagsmuni í huga. Þróunin í sjávarplássunum undanfarinn áratug segir allt sem segja þarf um núgildandi löggjöf.

Ég vil, herra forseti, vitna hér í bréf, sem mér barst fyrir rúmu ári, frá Skipstjóra- og stýrimannafélaginu Sindra á Austurlandi. Á aðalfundi þess, sem haldinn var milli jóla og nýárs 1996, var gerð ályktun um sjávarútvegsmál sem er mjög athyglisverð. Hún er einkum athyglisverð í ljósi þess að á Austurlandi hefur verið að finna einna dyggastu stuðningsmenn núverandi kerfis. Ég vil leyfa mér að lesa upp hluta af því bréfi sem okkur þingmönnum barst frá félaginu, með leyfi forseta:

,,Ein er sú spurning sem brennur á mönnum, hvort byggja eigi landið allt, landið Ísland eða ekki. Hverjir eiga að lifa og hverjir eiga að deyja? Ef tekin er samlíking við sauðfjárbóndann sem velja þarf sér búsmala til lífs að hausti þá tekur bóndinn ákvörðun og byggir upp sína lífsbjörg en stjórnmálamennirnir horfa í gaupnir sér og gera ekkert, hugsa bara um hugtökin hagræðing og sameining. Hér er aðeins horft til fárra, stórra, útvaldra en ekki til fjöldans sem er dreifður um hinar strjálu byggðir landsins. Ef fram heldur sem horfir kæmi mönnum ekki á óvart að innan fárra ára verði hér harðvítug átök um sameign þjóðarinnar. Það sem við blasir er nauðsyn þess að kvótaúthlutunin verði tekin til endurskoðunar og endurúthlutunar og allir sitji við sama borð hvort sem menn hafa keypt eða ekki. Það var aldrei ætlun manna með setningu kvótalaganna að meginmarkmið laganna væri að braska með sameignina.

Í ljós hefur komið hér á félagssvæði Sindra að atvinnuöryggi er afskaplega lítið. Mönnum hefur verið sagt upp og skipin seld eða þeim lagt. Menn standa uppi atvinnulausir en í fjötrum eigna sinna sem eru verðlausar því enginn vill kaupa eignir á stað þar sem enga atvinnu er að hafa. Byggðarlögin fara í eyði og eftir standa minnisvarðar um mistök stjórnmálamanna sem stjórna áttu. Auðlindin er sameign þjóðarinnar, það er sagt, en er aðeins í orði, ekki á borði. Auðlindin færist æ meir á fárra manna hendur og þeir stóru verða stærri og sterkari og þeir smáu smærri og veikari. Og þeir stóru bíða eftir að hremma þann smáa. Við höfum á tilfinningunni að ráðamenn þjóðarinna gleðjist mest yfir því er einn smár verður hremmdur af þeim stóra. Krafan í dag er uppstokkun og endurúthlutun kvótans á jafnréttisgrundvelli.``

Lýk ég þá tilvitnun í bréf frá Skipstjóra- og stýrimannafélaginu Sindra á Austurlandi. Þar koma fram sömu sjónarmið og ég hef bent á að liggi að baki frv. um afnám laganna um stjórn fiskveiða.

Loks er að geta tveggja frv. þar sem viðfangsefnið er einkum lagfæringar á gildandi löggjöf um stjórn fiskveiða. Þar er um að ræða tillögur um takmörkun á framsali, upplýsingaskyldu um verð á keyptum veiðiheimildum, styrktan forkaupsrétt sveitarfélaga, jöfnun á ákvæðum varðandi álag vegna útflutnings og útreikning á notuðu aflamarki milli frystiskipa og vinnsluskipa annars vegar og ísfisksskipa og dagróðrabáta hins vegar. Eins eru þar tillögur um bann við veiðum vinnsluskipa og frystiskipa innan 30 mílna, ívilnun vegna önglaveiða, ívilnun til smábáta á aflamarki minni en 6 tonn og loks er kveðið á um rétt sjómanna til handfæraveiða, enda hafi þeir verið a.m.k. 20 ár á sjó.

Fyrst vil ég nefna ákvæði annars frv. um rétt manna til að stunda veiðar með handfærum hafi þeir stundað sjómennsku í 20 ár eða lengur. Ákvæði þetta er grundvallarbreyting að því leyti að kveðið er á um rétt manns en ekki skips. Yrði tillaga þessi að lögum fengju sjómenn hlutdeild í veiðunum í fyrsta sinn og þannig væri viðurkennt að starf á sjó veitti rétt til sjósóknar og rétt til að nýta fiskimiðin. Miðað er við að leyfið verði óframseljanlegt og bundið viðkomandi sjómanni og getur hann nýtt sér leyfið á bát sem er minni en 6 brúttórúmlestir og tekur leyfið eingöngu til handfæraveiða.

Önnur tillagan setur sem skilyrði að til þess að Fiskistofa samþykki framsal á þorskaflahámarki, aflamarki eða aflahlutdeild, komi fram upplýsingar um verð sem greitt kann að vera fyrir veiðiheimildirnar. Með þessu ákvæði fá stjórnvöld ítarlegar upplýsingar um verðmæti á þessum markaði og umfang viðskiptanna. Þessar upplýsingar ættu að nýtast vel til að koma í veg fyrir þátttöku sjómanna í kaupum á veiðiheimildum.

Þriðja tillagan takmarkar framsal þannig að veiðiskylda skips er aukin og miðað við 50% ár hvert í stað þess að miða við 50% annað hvert ár. Auk þess er gerð krafa um að veiðiskyldan nái til hverrar fisktegundar í stað þess að miðast við 50% af veiðiheimildum mældum í þorskígildum. Síðan þetta frv. var lagt fram hefur orðið mikil breyting í umræðunni hvað þetta varðar og gera sjómenn nú kröfur um enn meiri veiðiskyldu.

Fjórða tillagan veitir 50% ívilnun á aflamarki aflamarksbáta, ef veitt er með línu eða handfæri, þegar veiðiferð stendur skemur en einn sólarhring og landað er til vinnslu innan lands. Ákvæðinu er ætlað að stuðla að veiðum með línu og handfæri og koma þannig með ferskan fisk að landi sem telst hvað bestur til verkunnar. Ég vil minna á samþykkt síðasta fiskiþings í nóvember sl. sem lagði sérstaka áherslu á þetta. Auk þess minni ég á niðurstöðu útflutningshóps Félags íslenskra stórkaupmanna sem lagði áherslu á að línufiskur fengist vegna þess að verðmætustu saltfiskmarkaðir Íslendinga á Spáni, Ítalíu og Grikklandi, vildu eingöngu kaupa saltfisk sem unninn væri úr fiski veiddum á króka.

[16:00]

Fimmta ákvæðið jafnar aðstöðu ísfisksskipa og báta gagnvart vinnsluskipum og frystiskipum með því að gildandi ákvæði um álag á útfluttan óunninn fisk, sem beitt er gagnvart fyrri útgerðarflokknum, er látið ná yfir síðarnefnda flokkinn líka. Verður að telja óeðlilegt að ekki sé beitt álagi þegar óunninn þorskur er fluttur út frosinn eða ferskur frá vinnsluskipi en 20% álagi ef þorskurinn kemur upp úr ísfiskstogara. Rétt er að sambærilegar reglur gildi að þessu leyti.

Sjötta tillagan kveður á um ívilnun til báta og ísfisksskipa á lönduðum afla til vinnslu innan lands um 25% og er sett fram til að jafna stöðu þessara útgerða gagnvart vinnsluskipum og frystiskipum en þau hafa verulegt hagræði af því að aflamark þeirra er reiknað út frá lönduðum afurðum í stað afla upp úr sjó. Þar vil ég minna á samþykkt fiskiþings í nóvember sl. sem skorar á stjórnvöld að breyta reglum þannig að landaður botnfisksafli til vinnslu innan lands teljist aðeins að hluta í kvóta viðkomandi skips.

Í sjöunda lagi er lagt er til að frysti- og vinnsluskipum verði gert að veiða utan 30 mílna. Telja verður það óskynsamlega stjórn veiða að stærstu og öflugustu skipum landsmanna sé haldið til veiða á grunnslóðarmiðum. Slík skip eiga auðvitað að vera á fjarlægum miðum utan 200 mílna. Eðlilegast er að mið næst landi séu nýtt af bátaflotanum og afli unninn í landi í nálægum verstöðvum. Ódýrast er að nýta fiskimiðin frá nálægum byggðarlögum og engum vafa er undirorpið að með þessari stýringu er dregið verulega úr mengun sem verður samfara sjósókninni.

Í áttunda lagi er bætt er við gildandi ákvæði laganna um forkaupsrétt sveitarfélaga þannig að þau ákvæði nái upphaflegum tilgangi sínum að gefa heimamönnum kost á að halda aflaheimildum í byggðarlaginu þegar útgerðarmaður hefur ákveðið að selja þær burt. Lagt er til að forkaupsrétturinn nái til aflahlutdeildar skipsins eða þorskaflahámarksins í stað þess að afmarkast við skipið eingöngu eins og nú er. Bætt er við ákvæði um að forkaupsrétturinn geti náð til sölu milli aðila innan sveitarfélagsins þegar er bersýnilega verið að stofna hlutafélag til þess að sniðganga forkaupsréttarákvæðið. Loks er fellt brott það ákvæði laganna að forkaupsréttarákvæðið nái ekki til sölu skips á opinberu uppboði og forkaupsréttarákvæðið útvíkkað sem því nemur.

Níunda tillagan gerir ráð fyrir að smábátar á aflamarki geti verið á handfæraveiðum síðustu tvo mánuði fiskveiðiársins og veitt utan aflamarks. Er tillagan fram komin vegna sérlega slæmrar stöðu þessa útgerðarflokks sem hefur að allra dómi farið illa út úr breytingum síðustu ára og nauðsyn ber til að styrkja rekstrargrundvöll þeirra.

Herra forseti. Ég hef lokið að mæla fyrir þessum fjórum frumvörpum og legg til að þremur þeirra, þ.e. þeim sem lúta að breytingum á lögum um stjórn fiskveiða, verði vísað til 2. umr. og sjútvn. og frv. um breytingar á lögum um rannsóknir í þágu atvinnuveganna verði vísað til 2. umr. en ég hef ekki að sinni handbæra tillögu um hvert eðlilegast væri að vísa málinu þar sem um er að ræða breytingu er lýtur bæði að stofnunum innan sjávarútvegs og landbúnaðar. Ég bið því forseta að láta athuga það mál og hafa tillögu um nefndarvísan þegar til þess kemur að greiða atkvæði um það.