Stjórn fiskveiða

Mánudaginn 23. febrúar 1998, kl. 17:10:10 (4155)

1998-02-23 17:10:10# 122. lþ. 73.9 fundur 189. mál: #A stjórn fiskveiða# (handfæraveiðar, veiðiskylda, krókaveiðar o.fl.) frv., 236. mál: #A stjórn fiskveiða# (brottfall laga) frv., 252. mál: #A rannsóknir í þágu atvinnuveganna# (Hafrannsóknastofnun o.fl.) frv., 263. mál: #A ráðstafanir í sjávarútvegsmálum# (breyting ýmissa laga) frv., 269. mál: #A áhrif veiðarfæra á vistkerfi hafsbotnsins# þál., 308. mál: #A rannsókn á áhrifum dragnótaveiða# þál., 487. mál: #A stjórn fiskveiða# (frysti- og vinnsluskip) frv., Flm. GE (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 73. fundur, 122. lþ.

[17:10]

Flm. (Gísli S. Einarsson) (andsvar):

Herra forseti. Mér er kunnugt um að mikil veiði er nú í Breiðafirði, mikil veiði í dragnót og mikil veiði á línu og það má kannski rekja til aðgerða okkar varðandi verndun þorsksins sérstaklega. Það veit hv. þm. Sturla Böðvarsson mætavel eins og ég að leiða má líkur að því að vegna þessarar verndunar þorskstofnsins sé orðið mikið af þorski og það sannarlega mikið í Breiðafirði.

Varðandi notkun dragnótar á ákveðnum svæðum við landið þá er engin fullyrðing, herra forseti, í þessari þáltill. sem segir á neinn hátt að dragnót sé skaðleg. Hins vegar er farið fram á --- og það er ágætt að hæstv. sjútvrh. heyri það --- að nákvæmlega sé skoðað hver áhrifin séu. Getur verið að það sé vegna dragnótarinnar að smálúðan er gjörsamlega horfin úr Faxaflóa? Það er sagt: ,,getur verið``. Og það er ástæða til að skoða það vegna þess að þekktir skipstjórar sem voru með dragnót í Faxaflóanum í áratugi telja að lúðunni hafi verið eytt með dragnót. Ég hef hvergi sett það fram sem fullyrðingu að það sé vegna dragnótar en ég hef spurt: Af hvaða ástæðu? Það má vel vera, herra forseti, að kannski hefði verið rétt að gera betur grein fyrir þessari tillögu. En ég benti á að þetta væri hluti af því sem sérstaklega er verið að fjalla um í tillögu frá hv. þm. Hjörleifi Guttormssyni. Hér eru mörkin sett við veiðarfærið dragnót. Ég vil að það sé skoðað sérstaklega og bendi þá á þær deilur sem eru í gangi í Faxaflóanum og verið hafa í áraraðir. Ég tel að þeim málum þurfi að ljúka.