Stjórn fiskveiða

Mánudaginn 23. febrúar 1998, kl. 17:38:07 (4159)

1998-02-23 17:38:07# 122. lþ. 73.9 fundur 189. mál: #A stjórn fiskveiða# (handfæraveiðar, veiðiskylda, krókaveiðar o.fl.) frv., 236. mál: #A stjórn fiskveiða# (brottfall laga) frv., 252. mál: #A rannsóknir í þágu atvinnuveganna# (Hafrannsóknastofnun o.fl.) frv., 263. mál: #A ráðstafanir í sjávarútvegsmálum# (breyting ýmissa laga) frv., 269. mál: #A áhrif veiðarfæra á vistkerfi hafsbotnsins# þál., 308. mál: #A rannsókn á áhrifum dragnótaveiða# þál., 487. mál: #A stjórn fiskveiða# (frysti- og vinnsluskip) frv., Flm. GE (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 73. fundur, 122. lþ.

[17:38]

Gísli S. Einarsson (andsvar):

Herra forseti. Ég vil um leið og ég fagna undirtektum hv. þm. Einars K. Guðfinnssonar varðandi þessi mál sem hér eru til umræðu, bæði það mál sem ég mæli fyrir ásamt þeim sem aðrir hafa lagt til í umræðuna, benda á að í máli hv. þm. kom fram einhver harðasta gagnrýni stjórnarliða á því fiskveiðistjórnarkerfi sem við búum við. Ég vek sérstaka athygli á því. Og þegar hv. þm. segir að rétt væri að beina veiðigetunni af elsta fiskinum í þorskstofninum, hvað á hv. þm. þá við? Eigum við að hætta að nota 9 tommu net? Eigum við að nota 8 tommu neta eða 7,5 tommu þorskanet til veiða? Hvað leggur hv. þm. til í þessu máli?

Mér þótti umræðan um loðnuveiðarnar mjög athyglisverð. Hvað eigum við að segja við þá aðila sem gera út af suðvesturhorninu og hafa gert ráð fyrir að loðnan hegði sér á sama máta og verið hefur, þ.e. að hún komi, jafnvel í Faxaflóann, og þeir nýti sér þá möguleika sem stutt sigling í löndunarhöfn og í heimahöfn gefur þeim? Ég segi bara: Er það rétt gagnvart þeim sem hafa geymt veiðiheimildir sínar, stundað t.d. síldveiðar fram til áramóta, og geymt veiðiheimildir á loðnunni fram á þennan tíma? Þetta er stór spurning. Og þetta kollvarpar fiskveiðistjórnarkerfinu eins og það hefur verið rekið. Þá vil ég skoða það í miklu víðara samhengi en verið er að ræða um gagnvart aðeins einni fisktegund sem er verið að veiða. Það er raunverulega miklu meira sem ég þarf að koma að en ég geri það á eftir í öðru andsvari.