Stjórn fiskveiða

Mánudaginn 23. febrúar 1998, kl. 17:42:20 (4161)

1998-02-23 17:42:20# 122. lþ. 73.9 fundur 189. mál: #A stjórn fiskveiða# (handfæraveiðar, veiðiskylda, krókaveiðar o.fl.) frv., 236. mál: #A stjórn fiskveiða# (brottfall laga) frv., 252. mál: #A rannsóknir í þágu atvinnuveganna# (Hafrannsóknastofnun o.fl.) frv., 263. mál: #A ráðstafanir í sjávarútvegsmálum# (breyting ýmissa laga) frv., 269. mál: #A áhrif veiðarfæra á vistkerfi hafsbotnsins# þál., 308. mál: #A rannsókn á áhrifum dragnótaveiða# þál., 487. mál: #A stjórn fiskveiða# (frysti- og vinnsluskip) frv., Flm. GE (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 73. fundur, 122. lþ.

[17:42]

Gísli S. Einarsson (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka fyrir þessar skýringar. Það er gott að eiga þær í handraðanum ef til kemur varðandi loðnuveiðar. Ég hef ekki gert mér grein fyrir því að mögulegt væri að gera þetta svona, að taka bara kerfið aftur upp á nýtt. Þá á það alveg eins við um aðra fiskstofna. Mér finnst það koma til greina. Ég vil bara skoða það.

Ég vil að lokum beina máli mínu til hv. þm. Einars K. Guðfinnssonar, hvort hann geti fallist á að það sé nauðsyn að skipta veiðisvæðunum við landið upp í ákveðin hólf gagnvart ákveðnum tegundum skipa og hvort rétt sé að sums staðar við landið ætti t.d. að vera 24 mílna lögsaga fyrir strandveiðiflotann, hvort ísfiskstogararnir ættu að vera á ákveðnu svæði og hvort við ættum að skoða heimildir þeirra út frá því. Og hvort frystiskipin ættu að hafa einhverjar ákveðnar aðrar takmarkanir, t.d. varðandi það hvar þeir mega veiða í lögsögunni, hvort við eigum að halda þeim fyrir utan 30 mílur eða annað. Síðan tel ég að kannski væri ástæða til að skoða hvort við ættum að takmarka fjölda af t.d. handfæra\-rúllum um borð í smábátunum miðað við fjölda manna á þeim, hvort við ættum að takmarka þann fjölda línubala sem einn maður má róa með og hvort við ættum að fara út í þá takmörkun frekar en aflatakmörkunina sem beitt hefur verið undanfarið.