Stjórn fiskveiða

Mánudaginn 23. febrúar 1998, kl. 17:58:05 (4164)

1998-02-23 17:58:05# 122. lþ. 73.9 fundur 189. mál: #A stjórn fiskveiða# (handfæraveiðar, veiðiskylda, krókaveiðar o.fl.) frv., 236. mál: #A stjórn fiskveiða# (brottfall laga) frv., 252. mál: #A rannsóknir í þágu atvinnuveganna# (Hafrannsóknastofnun o.fl.) frv., 263. mál: #A ráðstafanir í sjávarútvegsmálum# (breyting ýmissa laga) frv., 269. mál: #A áhrif veiðarfæra á vistkerfi hafsbotnsins# þál., 308. mál: #A rannsókn á áhrifum dragnótaveiða# þál., 487. mál: #A stjórn fiskveiða# (frysti- og vinnsluskip) frv., Flm. KHG (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 73. fundur, 122. lþ.

[17:58]

Flm. (Kristinn H. Gunnarsson) (andsvar):

Herra forseti. Hv. þm. Lúðvík Bergvinsson réð nokkuð rétt í þau viðhorf sem ég dró fram í ræðu minni um þá hættu sem uppi er í því kerfi sem við búum við núna, þ.e. að yfir Hafrannsóknastofnun er stjórn og í henni eru þungavigtarmenn úr hópi stórútgerðarmanna. Ég segi það alveg fullum fetum, herra forseti, að ég tel að hætta sé á því að hægt sé að beita stofnuninni í þágu þessa hluta útgerðarmanna. Ég bendi einfaldlega á þá staðreynd að þeir menn sem í stjórninni sitja eru ekki að sækjast eftir því til að vera áhrifalausir. Það er alveg ljóst. Þeir eru ekki komnir í stjórnina til að vera áhrifalausir, hvorki fyrir sína hagsmuni né annarra. Það er staðreynd sem við blasir að ástand þorskstofnsins á síðasta ári er allt annað en Hafrannsóknastofnun var búin að segja okkur að það yrði fyrir nokkrum árum þegar dregið var úr veiðiheimildum í þorski sem nam um 57%. Þá var dregin upp ákveðin mynd af því hvernig ástandið mundi verða nú ef farið yrði að þeirra tillögum. Það hefur verið gert í meginatriðum en ástandið er allt annað og miklu betra en stofnunin vildi vera láta að það gæti orðið. Maður hlýtur að spyrja sig: Hverjum þjónar þessi sveltistefna á veiðiheimildum í þorski? Hverjum þjónar hún?