Stjórn fiskveiða

Mánudaginn 23. febrúar 1998, kl. 18:01:55 (4166)

1998-02-23 18:01:55# 122. lþ. 73.9 fundur 189. mál: #A stjórn fiskveiða# (handfæraveiðar, veiðiskylda, krókaveiðar o.fl.) frv., 236. mál: #A stjórn fiskveiða# (brottfall laga) frv., 252. mál: #A rannsóknir í þágu atvinnuveganna# (Hafrannsóknastofnun o.fl.) frv., 263. mál: #A ráðstafanir í sjávarútvegsmálum# (breyting ýmissa laga) frv., 269. mál: #A áhrif veiðarfæra á vistkerfi hafsbotnsins# þál., 308. mál: #A rannsókn á áhrifum dragnótaveiða# þál., 487. mál: #A stjórn fiskveiða# (frysti- og vinnsluskip) frv., Flm. SJS (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 73. fundur, 122. lþ.

[18:01]

Flm. (Steingrímur J. Sigfússon):

Herra forseti. Ég þakka fyrir þá umræðu sem verið hefur um þessi þingmál, sjávarútvegsmálin, sem hér hafa verið á dagskrá í allan dag. Það má segja að hér hafi, óslitið síðan um þrjúleytið, staðið málstofa um sjávarútvegsmál og er það vel.

Hv. þm. Einar K. Guðfinnsson gerði að umtalsefni nokkur atriði í tengslum við þessi mál. Þar á meðal lýsti hann þeirri skoðun sinni að ekki bæri að skorða fiskveiðistjórnina eingöngu við eina aðferð heldur ættu menn að beita mismunandi aðferðum eftir aðstæðum.

Reyndar er það svo að fiskveiðistjórnkerfið er mjög blandað eins og það er í dag. Það vill oft gleymast í þindarlausum umræðum um kvótakerfið að það er langt frá því að vera eina aflamarkskerfið sem takmarkar þann afla sem taka má að landi. Fólk áttar sig oft ekki á því hversu geysilega samsett fiskveiðistjórnkerfið er í reynd og margar aðgerðir og ráðstafanir hafa þar áhrif. Nægir þar að nefna, svo dæmi sé tekið, allar reglur um veiðarfæri. Þær koma til viðbótar og eru hluti af inngripi stjórnvalda í sóknina. Þar má einnig nefna allar reglur um lokanir svæða, skyndilokanir, reglur um undirmálsfisk og stöðvun veiða ef of mikið af afla er undir máli. Landhelgislínur sem halda vissum stærðarflokkum skipa utan við ákveðin mörk stjórna einnig fiskveiðum o.s.frv.

Efnahagsleg atriði, kjarasamningar og fleira hafa einnig viss áhrif á sóknargetu flotans og sóknarmunstur. Þegar upp er staðið er það takmörkunarkerfi eða þær aðstæður sem beint eða óbeint takmarka sóknina í fiskstofnana samsett af mjög mörgum samvirkum þáttum. Að mínu mati er því einmitt óæskilegt að vera algerlega bundinn á klafa einnar ráðstöfunar frekar en annarrar.

Ég vísa aftur til þess sem ég sagði. Aðstæður eru sífellt að breytast. Upp koma tímabundnar aðstæður sem óhjákvæmilegt er að unnt sé að bregðast sérstaklega við. Það er að sjálfsögðu æskilegt að eins mikil festa og stöðugleiki ríki í þessu efni og hægt er en náttúran er sífellt að kenna okkur að hún er óstöðugt fyrirbæri. Menn geta ekki skipað loðnunni fyrir með lögum. Það er gersamlega tilgangslaust. Jafnvel okkar sprenglærðustu fiskifræðingar verða að játa sig sigraða þegar að því kemur að útskýra sífellt breytilega hegðun einstakra tegunda. Nýjar og nýjar aðstæður koma upp á miðunum vegna samspils mismunandi þátta, aðstæðna í hafinu, hitastigs, átu og stofnanna sem í hlut eiga. Þá ber að sjálfsögðu að hafa sveigjanleika og viðbragðsflýti í kerfinu þannig að unnt sé að mæta slíkum aðstæðum.

Það er ekki eins og þetta sé að gerast í fyrsta skipti og ætti að koma okkur á óvart, ástandið á loðnumiðunum nú þessa dagana. Ég minni t.d. á rækjuveiðar, úthafsrækjuveiðar á undanförnum árum. Það kom árabil, a.m.k. tvö ef ekki þrjú ár í röð, þar sem útgefinn úthafsrækjukvóti náðist ekki. Forsendur kerfisins voru látnar ráða og í staðinn fyrir að gefa veiðarnar frjálsar var haldið í kvótakerfið. Það dró úr þeirri sóknargetu sem ella hefði getað verið til staðar í flotanum til að nýta þennan stofn. Vísindin sem liggja til grundvallar því að takmarka sókn í rækju eru að margra mati langtum veikari heldur en þegar langlífir bolfiskstofnar eiga í hlut.

Ég var auðvitað ekki mjög bjartsýnn á það fyrir fram þegar ég tók það upp í dag, herra forseti, að nú ætti að bregðast við ástandinu á miðunum með því að gefa loðnuveiðarnar frjálsar það sem eftir lifir vertíðar. Að sjálfsögðu var ég ekki að tala um neitt annað. Við vitum ekki hver kvótinn verður, hvert veiðiþolið verður metið á næsta ári o.s.frv. Þá verður ekkert því til fyristöðu að kvótinn taki gildi á nýjan leik. Út frá honum geta allir skipulagt veiðar sínar og það væri ekki fyrr en undir lok vertíðar og fyrirséð að þjóðarbúið væri að verða af verðmætum sem gripið yrði til þessara ráða þegar upp koma aðstæður eins og þær sem eru að koma upp núna.

Nauðsynlegt er að hafa í huga að við erum að tala um loðnu, skammlífan stofn, þar sem ljóst er að sú veiði sem ekki verður tekin fyrir lok þessarar vertíðar verður aldrei tekin. Það gerir stofninum ekkert gagn í viðgangi og þjónar engum skynsamlegum tilgangi að láta 100--200 þús. tonn eða jafnvel meira af loðnu, sem að mati fiskifræðinga væri óhætt að taka, deyja drottni sínum á botninum vestan eða norðan við landið í apríl, maí eða júní eða hvenær það verður. Kerfið er farið að lifa sjálfu sér og hagsmunir kerfisins orðnir ofar þjóðarhagsmunum ef ekki er hægt að bregðast við aðstæðum af þessu tagi, ef fyrirséð er að kvótinn ætli ekki að nýtast.

Ég tek það fram að þetta er byggt á því sem frést hefur og út frá mati skipstjóra á síðustu sólarhringum. Hlutirnir breytast e.t.v. á allra næstu dögum. Það er vel ef menn fá forsendur til þess að verða bjartsýnni á að það takist að ljúka loðnuvertíðinni eðlilega, nýjar göngur finnist eða slíkt. Miðað við allar aðstæður, eins og þær blasa við mönnum á miðunum, fram að þessu er útlitið verra.

Ég vil bæta nokkru við þetta, herra forseti, og það er miður að hæstv. sjútvrh. er ekki hér til að svara fyrir það. Við þessar aðstæður tel ég blóðugt að sjá hafrannsóknaskipin sigla í land og ljúka sínum rannsóknum þegar þörfin fyrir að hafa þau og okkar færustu sérfræðinga á miðunum er meiri en nokkru sinni fyrr. Einmitt nú sem aldrei fyrr ætti að vera skip á miðunum til þess að fylgjast með því dag frá degi hvað þarna er að gerast og meta horfurnar. Helst ætti það að vera í beinu sambandi við stjórnvöld í sem gætu brugðist við í samræmi við bestu fáanlegar upplýsingar eins og þær liggja fyrir á hverjum tíma og skilaboðin sem við erum að fá úr lífríkinu. Þarna vantar nokkuð, herra forseti, á að okkar stjórnkerfi sé nægjanlega viðbragðsfljótt og sveigjanlegt og geti tekið mið af breytilegum aðstæðum.

Það gefast sjálfsagt tækifæri til að skoða þetta mál eða ræða frekar á hv. Alþingi á næstu dögum ef svo ber undir. Mér finnst mikilvægt að hæstv. sjútvrh. heyri þau skilaboð sem hér hafa verið flutt af nokkrum hv. þingmönnum og þar á meðal þeim sem hér talar, taki þau alvarlega og skoði hvort ekki sé ástæða til að meta það í fúlustu alvöru hvernig bregðast eigi við.

Herra forseti, Ég held að ég orðlengi ekki um það sem aðrir hv. ræðumenn fjölluðu. Ég þakka þær undirtektir sem fram komu við ýmis efnisatriði þeirra frumvarpa sem við höfum verið að mæla fyrir, hv. þingmenn Alþb. og óháðra og reyndar einnig hv. þm. Gísli S. Einarsson sem á hér eitt mál á dagskrá.