Hollustuhættir

Þriðjudaginn 24. febrúar 1998, kl. 15:06:15 (4172)

1998-02-24 15:06:15# 122. lþ. 74.9 fundur 194. mál: #A hollustuhættir# (heildarlög) frv., Frsm. minni hluta HG (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 74. fundur, 122. lþ.

[15:06]

Frsm. minni hluta umhvn. (Hjörleifur Guttormsson) (andsvar):

Virðulegur forseti. Menn heyrðu hér svona undirspil undir einn af þeim þáttum sem minni hlutinn hefur gagnrýnt og bent á sem veikleika svo ég noti ekki orðið ávirðing, um það er varðar gjaldskrármál og tengist þessu frv. Greinilegt er að fleiri en minni hlutinn deila áhyggjum um þann þátt málsins.

Tilefni andsvars af minni hálfu voru þau ummæli hv. þm. Tómasar Inga Olrichs að eftir að ágætur lögmaður sem kom fyrir nefndina, Halldór Jónsson, og gaf þar álit miðvikudaginn 18. febr., þá breytti meiri hlutinn tilteknum ákvæðum í sínu frv. Ég virði það að svo var gert enda mátti öllum ljóst vera eftir álitsgerðina eða þeim sem tóku mark á henni --- hún var vel rökstudd af hálfu lögmannsins --- að ekki væri búandi við þá miklu réttaróvissu sem hefði skapast við það að tveir aðilar fjölluðu og úrskurðuðu um deilumál er snertu útgefin starfsleyfi.

Ég get ekki tekið undir það að sá þáttur, sem hv. þm. vék sérstaklega að í minnispunktum lögmannsins sem hann skilaði til þingnefndarinnar eftir að hafa reifað málið þar munnlega, sé ekki gildur, þ.e. að komið geti til árekstra vegna þess að samkvæmt lögunum eru tveir úrskurðaraðilar, annars vegar úrskurðarnefndin sem hefur mjög breitt verksvið og hins vegar ráðuneytið sem úrskurðar um álitamál varðandi starfsleyfin. Þar eiga við að mínu mati ákveðin umsagnaratriði af hálfu lögmannsins fyrir utan það sem liggur í hlutarins eðli.