Hollustuhættir

Þriðjudaginn 24. febrúar 1998, kl. 15:58:36 (4178)

1998-02-24 15:58:36# 122. lþ. 74.9 fundur 194. mál: #A hollustuhættir# (heildarlög) frv., KH (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 74. fundur, 122. lþ.

[15:58]

Kristín Halldórsdóttir (andsvar):

Herra forseti. Það er alltaf matsatriði hvenær fólk telur að nægur tími og ráðrúm hafi gefist. Við höfum yfirleitt unnið þannig að mál kemur til nefndar, það fer síðan til umsagnar og þá líða nokkrar vikur, síðan er málið tekið fyrir og þá er rætt við gesti og í þessu tiltekna máli komu mjög margir gestir á fund nefndarinnar. Síðan höfum við venjulega sest yfir hlutina saman, rætt hverja grein fyrir sig og komist að sameiginlegri niðurstöðu um álitaefni og jafnvel meiri hlutinn farið í vinnslu ásamt ritara og aðstoðarmönnum og þannig höfum við unnið þetta áfram saman. Það er ekki venjan það ég þekki til að lýsa eftir sérstökum brtt. þegar komið er að yfirferð nefndarinnar í einrúmi, ef svo má kalla það, heldur hafa menn unnið að því saman. Ég skil alveg aðstöðu meiri hlutans. Við vorum sett í þá aðstöðu að komist var að samkomulagi um sérstaka meðferð þessa máls og við vonuðumst víst öll áreiðanlega til að við mundum ná að hafa málefnalegar umræður og vinnu sem skilaði okkur sameiginlegri niðurstöðu fyrir þennan tíma. En ég held að okkur öllum hafi verið það ljóst í upphafi að þetta er svo viðamikið mál að við hefðum þurft meiri tíma. En ég veit að það þýðir ekkert fyrir okkur að koma hér til skiptis upp og segja: Við höfðum ekki nógan tíma, og svo segir annar: Við höfðum nógan tíma. Það er bara einfaldlega svo að okkur fannst ekki gefinn nægur tími til að nefndin gæti setið sameiginlega yfir hugsanlegum breytingum á þessu frv.