Hollustuhættir

Þriðjudaginn 24. febrúar 1998, kl. 16:01:00 (4179)

1998-02-24 16:01:00# 122. lþ. 74.9 fundur 194. mál: #A hollustuhættir# (heildarlög) frv., ÁÞ
[prenta uppsett í dálka] 74. fundur, 122. lþ.

[16:01]

Ásta B. Þorsteinsdóttir:

Virðulegi forseti. Hv. þm. Hjörleifur Guttormsson og Kristín Halldórsdóttir hafa í ítarlegu máli mælt fyrir áliti minni hluta umhverfisnefndar um frv. um hollustuhætti. Í rauninni þyrfti ekki að fara mörgum orðum um það frekar en gert hefur verið. Ég get þó ekki látið hjá líða að taka nokkur af þeim atriðum til frekari umfjöllunar.

Fyrst vil ég nefna markmið þessa frv. Skoðun mín er sú að með því að leggja þetta frv. fram í þessari mynd hafi ríkisstjórnin látið ómetanlegt tækifæri til gagngerrar endurskoðunar á lögum um hollustuhætti og umhverfismál fara fram hjá sér. Gildandi lög um þessi málefni eru að stofni til frá 1984. Frá þeim tíma hafa orðið straumhvörf í heiminum hvað varðar þekkingu og viðhorf til umhverfismála og umhverfisverndar. Maður hlýtur að spyrja að því hvort ekki hefði verið rétt að breyta um nálgun í þessum málaflokki og taka mið af þeirri þróun sem orðið hefur, t.d. í umhverfisrétti síðustu 25 ár.

Fjölmargir aðilar hafa sent ítarlegar umsagnir um þetta frv., gengið á fund nefndarinnar og komið sjónarmiðum sínum á framfæri. Það verður að segjast, herra forseti, að umsagnir þessara aðila eru mjög samhljóma í gagnrýni á frv. Einstaka aðilar hafa jafnvel gengið svo langt að líkja frv. við stagbætta flík.

Ég vil með nokkrum orðum fjalla um umsögn einstakra aðila. Ég staldra fyrst við umsögn Náttúruverndar ríkisins sem vekur sérstaka athygli á því að í frv. vanti nánast allar efnislegar reglur um mengunarvarnir. Þeir benda einnig á það að með hliðsjón af réttaröryggissjónarmiðum væri eðlilegra að löggjafinn skilgreindi nokkrar alþjóðlegar meginreglur sem varða umhverfismál og umhverfisvernd. Um þær er ekkert fjallað í þessu frv.

Náttúruvernd ríkisins bendir í þessu samhengi á nokkrar alþjóðlegar meginreglur umhverfisréttar, m.a. þær reglur sem koma fram í Ríó-yfirlýsingunni. Náttúruvernd ríkisins telur að mikils virði hefði verið að skilgreina þær, staðfæra og aðlaga íslensku réttarkerfi, yrði þetta frv. sem hér er til umfjöllunar að lögum. Þá hefur Náttúruvernd ríkisins einnig bent á, eins og fram hefur komið í máli hv. þm. Kristínar Halldórsdóttur, að þetta hefði verið kjörið tækifæri fyrir Alþingi að fella markmið EES-samningsins inn í löggjöfina. Með vísun í orð hv. þm. vil ég leyfa mér að fullyrða að þau markmið sem sá samningur hefur eru mun háleitari og framsæknari en markmið þessa frv. Auk þess vil ég, herra forseti, benda á að í 75. gr. EES-samningsins um umhverfismál segir um verndunarráðstafanir í 74. gr. að ekkert sé því til fyrirstöðu að einstakir samningsaðilar láti strangari verndunarráðstafanir halda gildi sínu og grípi til þeirra enda samræmist þær samningnum. Með öðrum orðum hefði hæstv. ríkisstjórn verið í lófa lagið að setja fram háleitari markmið í nýju frv. um hollustuhætti og umhverfismál.

Í nál. okkar vitnum við til danskrar löggjafar um umhverfismál sem sýnir allt önnur tök á þessum mikilvæga málaflokki en þetta frv. Markmið dönsku laganna er að vernda náttúru og umhverfi svo þróun samfélagsins verði grundvölluð á virðingu fyrir lífsskilyrðum manna og varðveislu dýra- og plöntulífs. Þar er mun sterkar að orði kveðið en í markmiðsgrein frv. sem hér er til umfjöllunar. Vert er að geta þess að Náttúruvernd ríkisins leggur í umsögn sinni til að unnið verði að frv. sem svipi til dönsku laganna um umhverfismál.

Virðulegi forseti. Framsögumaður minni hluta umhvn. hefur farið ítarlega í gegnum þau atriði sem við teljum að helst hefði þurft að bæta í þessu frv. Ég tel þó ástæðu til að fagna því að meiri hluti umhvn. hefur tekið tillit til þeirra sjónarmiða sem gestir okkar létu í ljós á síðustu dögum við vinnu frv. Sérstaklega ber að fagna því að í 6. gr., þar sem fjallað er um starfsleyfisveitingu, skuli tekið tillit til þeirrar gagnrýni sem fram kom hjá nær öllum þeim sem gengu á fund nefndarinnar. Í frv. var áður gert ráð fyrir því að umhvrh. gæfi út starfsleyfi fyrir atvinnurekstur sem gæti haft í för með sér mengun, ef samanlögð fjárfesting væri meiri en 950 millj. kr. Þetta var gagnrýnt af nær öllum sem umsagnir gáfu og bentu fjölmargir á að eðlilegra væri að starfsleyfisveitingar væru á einni hendi. Við því var brugðist og því ber að fagna.

Önnur atriði voru gagnrýnd bæði í umsögnum og af gestum nefndarinnar, eins og fram hefur komið í máli hv. þm. hér á undan. Þar mætti nefna þátttöku atvinnurekenda í heilbrigðisnefndum og hollustuháttaráði. Flestir voru þeirrar skoðunar að sú skipan mála væri fullkomlega óeðlileg og úr takti við góða og nútímalega stjórnsýsluhætti. Fulltrúar Hollustuverndar ríkisins bentu í heimsókn sinni á að við þetta fyrirkomulag hefði komið athugasemd frá Eftirlitsstofnun EFTA, ESA. Ég vil að því verði haldið til haga hér að þetta hefur vakið athygli og gagnrýni þeirra sem kynnt hafa sér málið.

Meiri hluti umhvn. gerði tilraun til þess að bæta úr þessu klúðri, sem ég vil kalla, með því að fjölga fulltrúum heilbrigðisnefndanna og bæta við, t.d. fulltrúum frá náttúruverndaraðilum. Á það var auðvitað einnig bent að víða eru mál þannig að ekki er hægt að kalla til slíka aðila, sérstaklega ekki í minni sveitarfélögum. En, herra forseti, ég vil aðeins staldra aftur við þann hagsmunaárekstur sem hlýtur að verða þegar þeir sem hafa á eftirlit með eru sjálfir gerðir að eftirlitsaðilum.

Svo ég víki nokkrum orðum að stjórn Hollustuverndar og hollustuháttaráði þá er ég í sjálfu sér ekki ósammála því að breyting verði gerð á stjórnskipulagi Hollustuverndar ríkisins. Ég tel þó að þarna verði að gæta samræmis við aðrar sambærilegar stofnanir á vegum ríkisins. Það hefur auðvitað ekki verið gert eins og flestum er kunnugt. Sjónarmið þeirra sem á fund okkar gengu voru einmitt þau að ekki væri óeðlilegt að Hollustuvernd ríkisins hefði á að skipa framkvæmdastjórn sem færi með rekstur stofnunarinnar en hefði síðan sér við hlið fagráð til ráðgjafar. Það hefði þess vegna getað heitið hollustuháttaráð en væri þá tengt þessari stofnun fremur en að vera, eins og frv. gerir ráð fyrir, beintengt við ráðherrann.

Um það hefur verið fjallað, herra forseti, að með þessu frv. gæti skapast réttaróvissa, þar sem kæruleiðir eru enn þá tvær. Þó þarna hafi verið gerð tilraun til að bæta úr þá eru úrskurðaraðilarnir enn tveir og gætu þess vegna verið að fjalla um sömu efnisatriði á sama tíma. Ég vil aftur vekja athygli á ákvæðum dönsku laganna um umhverfismál þar sem þetta er falið einni úrskurðarnefnd og ég tel að það sé í samræmi við góða stjórnsýsluhætti.

Á það hefur verið bent, herra forseti, að margt í þessu frv. veki upp spurningar um skörun á verksviði, a.m.k. tveggja ráðherra og ráðuneyta. Þar á ég við umhvrn. og umhvrh., og félmrh. Þetta kom fram í álitsgerð Halldórs Jónssonar lögfræðings sem sótti nefndina heim á meðan unnið var að brtt. við frv. Ég tel að þarna þurfi að fara betur yfir málin svo að ekki skapist óvissa og jafnvel ágreiningur um þetta atriði.

Herra forseti. Hægt væri að fjalla um fjölmörg önnur atriði hér í áliti minni hluta umhvn. en ég tel að hv. þm. Hjörleifur Guttormsson hafi gert það mjög ítarlega. Ég tel því ekki ástæðu til að tefja þessa umræðu enn frekar en vil að lokum vitna til nál. okkar þar sem mikinn fróðleik er að finna. Þar hefur þeim umsögnum um frv. sem fjölmargir aðilar hafa látið nefndinni í té, verið haldið vel til haga. Auk þess vil ég, með leyfi forseta, benda á tvö fskj. sem fylgja nál. en þar er umsögn Halldórs Jónssonar lögfræðings og umsögn stjórnar Hollustuverndar ríkisins.

Að lokum, herra forseti, tek ég undir minnihlutaálitið og hvet menn til að íhuga það gaumgæfilega. Ég tek undir orð hv. þm. Kristínar Halldórsdóttur, að í því felst mikið traust að vísa frv. til hæstv. ríkisstjórnar þegar við í minni hlutanum lítum svo á að þrátt fyrir að nú hafi verið bætt úr nokkrum atriðum þá sé enn of margt óunnið í frv. til þess að það sé ásættanlegt út frá nútímasjónarmiðum og framsýni í umhverfismálum að við teljum mjög mikilvægt að hæstv. ríkisstjórn fái frv. aftur til umfjöllunar og geri á því bragarbót.