Hollustuhættir

Þriðjudaginn 24. febrúar 1998, kl. 17:55:23 (4185)

1998-02-24 17:55:23# 122. lþ. 74.9 fundur 194. mál: #A hollustuhættir# (heildarlög) frv., KH (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 74. fundur, 122. lþ.

[17:55]

Kristín Halldórsdóttir (andsvar):

Herra forseti. Ég vil þakka hv. síðasta ræðumanni þann heiður að vísa til mín spurningu í ræðu sinni. Ég var ekki langt undan þegar ég heyrði að hann saknaði mín. Ég var einfaldlega niðri í borðstofu að næra mig eftir þessa löngu lotu. Hann velti fyrir sér fyrirkomulagi þeirrar stjórnar sem ég gerði grein fyrir í ræðu minni og mér fannst hann ekki hafa mikla trú á því fyrirkomulagi. Hann spurði hver ætti að bera ábyrgð á málaflokknum, ef ég skildi hann rétt. Mér fannst það ekki þurfa að vera flókið mál en ég hefði svo sannarlega fagnað því ef góð umræða hefði fengist í nefndinni um einmitt þetta mál.

Ég var náttúrlega að vísa til þeirrar tillögu sem fram kom af hálfu Hollustuverndar ríkisins. Ég taldi mjög áhugavert að fjalla um hana og reyna að ná niðurstöðu. Fyrir mig get ég sagt að ég tel eðlilegast að breyta ekki um stjórnunarfyrirkomulag eins og er.

Það ætti að vera stjórn yfir Hollustuvernd ríkisins. Vilji menn hins vegar fara út á þá braut að leggja stjórn Hollustuverndar ríkisins af, sé ég mikla möguleika í þeim tillögum og hugmyndum sem fram komu af hálfu Hollustuverndar ríkisins. Þar er lagt til að forstjóri eða framkvæmdastjóri verði yfir Hollustuverndinni og samstarfsráð forstöðumanna sviðanna. Ég sé ekki að það þurfi að rugla kerfið því auðvitað liggur ábyrgðin hjá framkvæmdastjóra og svo endanlega hjá ráðherra. Að auki yrði fagráð, eins og nú er lagt til í þessu frv., þ.e. ráðgefandi ráð fyrir ráðherra --- ráð, ráð, ráð. Ég er ekki sammála því fyrirkomulagi heldur er ég að tala fyrir því fagráði sem gerð var tillaga um eða komið hafa hugmyndir um í umsögn Hollustuverndar ríkisins.