Áfengis- og vímuvarnaráð

Þriðjudaginn 24. febrúar 1998, kl. 19:13:43 (4199)

1998-02-24 19:13:43# 122. lþ. 74.11 fundur 479. mál: #A áfengis- og vímuvarnaráð# frv., heilbrrh. (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 74. fundur, 122. lþ.

[19:13]

Heilbrigðisráðherra (Ingibjörg Pálmadóttir):

Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir frv. til laga um áfengis- og vímuvarnaráð sem lagt er fyrir Alþingi á þskj. 814. Frv. er að mestu samhljóða frv. um sama efni sem lagt var fyrir hv. Alþingi á síðasta þingi en varð ekki útrætt. Fyrra frv. var samið af nefnd ráðuneyta sem skipuð var samkvæmt ákvörðun ríkisstjórnarinnar til að vinna að samræmingu aðgerða vegna áfengis- og fíkniefnavarna. Nefndin undirbjó stefnumörkun ríkisstjórnarinnar í þessum málaflokki sem samþykkt var í ríkisstjórn 3. desember 1996 og skilaði samhliða frv. því sem þá var lagt fram. Hvort tveggja, stefnumörkun í \mbox{fíkniefna-,} áfengis- og tóbaksvörnum og frv. til laga um áfengis- og vímuvarnaráð, ber merki aukinnar áherslu stjórnvalda á áfengis- og vímuefnavarnir auk þess sem fjármagn til þessa málaflokks hefur aukist verulega á síðustu tveimur árum.

Í febrúar 1997 undirritaði ríkisstjórnin samstarfssamning við Reykjavíkurborg og samtök evrópskra borga gegn eiturlyfjum um áætlunina Ísland án eiturlyfja 2002.

[19:15]

Undir því kjörorði hafa fjölmörg verkefni verið unnin samkvæmt sérstakri framkvæmdaáætlun með það að markmiði að sameina krafta þjóðarinnar í baráttunni gegn ólöglegum fíkniefnum, efla forvarnir og skipuleggja verkefni og aðgerðir sem hafa þetta takmark að leiðarljósi. Þá hefur Forvarnasjóður stutt myndarlega við félagasamtök og áhugahópa í baráttunni gegn neyslu áfengis og annarra vímuefna.

Frv. það sem mælt er fyrir er unnið á vegum ríkisstjórnarinnar í tengslum við endurskoðun á fyrirkomulagi áfengismála í landinu og samhliða eru lögð fram frv. til áfengislaga og frv. til breytinga á lögum um gjald af áfengi. Jafnframt er lagt fram frv. til breytinga á lögreglulögum varðandi eftirlit með áfengi og áfengisauglýsingum.

Neysla áfengis og annarra vímuefna, sérstaklega meðal unglinga, og þau víðtæku vandamál sem tengjast slíkri neyslu hafa verið mjög til umræðu í þjóðfélaginu á undanförnum árum. Dæmi eru sögð af hræðilegum atburðum og mannlegri niðurlægingu sem hin ógæfusömu ungmenni lenda í. Spurt er hvar okkur hafi mistekist og hvar megi gera betur.

Svarið við því er að sjálfsögðu margþætt en megináhersla sem ríkisstjórnin hefur markað, m.a. með auknu fjármagni, er að styrkja og efla tóbaks-, áfengis- og vímuefnavarnir sérstaklega meðal barna og ungmenna og birtist það skýrt í stefnu ríkisstjórnarinnar í þessum málaflokki sem prentuð er sem fylgiskjal með frv. Slíkar forvarnir geta ekki verið sérstakt verkefni stjórnvalda einna. Það þarf meira til og hefur á síðasta ári verið unnið að því að sameina krafta áhugafólks, félagasamtaka og opinberra aðila í forvörnum.

Ég bendi sérstaklega á hlutverk foreldra, áhugamanna og félagasamtaka sem vinna stöðugt mikið starf í beinum vímuefnavörnum og hafa náð verulegum árangri í að breyta hugarfari og gera börnum og ungmennum grein fyrir hættunni sem fylgir neyslu áfengis og annarra vímuefna.

Á síðasta ári voru tilkynntar niðurstöður úr könnun sem Gallup framkvæmdi fyrir áfengisvarnaráð þar sem kom m.a. fram að árið 1996 virtust unglingar byrja mun seinna að neyta áfengis en 1994 og mun fleiri neyttu alls ekki áfengis. Þetta er ekki síst mikilvægt vegna þeirrar staðreyndar að þeir sem hefja áfengisneyslu ungir neyta í flestum tilfellum meira áfengis en aðrir og ekki síður að rannsóknir hafa sýnt fram á að unglingar sem byrja áfengisneyslu ungir eru í mun meiri hættu á að verða misnotkun að bráð en sá sem byrjar seint að neyta áfengis. Því er mjög mikilvægt að vinna að því með öllum mögulegum aðferðum að koma í veg fyrir neyslu unglinga á áfengi og a.m.k. að seinka upphafi neyslu eins og mögulegt er.

Nýlega hafa hins vegar birst einnig niðurstöður kannana sem sýna að neysla unglinga á tóbaki, áfengi og öðrum vímuefnum fer vaxandi. Í sama farveg renna upplýsingar, m.a. frá SÁÁ, um að ungmenni sem lagst hafa inn til meðferðar á Vogi séu verr á vegi stödd nú en áður bæði að því er varðar áfengi og önnur vímuefni. Það er vissulega harmleikur sem bregðast verður við þegar börn niður í 13 ára aldur bera öll merki þess að vera líkamlega háð áfengi og öðrum fíkniefnum. Við þessu verður að bregðast. Sölumenn dauðans mega ekki vera látnir afskiptalausir.

Í frv. því sem mælt er fyrir er kveðið á um stofnun sérstaks áfengis- og vímuvarnaráðs í þeim tilgangi að efla og styrkja varnir með sérstakri áherslu á börn og ungmenni og sporna við afleiðingum af neyslu áfengis og annarra vímuefna. Ég tel mjög mikilvægt að tengja með þessum hætti saman baráttuna gegn neyslu ungmenna á áfengi og baráttu gegn neyslu annarra vímuefna enda eru markhóparnir svipaðir að því er varðar forvarnir og sýnt hefur verið fram á að sterk tengsl eru á milli neyslu áfengis og byrjunar á neyslu annarra vímuefna.

Í frv. til áfengislaga, sem lagt hefur verið fram á Alþingi, er gert ráð fyrir að starfsemi áfengisvarnaráðs verði lögð niður og hinu nýja ráði falin þau verkefni sem það hefur hingað til annast ásamt fíkniefnavörnum. Í því frv. er fjallað um lagaskil, breytingar og brottfall lagaákvæða sem eru ekki í frv. til laga um áfengis- og vímuvarnaráð. Með þessu tel ég tryggt að reynsla sú sem er innan áfengisvarnaráðs nýtist áfram inn í hið nýja áfengis- og vímuvarnaráð og nauðsynlegt að starfsemin sé samfellt tryggð.

Markmiðið með stofnun áfengis- og vímuvarnaráðs er að uppræta fíkniefnaneyslu og draga stórlega úr áfengisneyslu með öllum mögulegum aðferðum og með samstilltu átaki allra sem vinna að áfengis- og vímuefnavörnum. Þá er ráðinu sérstaklega ætlað að beita sér fyrir samræmingu og samvinnu þeirra sem vinna að forvörnum. Samkvæmt 2. gr. frv. er gert ráð fyrir að í ráðinu sitji fulltrúar sjö ráðherra auk fulltrúa Sambands ísl. sveitarfélaga undir forustu fulltrúa heilbrrh. Þannig er reynt að tryggja að öll ráðuneyti sem áfengis- og vímuefnavarnir falla að einhverju leyti undir tilnefni fulltrúa til setu í ráðinu auk fulltrúa sveitarfélaganna sem hafa veigamiklu hlutverki að gegna í vímuefnavörnum.

Um verkefni ráðsins er fjallað í 3. gr. frv. en það mótast af því að ráðinu er ekki ætlað að yfirtaka verkefni annarra aðila sem eru að vinna að forvörnum í dag heldur beita sér fyrir aukinni samvinnu og samhæfingu þeirra aðila sem vinna að þeim jafnframt að hafa frumkvæði og tryggja virkt og öflugt forvarnastarf gegn neyslu áfengis og annarra vímuefna.

Í 4. gr. er gert ráð fyrir að heilbrrh. ráði framkvæmdastjóra ráðsins að fenginni umsögn áfengis- og vímuvarnaráðs en framkvæmdastjóri sem stýrir daglegri starfsemi ráði annað starfsfólk.

Árlegt ráðstöfunarfé ráðsins til að sinna verkefnum sínum verður af þrennum toga. Það er forvarnasjóður samkvæmt lögum um gjald af áfengi, viðbótarfjárveitingar sem Alþingi kann að ákveða með fjárlögum hverju sinni og framlög annarra aðila svo sem fyrirtækja sem vilja leggja vímuvörnum lið.

Í 8. gr. frv. er gert ráð fyrir að lögin taki gildi 1. júní nk.

Í lokin vil ég, virðulegi forseti, benda á tengsl frv. þessa við frv. til áfengislaga.

Virðulegi forseti. Ég tel að með frv. þessu sé lagður fram góður rammi að starfsemi áfengis- og vímuvarnaráðs sem reynslan á eftir að fylla út í og því ekki ástæða til að hafa lagatextann mjög ítarlegan. Þetta frv. er liður í framkvæmd ríkisstjórnarinnar í stefnu sinni í vímuvarnamálum og mikilvægt tæki til samræmingar og samhæfingar á þessu mikilvæga sviði. Ég vænti þess að um málið muni ríkja sátt á Alþingi og samþykkt frv. í fyllingu tímans verði heillaspor í baráttunni gegn þeim mikla vágesti sem neysla vímuefna og ofnotkun áfengis er í þjóðfélagi okkar.

Að lokinni umræðunni geri ég það að tillögu minni, virðulegi forseti, að frv. verði vísað til meðferðar heilbr.- og trn.