Réttarstaða íbúa á hjúkrunar- og dvalarheimilum

Miðvikudaginn 25. febrúar 1998, kl. 16:05:07 (4216)

1998-02-25 16:05:07# 122. lþ. 75.13 fundur 284. mál: #A réttarstaða íbúa á hjúkrunar- og dvalarheimilum# þál., ÁRJ
[prenta uppsett í dálka] 75. fundur, 122. lþ.

[16:05]

Ásta R. Jóhannesdóttir:

Herra forseti. Ég vil byrja á að þakka hv. 15. þm. Reykv., Ástu B. Þorsteinsdóttur, fyrir að hafa haft frumkvæði að því mikilvæga máli sem hér er til umfjöllunar. Hún hefur í framsögu sinni rakið helstu þætti ágætlega en þó vil ég gjarnan koma aðeins inn í umræðuna.

Það er mikilvægt að farið verði í að vinna þau verk sem farið er fram á í þessari þáltill. Það vantar skýrar og réttlátar reglur um þessi mál. Menn þurfa að gera upp við sig grundvallarspurningar á borð við það hvort einstaklingar eigi að greiða fyrir hjúkrun sína þegar þeir eldast og fara á hjúkrunarheimili. Eins og málin eru í dag er ástandið náttúrlega alls ekki viðunandi. Eins og hv. frummælandi minntist á greiða menn fyrir hjúkrunarvist sína. Þeir sem safnað hafa til elliáranna með greiðslum í lífeyrissjóð, halda ekki eftir nema um 20 þús. kr. Það sem eftir er fer í að greiða vistina. Hjúkrunarrými kostar í dag um 250 þús. kr. á mánuði. Á dvalarheimili er kostnaðurinn líklega u.þ.b. helmingi lægri.

Tíðkast hefur að hjúkrunarheimilin greiði lyfjakostnað og annan heilbrigðiskostnað fyrir þá sem þar vistast. Rekstur þessara hjúkrunarheimila byggist á þeim daggjöldum sem hið opinbera greiðir og síðan sértekjum sem koma af greiðslum frá þeim sem dvelja á heimilinu. Meðan svo er er auðvitað alltaf hætta á að það hafi áhrif á það hverjir fá vist. Við vitum að það eru langir biðlistar eftir hjúkrunarrýmum. Það getur haft áhrif, ég er ekki að segja að svo sé, en það getur haft áhrif hvort vistmenn flytja með sér greiðslur inn á heimilið eða ekki. Það hefur auðvitað áhrif á hversu há daggjöld stofnunin þarfnast síðar meir skv. fjárlögum. Þarna eru mjög misvísandi reglur sem auðvitað þarf að skoða og leiðrétta. Það kom t.d. skýrt fram í svari við fyrirspurn frá hv. þm. Guðrúnu Helgadóttur fyrr í vetur.

Ég get nefnt dæmi sem ég þekki vel um fullorðinn mann sem kominn er á hjúkrunarheimili hér. Hann greiddi lengi í lífeyrissjóð og hefur góðar lífeyrissjóðsgreiðslur, á annað hundrað þús. sem fara að mestu til hjúkrunarheimilisins. Hann heldur eftir 20 þús. kr. á mánuði. Af þessum vasapeningum þarf hann að greiða fyrir þvott sem mér er reyndar sagt að ekki sé heimilt lengur. Ég hef engu að síður gögn um að þessi hjúkrunarsjúklingur þarf að greiða fyrir þvottinn. Hann þarf að greiða fyrir hreinsun á fötunum sínum, greiða fyrir klippingu, snyrtingu o.s.frv. Þetta þurfa einnig þeir einstaklingar að gera sem ætlað er að lifa á vasapeningunum, þeir sem ekki hafa verið svo heppnir að geta safnað í lífeyrissjóð, fá greiðslur úr almannatryggingunum og þessar 11--12 þús. kr. í vasapeninga á mánuði. Þeir þurfa að standa straum af ýmsum kostnaði á heimilinu með þessum 11 þús. kr. Þær eru tekjutengdar eins og margoft hefur komið fram í umræðunni og þannig skerðir allt sem sjúklingurinn fær greitt yfir 3 þús. kr., vasapeningana um 65%.

Ég veit dæmi þess að mikill hjúkrunarsjúklingur, ég veit ekki hvort hann fékk greiðslu frá Rithöfundasambandinu aðrar höfundargreiðslur, fékk lítilræði fyrir jól vegna lesturs úr verkum hans. Þetta reyndist hefndargreiðsla. Auðvitað voru peningarnir notaðir til að gleðja einhvern af afkomendunum fyrir jólin en næst þegar skattskýrslan kom til skoðunar, 1. sept. árið eftir, þá skertust vasapeningarnir vegna greiðslunnar. Viðkomandi hjúkrunarsjúklingur þurfti að búa við mun lægri vasapeninga það sem eftir var ársins þar til leiðréttingin kom í september árið eftir. Þessar reglur er alls ekki hægt að una við, herra forseti. Þetta verður að leiðrétta.

Það þarf að vinna það verk sem farið er fram á í þessari þáltill. Það er ekki að ástæðulausu að allur þingflokkur jafnaðarmanna leggur þessari tillögu lið með samflutningi, vegna þess að þetta er réttlætismál sem þarf að skoða. Það má ekki mismuna fólki eftir því hvar það dvelur eftir að það getur ekki dvalið í heimahúsum.

Ég gæti auðvitað nefnt ýmis fleiri dæmi sem ég þekki og ástæða væri til að vekja athygli á en tími minn leyfir það ekki. Ég ítreka hins vegar enn og aftur: Þessi mál verður að skoða, bæði kostnaðinn, hjálpartækjakostnað og ýmislegt annað sem nefnt er í grg. og frummælandi, Ásta B. Þorsteinsdóttir, fjallaði um. Ég vona að þegar þetta mál hefur fengið sína umfjöllun í dag, fari það til heilbr.- og trn. og fái þar afgreiðslu vegna þess að það snýst um grundvallarmannréttindamál.