Réttarstaða íbúa á hjúkrunar- og dvalarheimilum

Miðvikudaginn 25. febrúar 1998, kl. 16:21:17 (4218)

1998-02-25 16:21:17# 122. lþ. 75.13 fundur 284. mál: #A réttarstaða íbúa á hjúkrunar- og dvalarheimilum# þál., GHall
[prenta uppsett í dálka] 75. fundur, 122. lþ.

[16:21]

Guðmundur Hallvarðsson:

Herra forseti. Ég verð að segja að sumt af því sem hér hefur verið sagt kemur mér nokkuð á óvart vegna þess að það er eins og fólk tali af nokkru þekkingarleysi með fullyrðingar um hluti sem standast ekki. Í greinargerð með þáltill. segir að: ,,Í flestum tilvikum er vísað til þess að fjármagna eigi hjálpartæki af rekstrarlið stofnana sem þýðir nær undantekningalaust að hjálpartækið fæst ekki.`` Fást hjálpartæki nær undantekningarlaust ekki á stofnunum? Við hvaða stofnanir er átt ef þetta er undantekningalaust? Á hvaða stofnunum fást þá hjálpartæki? Ég vildi gjarnan fá það uppgefið. Á hvaða stofnunum fást hjálpartæki ef það er undantekningalaust að þau fást ekki? Þar sem ég þekki til er undantekningalaust hjálpartæki til staðar ef á þarf að halda.

Síðan er sagt að fyrirkomulag greiðslu fyrir læknis- og lyfjakostnað þeirra sem búa á hjúkrunarheimilum, vistheimilum eða sólarhringsstofnunum virðist vera nokkuð mismunandi eftir því á hvaða stofnun fólk dvelst. Einstaka stofnanir greiða þennan kostnað fyrir heimilisfólk að fullu en aðrar stofnanir taka lítinn sem engan þátt í honum. Það hlýtur að vera réttlætismál að allir sitji við sama borð hvað þetta varðar.

Ég veit ekki betur en að í þeim daggjöldum sem Tryggingastofnun ríkisins greiðir til sólarhringsstofnana eins og fyrir aldraða eða hjúkrunarheimila sé þetta innifalið í daggjaldinu. Það væri mjög gott fyrir mig og eflaust alþjóð og þetta heiðursfólk, sem kemur til með að fylgjast með þessari útsendingu héðan úr Alþingi, að vita hvað verið er að fara? Er það svo að verið sé að hafa af fólki fé með því að veita því ekki þá þjónustu sem kemur og á að veitast í gegnum daggjöld þegar Tryggingastofnun ríkisins greiðir? Ég held að það sé mjög nauðsynlegt vegna þess að verið er að bera það á borð að flestir aldraðir séu að fara með ósannindi og ekki með rétt mál og standi ekki við það sem kröfur eru gerðar til hjá Tryggingastofnun ríkisins.

Enn fremur segir í greinargerð: ,,Eins og málum er háttað er kostnaðarhlutdeild íbúa heimila og stofnana mjög mismunandi og má kveða svo fast að orði að alvarleg mismunun eigi sér stað.``

Það væri mjög athyglisvert að fá fram hvað flutningsmenn eru að fara hér með þessu. Hvað eru flutningsmenn að fara með þessum orðum? Það eru ákveðnar reglur sem farið er eftir. Í flutningi hv. síðasta ræðumanns, Guðrúnar Helgadóttur, og hjá fleirum kom fram að fólk heldur eftir mjög lágri upphæð af lífeyrissjóðsgreiðslunum eða um 26 þús. kr. og annað sé tekið. Það er rétt en ef fólk hefur meiri lífeyrissjóðstekjur en nemur daggjaldagreiðslum þá heldur fólkið auðvitað því eftir sem umfram er. (GHelg: Þó það nú væri.) --- Þó það nú væri. Það hefur bara ekki komið fram í málflutningi neins sem talað hefur hér.

Síðan er talað um að kostir þeirra breytinga sem lagðar eru til í tillögunni séu margvíslegir. Það sé augljóst réttlætismál að allir aldraðir og fatlaðir, líka þeir sem dveljast á stofnunum og þurfa verulega aðstoð, njóti sambærilegra réttinda og kjara og þeir sem geta búið sjálfstætt. Ég verð að segja það að mér vefst nokkuð tunga um tönn. Það er svo mikill munur á því að búa á sólarhringsstofnun eða vera í heimahúsi. Hvernig á þá að veita því fólki þá þjónustu sem veitt er, lyfjakostnað, læknishjálp, ef fólk er að tala um að það eigi að njóta sambærilegra kjara og þeir sem búa heima og fá alla greiðslu sína en geta kallað til heimaþjónustu ef á þarf að halda og borgar hana?

Síðan segir í greinargerðinni: ,,Sá sem hefur umtalsverðar vaxtatekjur af verðbréfum hefur hins vegar sloppið við greiðsluþátttöku umfram það sem sjúkratryggingar leggja til með honum.`` Ég heyrði það á framsögumanni að þessi texti er vitlaus í greinargerðinni því að það var öðruvísi talað og sagt að þeim sem fá vaxtatekjur sé reiknað það til tekna og þar af leiðandi þurfi þeir að borga hærri gjöld.

Ekki er langt síðan aldraður heimilismaður á Hrafnistu hafði mörg orð um þetta við mig og sýndi mér það í tölum að hann hefði lagt verulega til efri áranna og það var honum til frádráttar, þ.e. vaxtatekjurnar, og hann varð að borga hærra hlutfall í daggjöldum en annars.

Síðan segir í greinargerðinni: ,,Það væri enn fremur mikill kostur ef framfærsla allra þeirra sem hér um ræðir færi í gegnum sömu stofnun eða ráðuneyti og fer með almannatryggingar og um þetta giltu sömu lög og reglur og gilda um aðra úr röðum aldraðra og fatlaðra. Ef íbúar hjúkrunarstofnana eða vistheimila fengju bætur greiddar beint, eins og hér er lagt til, yrði greiðslukerfið sýnilegra og gagnsærra. Það væri því betur hægt að koma í veg fyrir misræmi og mismunum sem virðist víða vera í þjónustukerfi elli- og örorkulífeyrisþega.`` Ég tek undir að það er alveg rétt. Það er merkilegt að enginn skyldi koma inn á það sem hefur áður verið talað í þessu sambandi. Það eru nefnilega ótal heimili fyrir aldraða, hjúkrunarheimili og vistheimili sem fá nákvæmlega sömu gjöld og þau sem veita bestu þjónustu sem hægt er að veita. En þau heimili önnur eru til sem veita ekki aðra aðstoð en þá að klæða þá öldruðu, koma þeim einhvers staðar í gott sæti, og síðan þegar kvölda tekur og sest er sól eru þau leidd í rúmið aftur. Þessar stofnanir eru eftirlitslausar og hafa sömu daggjöldum á að skipa og þær sem eru með talsvert starfsfólk og leggja sig allar fram um það að búa öldruðum áhyggjulaust ævikvöld.

Þess vegna kom mér dálítið á óvart þegar ég las greinargerð með till. til þál. um að bæta réttarstöðu íbúa á hjúkrunar- og dvalarheimilum, sólarhringsstofnunum og vistheimilum fyrir aldraða og fatlaða, að ekki skuli vera komist sterkar að orði um hinn mikla mismun sem er á stofnununum eins og raun ber vitni um. Ég verð líka að segja að ég er dálítið hissa á hinu háa ráðuneyti að það skuli ekki vera löngu farið af stað með vinnu í þessu efni. Ég er hissa á því að greiða út peninga til stofnana aldraðra vítt og breitt um landið án þess að nokkuð sé hugað að því hvaða lágmarkskröfum sé fylgt eftir og að Tryggingastofnun ríkisins skuli ekki gera ákveðnar kröfur til standards og þjónustu. Hins vegar veit ég það að af svokallaðri RAI-mælingu sem nú fer fram og fleiri athugunum á vegum heilbrrn. er verið að stefna í rétta átt sem byggist m.a. á því að þá er verið að huga að því líka að fleira hjúkrunarfólk þarf við hjúkrun og það þarf fleiri aðila til að sinna þeim sem mjög eru sjúkir en þeim sem betur mega sín og þarf færra fólk við. (Forseti hringir.) Herra forseti. Ég er ekki búinn með einn þriðja af því sem ætlaði að segja en ég verð að láta máli mínu lokið í bili.