Réttarstaða íbúa á hjúkrunar- og dvalarheimilum

Miðvikudaginn 25. febrúar 1998, kl. 16:30:02 (4219)

1998-02-25 16:30:02# 122. lþ. 75.13 fundur 284. mál: #A réttarstaða íbúa á hjúkrunar- og dvalarheimilum# þál., Flm. ÁÞ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 75. fundur, 122. lþ.

[16:30]

Flm. (Ásta B. Þorsteinsdóttir) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég tek undir síðustu orð hv. þm. Guðmundar Hallvarðssonar þar sem hann fagnaði því undir lok ræðu sinnar að gera ætti úttekt á þessum stofnunum og þeirri þjónustu sem þær veita. Þingmaðurinn taldi það löngu tímabært. Því held ég að hann ætti að taka undir þessa þáltill. af heilum huga.

Aðeins til þess að svara helstu ávirðingum hans á þessa þáltill. Stofnanir sem eru á föstum fjárlögum hafa lítið sem ekkert svigrúm til að kaupa hjálpartæki. Einu hjálpartækin sem Tryggingastofnun ríkisins úthlutar fólki sem á þessum stofnunum býr eru hjólastólar. Persónuleg hjálpartæki eru ýmis önnur en hjólastólar. Vonandi að hv. þm. skilji að fleiri stofnanir eru hér til umræðu en sú stofnun sem hann þekkir best.

Tryggingastofnun ríkisins hefur upplýst mig um það, og ég tel þá stofnun vera ábyrga í sinni upplýsingamiðlun, að vaxtatekjur hafa fram að þessu ekki verið reiknaðar inn í greiðslugrunn íbúa á sólarhringsstofnunum eða vistheimilum þannig að ef þingmaðurinn veit betur verður hann að koma þeim upplýsingum til Tryggingastofnunar ríkisins og leiðrétta þá mismunun sem þarna er augljóslega í gangi.