Réttarstaða íbúa á hjúkrunar- og dvalarheimilum

Miðvikudaginn 25. febrúar 1998, kl. 16:39:58 (4224)

1998-02-25 16:39:58# 122. lþ. 75.13 fundur 284. mál: #A réttarstaða íbúa á hjúkrunar- og dvalarheimilum# þál., ÁRJ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 75. fundur, 122. lþ.

[16:39]

Ásta R. Jóhannesdóttir (andsvar):

Herra forseti. Það þarf vissulega margt að skoða í þessum efnum og aldrei mundi ég gagnrýna svo sjálfsögð réttindi eins og þau að fá að hafa sundlaug fyrir hvort heldur aldraða eða fatlaða. Það er stórmál í sambandi við þjálfun og endurhæfingu.

Hv. þm. sagði að það þyrfti að vega og meta hversu stórar greiðslur kæmu í daggjöldunum til þessara stofnana og það er einmitt það sem ég hef verið að reyna að koma hérna inn á, þ.e. það þarf að endurmeta daggjöldin. Ef sjúklingur með háar sértekjur sem greiðir inn á stofnunina fellur frá, þá falla tekjurnar og þá þarf að endurmeta daggjöldin. Mér finnst ekki eðlilegt, þegar sjúklingar og aldraðir eru annars vegar, að tala um að það þurfi jafnvel að vega og meta sjúklinginn inn á stofnunina miðað við hve mikið fjármagn fylgir honum til stofnunarinnar. Það er bara ekki viðunandi hugsunarháttur. Það er vegna þessa sem við segjum að það þurfi að vera sanngirni og réttlæti í þessu og því þurfi að skoða þessi mál þannig að svona hlutir geti ekki haft áhrif á það hvort viðkomandi kemst inn á stofnun eða ekki. Hver gengur fyrir á biðlistum? Er það sá sem þarfnast mikillar hjúkrunar og kostnaðarsamrar? Verður hann látinn bíða af því að hann á ekki mikið í lífeyrissjóði til þess að borga til að stofnunin fái það sem sértekjur? Hefur það áhrif þegar sjúklingur á mikla peninga og er ódýr í rekstri, þarf minni þjónustu og lítið af hjálpartækjum eða jafnvel engin? Verður hann tekinn fyrst? Ég er ekki að segja að svo sé en það er alltaf hætta á því í kerfi eins og við búum við í dag.