Réttarstaða íbúa á hjúkrunar- og dvalarheimilum

Miðvikudaginn 25. febrúar 1998, kl. 16:52:12 (4227)

1998-02-25 16:52:12# 122. lþ. 75.13 fundur 284. mál: #A réttarstaða íbúa á hjúkrunar- og dvalarheimilum# þál., ÁRJ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 75. fundur, 122. lþ.

[16:52]

Ásta R. Jóhannesdóttir (andsvar):

Herra forseti. Ég kem hér upp í andsvari til að ítreka að ég er sammála hv. þm. Guðrúnu Helgadóttur þegar hún segir að verið sé að mismuna fólki á Íslandi gagnvart sjúkrahúsvist. Mig langar aðeins að skýra þetta nánar því það er ekki bara öldruðum sem er mismunað. Það er verið að mismuna lífeyrisþegum vegna þess að það eru bæði aldraðir og öryrkjar sem þurfa að greiða fyrir sjúkrahúsvist ef þeir eru á sjúkrahúsi lengur en fjóra mánuði á tveimur árum. Um leið og vistin fer yfir fjóra mánuði samtals á tveimur árum falla niður allar lífeyrisgreiðslur þeirra frá Tryggingastofnun ríkisins og þeir greiða síðan fyrir vistina. Það er ekki bara á öldrunardeildum, það er á geðdeildum, það er á öllum þeim deildum sem aldraðir og öryrkjar eru á eftir fjóra mánuði á tveimur árum. Þarna er því greinilega verið að brjóta jafnræðisregluna. Það er verið að mismuna fólki, láta greiða fyrir sjúkrahúsvist sem við höfum hreykt okkur af að sé ókeypis fyrir alla. Það er bara ekki rétt, því miður. Það eru þeir sem verst eru settir í samfélaginu, lífeyrisþegarnir, sem þurfa að treysta á greiðslurnar úr almannatryggingakerfinu sem þurfa að greiða fyrir þá vist eftir vissan tíma inni á sjúkrastofnunum.