Réttarstaða íbúa á hjúkrunar- og dvalarheimilum

Miðvikudaginn 25. febrúar 1998, kl. 17:08:43 (4233)

1998-02-25 17:08:43# 122. lþ. 75.13 fundur 284. mál: #A réttarstaða íbúa á hjúkrunar- og dvalarheimilum# þál., Flm. ÁÞ
[prenta uppsett í dálka] 75. fundur, 122. lþ.

[17:08]

Flm. (Ásta B. Þorsteinsdóttir):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þm. sem hafa tekið þátt í þessari mjög mikilvægu umræðu. Jafnframt vil ég segja að það er sennilega vegna ókunnugleika míns og nýgræðingsháttar sem þingmanns að ég gerði mér ekki grein fyrir því fyrr en ég hafði flutt mitt mál í dag að hæstv. heilbrrh. var ekki til staðar við umræðuna. Ég hélt satt að segja að það væri meginreglan að þegar mál sem snerta einhverja hæstv. ráðherra væru þeir til staðar en hana hef ég ekki séð og satt að segja enga samflokksmenn hennar fyrr en á allra síðustu mínútum.

Ég vil upplýsa hv. þm. Guðmund Hallvarðsson um það fyrst hæstv. heilbrrh. hefur ekki verið til svara í dag að hvert einasta atriði í grg. með þessari þáltill. hefur verið margborið undir starfsmenn Tryggingastofnunar ríkisins sem staðfesta að hvert einasta atriði í greinargerðinni stenst og er eins og þar stendur. Ég vil að það komi fram.

Annars vil ég segja það að í lokin fannst mér hv. þm. beina þessu máli inn á þær brautir sem ég hóf mál mitt á en um tíma fannst mér vera farið að tala um ólíka hluti og ekki verið að bera saman það sem var til umræðu. Það var verið að tala um hjúkrunarþyngd, umönnunarþyngd og mannaflaþörf. Það er vissulega eitt dæmið sem snýr að rekstrarkostnaði stofnana hvort sem það eru stofnanir fyrir fatlaða eða aldraða en um það snýst málið alls ekki. Ég tek undir orð hv. þm. sem hafa talið það vera mjög mikilvægt að á því verði gerð úttekt og tek heils hugar undir það en ég held að við megum ekki beina þessu mikilvæga mannréttindamáli af því spori sem það á að vera á og tala um allt aðra hluti.

Ég vil nota tímann til að svara örfáum spurningum, herra forseti. Töluvert var talað um hjálpartæki í þessum umræðum og ég vil upplýsa hv. þm. Guðmund Hallvarðsson um að það er þannig að á mörgum stofnunum þurfa íbúar, vistmenn, að keppa við það hvort á að kaupa uppþvottavél fyrir stofnunina eða hvort viðkomandi aðili fái spelku til að ganga á. Kannski er þetta ekki svona á þeirri stofnun sem hann þekkir best til, en heimurinn er ekki einslitur. Þannig er veruleikinn fyrir mjög marga.

Að öðru leyti, herra forseti, vil ég líka aðeins staldra við og vekja athygli á því að þeir hópar sem eru til umræðu eru ekki einslitir. Þetta er fólk með mismunandi þarfir, mismunandi áhugasvið og mismunandi getu og hæfileika og auðvitað verður að ræða um það á þeim nótum en ekki að steypa alla í sama mótið.

Ég vek athygli á því að tillagan er á þá leið að Alþingi álykti að fela ríkisstjórninni að undirbúa breytingar á lögum um almannatryggingar þannig að þeir sem dveljast langdvölum eða eiga heimili sitt á hjúkrunar- og dvalarheimilum, vistheimilum eða sólarhringsstofnunum njóti sömu réttinda hvað varðar lífeyrisgreiðslur frá Tryggingastofnun ríkisins, hjálpartæki og aðra fyrirgreiðslu. Þetta er kjarni málsins og ég bið menn að missa ekki sjónar af honum. Þetta snýst að mínu viti um grundvallarmannréttindi þó vissulega séu þar undantekningar á, ég skal taka það fram. En ég tel að á hverjum degi sé brotinn réttur á fólki sem býr á stofnunum af þessu tagi. Þeim er mismunað á grundvelli búsetu. Oft er þetta fólk sem hefur ekki haft neitt val um búsetuformið né staðinn sem það býr á. Þeim er mismunað fjárhagslega, þeim er mismunað, t.d. í vali á læknisþjónustu, úthlutun hjálpartækja, persónulegra hjálpartækja þannig að þetta mál snýst um það grundvallarsjónarmið að mínu viti að allir séu jafnir fyrir lögum. Hingað til hefur ríkt um það sátt að allir þegnar landsins sem hafa með sköttum sínum verið að kaupa sér tryggingu fyrir því að geta notið ævikvölds í góðri umgerð og við fjárhagslegt öryggi eigi rétt á því að fá umönnun og hjúkrun eða læknismeðferð sér að kostnaðarlausu þegar þörf krefur. Málið snýst m.a. um það. Það snýst líka um að t.d. fatlaðir hafa þurft að vistast á slíkum stofnunum, jafnvel frá unga aldri, vegna þess að samfélagið hefur ekki boðið upp á önnur úrræði. Þetta snýst um að ævitekjur þessa fólks eru svo smánarlegar að það er vart hægt að lifa né deyja á þeim.

Ég held að þetta sé akkúrat kjarninn í umræðunni sem þarf að fara fram, að beina þessu inn í mannréttindaumræðu og að það eigi að ríkja jafnræði með þegnunum og ég tel að þetta sé eitt af þeim málum sem stingur hvað mest í augun hvað það varðar.

Annað sem ég vil vekja athygli á í lok umræðunnar, herra forseti, og það kom fram í máli hv. þm. Guðrúnar Helgadóttur, þar sem hún tók undir sjónarmið mín um að það þyrfti e.t.v. að skilgreina allar stofnanirnar á nýjan leik og gera skýran greinarmun á því hvað er heilbrigðisþjónusta og heilbrigðisstofnun og hvað er búsetuúrræði eða félagslegt úrræði og ég tel að þar megi ekki láta staðar numið. Ég tel enn fremur að það þurfi að skilgreina og endurskipuleggja verksvið þeirra ráðuneyta sem málið varðar og ég vil jafnvel ganga svo langt að segja að það eigi að aðgreina það skýrt í starfsemi Tryggingastofnunar ríkisins sem er félagslegs eðlis og þess sem er í raun heilbrigðismál.

Að lokum ítreka ég, herra forseti, vonbrigði mín yfir því að hæstv. heilbrrh. sá sér ekki fært að verða viðstaddur umræðuna en ég vona að hún láti sig málið varða og veiti því brautargengi í þingflokki sínum. Að lokum vona ég að hv. heilbr.- og trn. gefi málinu vandaða og góða umfjöllun og að Alþingi muni að því loknu veita þessu brýna mannréttindamáli brautargengi.