Tímareikningur á Íslandi

Miðvikudaginn 25. febrúar 1998, kl. 17:16:54 (4234)

1998-02-25 17:16:54# 122. lþ. 75.14 fundur 309. mál: #A tímareikningur á Íslandi# frv., Flm. VE (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 75. fundur, 122. lþ.

[17:16]

Flm. (Vilhjálmur Egilsson):

Hæstv. forseti. Ég mæli fyrir frv. til laga um tímareikning á Íslandi sem ég flyt ásamt hv. þingmönnum Árna M. Mathiesen, Arnbjörgu Sveinsdóttur, Guðna Ágústssyni, Sighvati Björgvinssyni og Ágústi Einarssyni. Frv. þetta er í fjórum greinum og felur í sér skilgreiningu á sumartíma og ákvæði um að sumartími skuli gilda frá síðasta sunnudegi í mars og ljúka síðasta sunnudag í október.

Ástæðan fyrir flutningi þessa frv. er sú að við sem að frv. stöndum teljum að sumartími sé mikið framfaramál fyrir marga í þjóðfélagi okkar. Ef við lítum til nágranna okkar, þá er það afar mismunandi hvernig þjóðir haga vinnutíma sínum, hvíldartíma eða svefntíma. Ef við förum t.d. suður í Evrópu til landa eins og Spánar, Portúgals, Ítalíu eða annarra þjóða við Miðjarðarhafið, þá er það t.d. mjög algengt að fólk vakni snemma að morgni, vinni fram yfir hádegi, taki sér hvíldartíma jafnvel milli 13.30 og 17.00 á daginn, hefji vinnu aftur kl. 17.00 og ljúki henni ekki fyrr en um kl. 20.00. Þetta er að sjálfsögðu siður þessara þjóða og mótast af því loftslagi og hitastigi sem er í þessum löndum. Þannig má segja að í sjálfu sér sé það ekkert náttúrulögmál hvernig vinnutíma eða hvíldartíma er háttað. Það er t.d. ekki náttúrulögmál að öll þjóðin eigi að vakna fimm tímum áður en sól er hæst á lofti og leggjast til svefns svona einum til tveimur klukkutímum áður en sólargangur er lægstur. Þvert á móti hlýtur það að vera skipulagsatriði hjá hverri þjóð að koma þessum hlutum þannig fyrir að það henti sem best flestum þeim sem lifa og starfa í þjóðfélaginu.

Því þarf að huga að því og taka það til umfjöllunar hér á hinu háa Alþingi að taka upp sumartíma. Í því felst það að færa klukkuna áfram um einn klukkutíma á sumrin en síðan til baka á vetrum. Þannig mundi vinna hefjast klukkutíma fyrr á sumartíma en lyki líka klukkutíma fyrr um eftirmiðdaginn. Þjóðin mundi einfaldlega ákveða að taka hvíldartíma, tómstundatíma og útivistartíma sinn á sumrin meðan birtu og hita nýtur best.

Við tökum eftir því, hæstv. forseti, að á mörgum vinnustöðum byrjar fólk að vinna fyrr á sumrin heldur en á veturna. Þannig er t.d. ekki óalgengt að skrifstofuvinna hefjist kl. átta á morgnana að sumri til og ljúki þá kl. fjögur á daginn. Hins vegar er það ákveðnum takmörkunum háð hve einstakir vinnustaðir geta breytt vinnutíma sínum að þessu leyti. Ýmsar þjónustustofnanir eins og t.d. og leikskólar eða dagheimili eru ekki opnaðar fyrr en rétt fyrir átta og því hamlar það oft því að barnafólk geti farið til vinnu t.d. kl. sjö á morgnana ef það kýs svo. Að sjálfsögðu er ákveðin þörf á samstillingu á því hvenær fólk byrjar að vinna og hvenær það lýkur vinnudeginum.

Á Siglufirði hefur t.d. komið til tals að taka upp sérstakan sumartíma. Þá mundu allir hefja vinnu t.d. klukkutíma fyrr á sumrin en á veturna og öll fyrirtæki og allar stofnanir mundu flytja sig til um einn klukkutíma. Málið snýst um að samskiptatími fyrirtækja við þá sem þau þurfa að hafa samskipti við fellur ekki saman. Banki á Siglufirði yrði þá opnaður fyrr en bankar í Reykjavík. Hann mundi jafnframt loka klukkutíma fyrr á sumrin og það gæti haft í för með sér erfiðleika varðandi uppgjör, tölvusamskipti og ýmiss konar samskipti.

Í nágrannalöndum okkar hefur því þróast sá háttur að færa klukkuna fram um einn klukkutíma á sumrin og síðan aftur til baka á vetuna. Þetta er gert af ýmsum ástæðum og hefur iðulega verið til umfjöllunar t.d. í Evrópusambandinu. Ef við lítum vestur til Bandaríkjanna og Kanada, þá er sumartími í gildi þar einnig.

Framkvæmdastjórn Evrópusambandsins gaf nýlega frá sér skýrslu til Evrópuþingsins og ráðherraráðsins sem dagsett er 25. apríl 1996. Í þeirri skýrslu er fjallað um áhrif sumartímans. Þar kemur fram að sumartíminn hafi marga góða kosti og sú gagnrýni sem komið hefur fram þykir þar léttvæg. Innan Evrópusambandsins er áfram samræmdur sumartími í gangi. Þetta mál hefur verið flutt á hinu háa Alþingi áður en var þá ekki útrætt. Hins vegar fengu allmargir aðilar frv. til umsagnar þegar það var lagt fram síðast.

Segja má að umsagnirnar um frv. hafi undantekningarlítið verið jákvæðar. Það kom t.d. fram að öll íþróttahreyfingin er þessu máli mjög fylgjandi. Það skapar oft mikla erfiðleika þegar birtu fer að þverra á haustin að reyna að halda úti íþróttakappleikjum eða hvers kyns íþróttaiðkun. Golf\-áhugamenn eru t.d. eru mjög hlynntir því að sumartími verði tekinn upp. Fulltrúar ferðaþjónustunnar leggja eindregið til að sumartími verði tekinn upp, enda mundi sumartími og aukinn tími til útivistar og útiveru yfir sumarið hafa góð áhrif á ferðaþjónustuna svo ekki sé talað um það hringl sem er með flugáætlanir, um það bil er sumartími hefst í okkar nágrannalöndum.

Enn fremur var leitað umsagnar aðila eins og Sölumiðstöðvar hraðfrystihúsanna eða þeirra sem eru í milliríkjaviðskiptum og undantekningarlítið kemur fram stuðningur frá slíkum aðilum við sumartímann. Þegar sumartími er tekinn upp í okkar nágrannalöndum styttist samskiptatími milli Íslands og þessara landa í Vestur-Evrópu mjög mikið. Samskiptin eru ekki jafngreið og þegar tímamismunurinn er einn klukkutími.

Það eru þess vegna, hæstv. forseti, margvísleg rök fyrir því að taka upp sumartíma á Íslandi líkt og gert er í okkar nágrannalöndum og því legg ég þetta mál fram ásamt öðrum þeim flutningsmönnum sem standa að frv.

Ég legg til, hæstv. forseti, að þetta mál fái að ganga til 2. umr. Síðast þegar þetta mál var til umræðu var því vísað til hv. efh.- og viðskn. en ég hef síðan heyrt ákveðnar óskir um að það gangi til allshn. Ég legg það í dóm hæstv. forseta að úrskurða um hvort sé eðlilegra, að málið gangi til allshn. eða efh.- og viðskn. Ég legg til að málinu verði alltént vísað til nefndar.

(Forseti (GÁ): Forseti mun láta skoða það.)