Tímareikningur á Íslandi

Miðvikudaginn 25. febrúar 1998, kl. 17:39:57 (4236)

1998-02-25 17:39:57# 122. lþ. 75.14 fundur 309. mál: #A tímareikningur á Íslandi# frv., GHall
[prenta uppsett í dálka] 75. fundur, 122. lþ.

[17:39]

Guðmundur Hallvarðsson:

Herra forseti. Hér hafa menn flutt athyglisverðar tölur sem þó hafa heyrst áður í þingsölum og er ekkert við það í sjálfu sér að athuga. En þegar dregnar eru saman meginniðurstöður þess sem hér hefur verið sagt til réttlætis þess að breyta úr sumartíma eins og nú ríkir hér á Íslandi allt árið yfir í einhvern nýjan sumartíma sem ekki er eðlilegur miðað við hnattstöðu landsins, þá eru meginrökin þessi: Það varðar viðskipti við útlönd og það er hægt að grilla meira af lambakjöti.

Herra forseti. Þegar grannt er skoðuð greinargerðin með frv., þá kemur þar fram aftur nokkur villa sem fólk áttar sig ekki á þegar talað er um að Evrópusambandið hafi gefið út tilskipun um samræmdan sumartíma í aðildarríkjum. Er þá miðað við að sumartími hefjist klukkan eitt eftir miðnætti síðasta sunnudag í marsmánuði og er klukkan þá færð fram um eina klukkustund. Honum ljúki síðan klukkan eitt eftir miðnætti síðasta sunnudag í október þegar klukkan er færð til baka um eina klukkustund. Þetta á við þau lönd sem þegar eru að færa klukkuna fram og til baka eftir árstímum. Það er aðeins verið að leggja það til af hálfu Evrópusambandsins að þær þjóðir sem færa klukkuna sína geri það á sama tíma. Það þykir mér eðlilegt og rétt að komi hér fram.

Það vakti nokkra athygli mína ekki fyrir löngu þegar fréttir frá Frakklandi bárust um það að þeir væru orðnir nokkuð leiðir og þreyttir á þessari tilfærslu klukkunnar þar og hefðu mikinn hug á að færa sig og nálgast það sem Íslendingar gera, þ.e. að láta klukkuna í friði, láta hana standa allt árið um kring án þess að nokkuð sé verið að hringla með hana. Það kom fram hjá þeim sem gleggst vita um málið í Frakklandi að það sé áberandi vegna hringls með klukku að fólk sofi minna, það vaki of mikið, þetta sé líffræðilegt atriði sem hafi áhrif á vellíðan eða vanlíðan fólks, klukkan breyti matarvenjum og valdi svefntruflunum. Og þeir segja að það taki fólk þrjár vikur að jafna sig og ná áttum eins og líkaminn þarf í hvert sinn sem klukkunni er breytt. Læknar þar ytra merkja aukna lyfjanotkun samfara breytingu á klukkunni. Kúabændur kvarta sáran og þeir sem þurfa að sjá um tölvur og klukkur hafa í ærnu að snúast þegar þetta gengur yfir. Þá tala þeir um það sama og hér hefur verið nefnt áður, þ.e. aðlögunarvandamál aldraðra sjúklinga og kornabarna. Þeir þekkja þetta þar ytra alveg eins og hér á landi, en vart varð við þetta hér meðan þessi tímareikningur var enn við líði.

Hringlinu með klukkuna lauk með frv. til laga um tímareikning á Íslandi sem lagt var fyrir 88. löggjafarþing 1967--1968. Þá voru margir fegnir því að tilfærslu með klukku skyldi nú lokið og þá voru sett lög á Alþingi sem festu sumartímann í sessi þannig að þegar flutningsmenn segja nú að það eigi að fara að koma á einhverjum sumartíma, þá eru þeir að fara með rangt mál vegna þess að miðað við hnattstöðu landsins, er sumartími í gildi á Íslandi allt árið.

Ef menn ætla að færa klukkuna til þá er gott að rifja upp hvernig það virkar á birtingu t.d. í Reykjavík. 1. október er birting þar klukkan 6.48 en eftir breytingu verður hún klukkan 7.48. Það samsvarar birtingu 22. október.

[17:45]

Sama á við um Ísafjörð. Segjum að 1. október sé klukkan 6.50 þá verður hún eftir breytingu 7.50 og það samsvarar því að við séum komnir til 20. október. Ég nefni þetta af því að menn eru að tala um að þetta sé nauðsynlegt fyrir þá firði sem hafa há fjöll.

Ef við tökum 30. október þá er birting á Ísafirði kl. 8.22, yrði eftir breytingu 9.22 og það samsvaraði því að í tímasetningu væri komið frá 30. október fram til 19. nóvember. Það er því mörgu að hyggja og margt að athuga þegar að tímanum er gáð.

Annað er líka athygli vert sem menn hafa skoðað nokkuð grannt og vitna ég þá til manna sem eru á læknisbrautinni og þekkja nokkuð grannt til hvaða áhrif breytingar hafa á fólk hvað áhrærir tímann. Þó að við höfum lifað á Íslandi í þessi ár frá því að lögum var breytt 1968, eins og ég gat um áðan, og klukkan hefur verið sú sama, þá er fólk samt sem áður að fara á erlenda grund og tímabreytingar þar hafa áhrif á fólk sem læknar hafa greinilega fundið fyrir hér heima.

Öll umræðan hefur algerlega litið fram hjá þeirri staðreynd að tímasetningar og sú reglubundna breyting birtu og myrkurs sem á sér stað á hverjum sólarhring er einhver mikilvægasti áhrifavaldur í lífi okkar allra. Allar svokallaðar lífklukkur líkamans eru háðar þessum breytingum og þær ráða því hvenær við sofum og vökum, hvenær við erum þreytt og hvenær óþreytt og stjórna getu okkar og hæfni til þess að leysa af hendi þau verkefni sem við fáumst við. Ætli íþróttahreyfingin hafi athugað sinn gang þegar hún var að senda umsögn sína varðandi þetta mál? Og ætli golfararnir hafi athugað það að miðað við þessar breytingar minnkar færni þeirra og hæfni í því nákvæma spili sem þeir leika í golfinu? Ég hugsa ekki. Þeir hafa bara litið í átt til sólar og séð að með breytingu á klukkunni lengjast möguleikar okkar á golfvellinum og svo þegar heim er komið er grillað lambakjöt.

Það hafa verið gerðar kannanir á svefnvenjum Íslendinga sem sýna að Íslendingar fara að jafnaði einni klukkustund seinna að sofa en aðrar Evrópuþjóðir og vakna að jafnaði einni klukkustund síðar að morgni en þær. Lífið á Íslandi er því einni klukkustund seinna á ferðinni miðað við klukkuna en annars staðar. Ekki er hægt að kenna neinu sérstöku um nema ef vera skyldi því að hér er klukkan núna rangt stillt miðað við sólargang og hnattstöðu landsins. Klukkan er rangt stillt í dag. Þetta misræmi sem flutningsmenn hafa talað um og vilja auka enn frekar hafa alvarleg áhrif þegar til langs tíma er litið.

Það hefur verið kannað á Íslandi hve margir eiga í svefnerfiðleikum og hefur komið í ljós að allt að 20--30% Íslendinga eiga erfitt með að sofna á kvöldin og stór hópur á í erfiðleikum með að vakna á morgnana, sérstaklega ungt fólk. Með þessu frv. á enn að auka á þá erfiðleika.

Þessar upplýsingar og samantekt sem ég hef flutt fram hefur Júlíus K. Björnsson sálfræðingur tekið saman en hann starfar við rannsóknir og meðferð svefntruflana á rannsóknarstofu geðdeildar Landspítalans.

Virðulegi forseti. Það er fleira sem hefur alvarleg áhrif við þessa breytingu sem flutningsmenn vilja leggja til varðandi klukkuna. Ég sé að ég hef klippt út úr einu ágætu dagblaði, 20. apríl 1993, grein sem 1. flm. hv. þm., Vilhjálmur Egilsson, skrifaði. Hann leggur megináherslu á sitt mál með eftirfarandi orðum, með leyfi forseta:

,,Það hefur mikla þýðingu að lengja samskiptatímann við Evrópu. Með því að færa klukkuna fram um eina klukkustund á sumrin getum við náð miklum árangri.``

Ég spyr: Eru það hagsmunir hins almenna borgara sem hér eru hafðir að leiðarljósi eða er það viðskiptalífið sem verið er að hugsa fyrst og fremst um að meginhluta til? Ég geri mér grein fyrir því að það eru staðir úti á landi sem gjarnan vildu hafa þetta með þessum hætti. En er nokkuð sem bannar það sem Siglfirðingar hafa hótað áður, að breyta tímanum án tillits til þess hvað gert verður? Ég sé ekki þann vanda sem blasir við vegna þessa máls, því að á sumrin breytir skrifstofufólk vinnutíma sínum almennt, hættir að mæta klukkan níu á morgnana en mætir klukkan átta til að losna fyrr, alveg eins og kom fram hjá síðasta ræðumanni, hv. þm. Arnbjörgu Sveinsdóttur. (Gripið fram í: Hugsaðu þér ef við þyrftum að byrja kl. 7.)

Það sem hins vegar er alvarlegast í þessu er að stórfyrirtækin gefa línuna og segja: Jú, af því að það þjónar viðskiptahagsmunum okkar að færa klukkuna skulu allir Íslendingar á lappir fyrr á morgnana til þess að við getum sinnt okkar verslunar- og viðskiptahagsmunum. Af hverju fara þeir ekki fyrr á fætur morgnana? Það er ekkert vandamál fyrir þá að byrja fyrr ef þeir þurfa að nota faxtæki sín og síma. Og þá er aðeins litið til Evrópu. Hvað þá þegar horft er vestur um haf? Þær þjóðir sem lifa lengst allra eru Íslendingar og Japanar og hvað er sammerkt með þeim? Hvorug þessara þjóða breytir klukkunni. Það er meginmálið. Hvorug þessara þjóða breytir klukkinni og lifa lengst allra þjóða á þessum hnetti.

Rökin gegn nýjum sumartíma eru m.a. þessi: Eins og ég hef komið inn á áður mun tímabreyting raska svefnvenjum manna. Ég er sammála þeim í Frakklandi sem nú eru að gagnrýna slíkar tímabreytingar.

Það var talað um aldraða, börn og sjúklinga. Á þeim árum þegar sérstakur sumartími var í gildi hérlendis var algengast að slíkir hópar kvörtuðu. Þegar verið var að hringla með klukkuna var það algengasta umkvörtunarefnið í blöðum, ræðum og riti á vorin og haustin.

Við þyrftum að stilla allar klukkur á landinu tvisvar á ári og í mörgum tilvikum er það mikil fyrirhöfn. Þeir sem eiga viðskipti vestan hafs mundu missa eina klukkustund af sameiginlegum skrifstofutíma og er hann þó skammur fyrir. Þess vegna kemur það mér mjög á óvart að Sölumiðstöð hraðfrystihúsanna skuli nú leggja þessu lið eða eru viðskiptin kannski að beinast meira frá Bandaríkjunum til Evrópu? Ég held ekki en samt sem áður eru mikil viðskipti í báðar áttir. Þess vegna kemur þetta mér mjög á óvart varðandi afstöðu þeirra en hún ræður nú ekki öllu. Það er hinn almenni íbúi landsins sem auðvitað ræður þarna mestu um og hefur mest um það að segja hvernig hann vill haga tíma sínum. Vilja Íslendingar almennt vegna sérstöðu verslunarfyrirtækja á Íslandi breyta klukkunni þeirra vegna? Eða er ekki eðlilegt að þeir sem þurfa á því að halda fari fyrr á morgnana og láti aðra í friði?

Venjulega meta menn skammdegið eftir því hvenær birtir á morgnana. Ef klukkunni yrði flýtt um klukkustund fram undir lok október þýddi það beinlínis að menn fyndu fyrir skammdeginu tæpum þremur vikum fyrr en þeir gera nú eins og ég hef fært rök að.

Breyta þyrfti veðurfregnatímum í útvarpi tvisvar á ári því Veðurstofan verður að gera athuganir sínar á föstum tímum eftir miðtíma Greenwich. Breyta þyrfti mjaltatímum í sveitum og heyvinnutímum mundi seinka. Það væri gaman að heyra hver afstaða Bændasamtakanna er til breytingar á klukkunni og gaman væri að spyrja að því. (VE: Þeir mundu selja meira lambakjöt.) Já, þeir mundu selja meira lambakjöt en sennilega yrðu kúabændur ekki jafnhrifnir af þessari breytingu því að greinilegt er að nytin mundi minnka verulega í kúm. (VE: Og selja meira nautakjöt.)

Þeir sem nota flóðtöflur um sólargang og hliðstæðar töflur í almanökum yrðu að muna eftir að leiðrétta tölur á réttan veg meðan sumartíminn er enn í gildi því að töflurnar verða að fylgja sama tíma allt árið, og að víkja frá þeirri hefð mundi aðeins auka hættu á misskilningi og mistök í túlkun slíkra talna geta haft alvarlegar afleiðingar.

Aðilar sem sinna rannsóknum, samgöngum og fjarskiptum þar sem tímaviðmiðanir eru Greenwich mean time mundu ekki lengur njóta þeirra forréttinda og þæginda að búa við þann tíma í daglegu lífi allt árið. Um leið eykst hætta á mistökum við tímaskráningar. Tímareikningur að sumrinu yrði víðs fjarri því upprunalega markmiði að hádegi sé klukkan tólf og miðnætti klukkan 24. Hugtökin hádegi og miðnætti yrðu nánast óræð ef ekki fylgdu nánari skýringar. Og það sérkennilega mundi koma upp varðandi þetta mál, ef af yrði, sem ég vona ekki, að sól yrði í hádegisstað frá kl. 13.38 til kl. 14.53 allt eftir landshlutum og árstímum. Miðnætti eftir sólinni yrði á sama tíma á tímabilinu frá kl. 01.38 til 02.53. Og mundu menn tímasetja sig áfram og nota viðmiðið hádegi? Hvernig ætla menn að fara að því?

Herra forseti. Ég held ég hafi ekki fleiri orð um þetta, svo einörð er afstaða mín gegn þessu frv. Ég met það mikils að við skulum hafa tíma og ráðrúm til að skiptast á skoðunum um þetta mál. Sem betur fer er lýðræðið gott á Íslandi og þó að menn flytji frv. til laga um það sem þeir telja gott mál er ábyggilega stærri hópur sem telur að hér sé vont mál á ferðinni. Ég vil ítreka það sem ég sagði áðan þegar litið er til Evrópu og dáðst að tímaflutningi manna þar, að þar er þó eitt land sem hefur óskað þess að aldrei hefði verið farið út í þessa vitleysu heldur tekið Ísland sér til fyrirmyndar.